03 desember, 2019

Jaðarsett sameiningartákn (2)

Þessi mynd, frá fjölskyldu Ólafs Einarssonar læknis, var tekin um 1950.
Þarna er horft frá sumarhúsi fjölskyldunnar, yfir garðlönd, að gróðurhúsum
og bragga sem þau byggð. Þar fyrir aftan er Hveratún og sjá má þar fyrir
aftan gróðurhúsin á Sólveigarstðum.
Hér er um að ræða framhald af Jaðarsett sameiningartákn (1).
Uppsveitahrepparnir eignuðust sem sagt jörðina Laugarás í Biskupstungum árið 1923, til að gera að læknissetri fyrir uppsveitirnar. Utan um málefni Grímsneslæknishéraðs (eins og læknishéraðið kallaðist þá) héldu oddvitar hreppanna í umboði hreppsnefndanna og héldu gjörðabækur um starfsemina. Enn hefur mér ekki unnist tími til að vinna upp úr gjörðabókunum, en það hefur nú tekist að safna saman á Héraðsskjalasafn Árnessýslu öllum gjörðabókum frá árinu 1931. Það þýðir að það vantar enn efni frá um það bil fyrstu 10 árum í sögu læknishéraðsins. Ég hef reynt að leita þeirra, en enn hefur sú leit ekki borið árangur. Svo mikið veit ég þó, að Helgi Ágústsson í Birtingaholti var formaður þessarar oddvitanefndar fyrstu árin, en við af honum tók sr. Guðmundur Einarsson á Mosfelli um 1931. Ég held að nánast upp frá því og þar til Biskupstungnahreppur tók við umsýslu með málefnum Laugaráss, hafi þeir feðgar Eiríkur Jónsson og Jón Eiríksson í Vorsabæ, verið atkvæðamestir í því sem sneri að Laugarási. Jón var lengi vel nokkurskonar oddviti oddvitanna og framkvæmdastjóri Laugaráslæknishéraðs. Hann var stundum kallaður borgarstjóri í Laugarási og "Jón í Vossas".

Jón Eiríksson
Ég gríp hér niður í viðtal við Jón, sem birtist í Sveitarstjórnarmálum árið 1978:

— Á ekki Skeiðahreppur samaðild að Laugaráslæknishéraði ásamt fleiri hreppum? 
„Jú, Skeiðahreppur, Grímsneshreppur, Laugardalshreppur, Biskupstungnahreppur, Hrunamannahreppur og Gnúpverjahreppur eiga saman jörðina Laugarás í Biskupstungum. Þar hefur nú risið upp heilsugæzlustöð fyrir þessar uppsveitir Árnessýslu. Jörðina keyptu hrepparnir á árinu 1922 til þess að reisa á henni læknisbústað. Var það mikið heillaspor. Auk þess sem jörðin liggur miðsvæðis í héraðinu, er þar mikill jarðhiti og góð aðstaða til ylræktar. Læknishéraðið hefur leigt út lönd og hita og hefur komið upp hitaveitu á staðnum. Eru þarna orðnar fjórtán garðyrkjustöðvar, og því allmyndarlegur byggðarkjarni. Á staðnum hefur verið byggð upp heilbrigðisþjónusta, og á árinu 1971 var þar stofnuð læknamiðstöð, sem nú hefur breytzt í heilsugæzlustöð. Þar starfa tveir læknar, hjúkrunarfræðingur og læknaritari."
— Nú hefur þú haft forgöngu um framkvæmdir í Laugarási um árabil. Hvernig er stjórnarfyrirkomulagi háttað á staðnum?
„Þetta er í rauninni nokkuð flókið mál. Oddvitar hreppanna, sem eiga jörðina Laugarás, hafa með höndum yfirstjórn allra mála á staðnum, og hefi ég verið formaður oddvitanefndarinnar síðan árið 1959. Hefi ég þvi séð um uppbyggingu og daglegan rekstur á staðnum. Síðan heilsugæzlustöðin komst á, lýtur hún sérstakri stjórn, og hefi ég einnig verið formaður í henni."
— Nú er Laugarás í Biskupstungnahreppi. Hvernig fer það saman, að oddviti Skeiðahrepps sé að ráðslaga þar með t. d. skipulags- og byggingarmálefni?
„Ég vil svara því til, að Biskupstungnahreppur sér um skipulagsmál, eins og honum ber að lögum, og að farið sé eftir byggingarsamþykkt hreppsins. En ég hefi í umboði oddvitanefndarinnar leigt út lönd og hita. En samstarf við oddvita Biskupstungnahrepps hefur verið ágaett, t. d. um skipulagningu byggðarinnar þar."
— Hefur þú trú á því, að Laugarás muni vaxa ört sem byggðarkjarni?
„Ég tel, að Laugarás búi yfir miklum ónýttum möguleikum til aukinnar ylræktar. Það hefur sýnt sig, að þar er unnt að fá mikið viðbótarvatn og að það er óvenjulega gott, ekki til í þvi kísilmyndun né önnur skaðleg efni. Þá tel ég, að þarna muni í framtíðinni rísa upp stofnanir, sem byggjast á þessari góðu aðstöðu, og hef ég þá í huga til að mynda heilsuhæli eða elliheimili. Síðan á stríðsárunum hefur Rauði kross Islands rekið barnaheimili í Laugarási. Það hefur ekki verið starfrækt nokkur allra síðustu árin, en til athugunar er að reisa þar nýtt barnaheimili."
— Nú nær Biskupstungnahreppur talsvert suður fyrir Hvítá. Eru það ekki harla óvenjuleg og annarleg hreppamörk?
„Það er rétt, að landfræðilega ættu þrjár jarðir í Biskupstungnahreppi frekar að heyra til Skeiðahreppi, því þær eru sunnan Hvítár. Þetta fyrirbæri mun vera frá tíma biskupsstólsins í Skálholti. Á 18. öld voru allar jarðir í Skeiðahreppi og flestar jarðir í Biskupstungnahreppi í eigu stólsins. Ég hefi ekkert reynt til þess að fá þessu breytt, enda ávallt verið gott samstarf milli þessara sveita."
Svo mörg voru þau orð Jóns og einhvernveginn minnir mig nú, að Laugarásbúar hafi nú ekki alltaf rekist vel og samskipti þeirra við þá yfirstjórn oddvitanefndarinnar sem birtist í viðtalinu við Jón, virðast ekki hafa verið alveg slétt og felld. Sérstaklega olli hitaveitan ýmsum núningi, en hún var stofnuð 1964 ásamt Vatnsveitufélagi Laugaráss (kalt vatn). Þessar veitur voru ekki síst nauðsynlegar vegna Sláturhússins, sem tók til starfa haustið 1964. Hitaveitan ásamt Hvítárbrú (1957) opnaði síðan möguleika á mikilli fjölgun garðyrkjubýla í Laugarási.
Það var þessi núningur milli stjórnar læknishéraðsins og  íbúa (garðyrkjubænda) sem leiddi til þess að þessi samþykkt var gerð á aðalfundi Hagsmunafélags Laugaráss. áið 1980:

Aðalfundur Hagsmunafélags Laugaráss haldinn 2. júní, 1980, skorar á hreppsnefnd Biskupstungna að stefna að því af fullum einhug, að taka jörðina Laugarás á leigu með réttindum og skyldum, af læknishéraðinu.
Árið 1982 var Biskupstungnahreppur svo tekinn við rekstri hitaveitunnar, en notendur veitunnar skipuðu meirihluta stjórnar. Það féll ekki allt í ljúfa löð við breytta rekstrarstjórn veitunnar, sem sjá má af aðalfundarsamþykkt frá 1985:
 
Aðalfundur Hagsmunafélags Laugaráss haldinn 22/4, 1985 mótmælir eindregið þeirri aðferð sem notuð er við skipulagningu Laugaráshverfis, en hún felst í því, að hreppsnefnd Biskupstungnahrepps lætur skipulegga lóðir hingað og þangað í landi Laugaráss og ætlar síðan Hitaveitu Laugaráss og Vatnsveitu Laugaráss að leggja stofna á þessi svæði, án þess að tryggt sé að þau byggist í náinni framtíð, eða jafnvel yfirleitt, eins og skipulag gerir ráð fyrir.

Af þessu ráðslagi leiðir, að kostnaður hitaveitu og vatnsveitu verður óhóflega mikill fyrir þá íbúa sem fyrir eru í Laugarási. Aðalfundurinn telur hreppsnefnd ábyrga fyrir þessu skipulagshneyksli og fer þess á leit, að kostnaður sá sem hitaveita og vatnsveita verða fyrir, verði greiddur úr hreppssjóði.
 Af þessu má sjá, að ekki virðast nýir herrar yfir málefnum Laugaráss, hafa sinnt málum eins og vonast hafði verið eftir.
Var þetta skref úr öskunni í eldinn?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...