Mér var það ljóst þegar svona var komið, að ekki gæti ég bara staðið þarna og tekið myndir af aðgerðum. Auðvitað var ábyrgð mín á þessum ofurspenntu og heyrnardaufu (maður heyrir stundum það sem maður vill heyra - annað ekki) ótvíræð. Ekki gæti ég tekið áhættuna af því að þurfa að skila þeim í hendur foreldranna útstungnum og í taugaáfalli.
Með eitubrúsann í vinstri hönd og prikið í þeirri hægri gerði ég þarna lokaárás á geitungabúið.
Fyrst lét ég dreggjar úr brúsanum vaða á kvikindið sem enn hafði sést hreyfa sig í gatinum á búinu. Því næst rak ég prikið í mitt búið og reif á það gat.
Þetta hljómar sannarlega saklaust, allt saman þegar það er lesið, en ekki gat ég þarna vitað hvað þetta myndi geta haft í för með sér.
Það sem gerðist næst má líkja við að horfa á kvikmynd hægt.
1. Hátíðniöskur barnabarnanna: "Það koma geitungar út!!!"
2. Hátíðniöskurbarnabarnanna sem skáru æ minna í eyrun eftir því sem þau fjarlægðust (þau
enduðu inni í lokuðu herbergi með sæng yfir sér).
3. Ég sá 3 geitunga koma fljúgandi út úr búinu, rak hælinn í einhverja ójöfnu og þar sem báðar hendur voru uppteknar og EOS um hálsinn, vissi ég ekki fyrr til en ég lá á bakinu með geitunga sveimandi yfir mér.
Ég úðaði dreggjum í brúsanum í átt til þeirra, yfir mig og allt um kring.
Til að setja kvikmyndina aftur á eðlilegan hraða þá lauk þessum atgangi með því geitungarnir þrír hurfu út í buskann.
Já, já, ég veit að það hefur ekki litið vel út að hlunkast þarna á bakið og ég þakka máttarvöldunum fyrir að fD var ekki í stofuglugganum til að horfa á óhappið. Þegar hún leit samsvarandi atvik síðast, hafði það í för með sér áralanga innri gleði hennar, þar sem hún rifjaði upp tiltekin viðbrögð mín á flótta unda öskubrjáluðum geitungahóp.
Á fætur fór ég og EOSinn reyndist ekki hafa skemmst.
Enn var örlítið eftir á brúsanum og það lét ég vaða inn um rifuna sem ég hafði gert á búið.
Innan skamms fór ég að heyra aftur spennuþrungnar raddir fjögurra afkomenda sem höfðu vogað sér aftur undan sænginni. Nú var komið að þeim.
Prikið var notað til að rífa búið betur. Þar blasti við gríðarlegur
fjöldi dauðra geitunga og út féll innvolsið sem geymir egg/lirfur/púpur.
Ekkert líf varð þarna séð svo ég skellti því í fötu með vatni og lét standa yfir nótt.
Morguninn eftir taldi ég allt sem kvikt hafði verið. Ég geng út frá að upp undir hundrað geitungar hafið fallið úr búinu, 137 flughæfir voru í búinu, 200-250 lirfur og púpur fann ég. Þannig má segja að í þessu búi hafi verið allt að 600 geitungar. Ég hugsa þá hugsun varla til enda, ef þeir hefðu fengið að dansa í kringum okkur á haustdögum.
Ég reikna með, að "operation geitungabú" hverfi ekki úr huga barnanna fyrst um sinn. Þarna lærðu þau (og ég líka) aðeins meira um þessa ofurduglegu snillinga, sem njóta óttablandinnar virðingar í mannheimi.
Eftir talningu og myndatökur setti ég allt saman í poka og gegn vilja fD (en að ráði líffræðingsins í fjölskyldunni) kom ég pokanum fyrir í frystikistunni yfir nótt, áður en þetta listaverk endaði í ruslatunnunni.
(með því að smella á myndirnar má sá stærri útgáfu þeirra)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli