17 september, 2023

Baðlón í Laugarási! Gengur það?

Fyrir nokkrum dögum birtist auglýsing í tilteknu dagblaði, þar sem óskað er eftir verkefnastjóra til að halda utan um byggingu baðlóns í Laugarási. Þessar upplýsingar virðast hafa komið við ýmsa.
Hér er nokkur dæmi um viðbrögð sem ég hef séð á samfélagsmiðli:

Hvað sem verður með þetta, finnst mér strax núna ánægjuleg breyting á umhverfinu þegar maður keyrir í gegn. Það er orðið miklu snyrtilegra en var. Þetta á þó líklega ekki að sjást mikið frá vegi.... sýnist mér?
Það er skemmtilegt að sjá að fólk er loksins að vakna til vitundar að fjölga baðstöðum á suðurlandi. Það eru ekki næstum því nógu mörg í Árnessýslu. Algerlega óásættanlegt að heita “Laugar -eitthvað” og hafa engar laugar. svar: það hefur lengi eða frá fyrstu Biskupum í Skálholti verið baðstaður á góðum stað hér í hverfinu
Þarf þetta ekki að fara í grenndakynningu? og má bara afhenda fjárfestum landið með ótakmörkuðum aðgangi að hvernum og hverju sem er? Nú þurfa Laugarásbúar að snyrta og laga til hjá sér
Það er reynslan af svona framkvæmdum í Laugarási að það verður ekki af þeim.
Ég reikna með að þetta verði eins
Ég hef lengi horft til Laugarás sem mögulegan stað til að skapa umhverfi þar sem Miðjarðarhafs loftslag ríki allt árið um kring
Kannski verður komið elliheimili þegar við þurfum á því að halda
Mér finnst þetta vera nokkuð afskekkt...
Frábært að það sé eitthvað í gangi hér í hverfi
Hver er eigandi? svar: það á að vera svona málum óviðkomandi ef einhverjir vilja leggja fúlgur fjár í uppbyggingu á svæðinu því ekki gerir sveitarfélagið neitt til að styðja við uppbyggingu
Frábært!

Svo kom auðvitað ýmislegt annað fram, bæði jákvætt og neikvætt, eins og gengur. Kaldhæðnin lét heldur ekki á sér standa.


Eftir því sem ég best veit, þá stendur til að byggja hótel þarna líka á sláturhúslóðinni og það vona ég sannarlega, fyrir hönd þeirra sem eru orðnir langþreyttir á að bíða eftir því að upp rísi í Laugarási öflug fyrirtæki, nægilega burðug til að efla byggðina, á stað sem getur talist einn sá fegursti í uppsveitum og þó víðar væri leitað.  

Það finnst mér orðið fullreynt að hreppsnefndir í uppsveitum stuðli að uppbyggingu, eða jákvæðri þróun byggðar í Laugarási. Þvert á móti og síðasta atlagan að þorpinu var gerð að heilsugæslunni.  Hvernig það fer, veit ég ekki enn.

Ég yrði ekki hissa þó það yrði gerð atlaga að þessu verkefni eins og öðrum, sem reynt hefur verið að stofna til. 

Það sem þarna er á ferðinni er verkefni sem stjórnast ekki af hreppapólitík, heldur miklu frekar þeim möguleikum sem blasa við. Það hvarflar ekki að mér annað en fagna því og sannarlega vona ég að þeim takist að sigrast á þeim úrtöluröddum, sem þeir munu örugglega finna fyrir.

Auk þessa finnst mér eðlilegt að hrepparnir selji Laugarásjörðina. Eignarhald þeirra á henni þjónar, að mínu mati, ekki hagsmunum Laugaráss eða Laugarásbúa.

Ég bý ekki lengur í Laugarási og á þá sennilega ekki að hafa rödd í þessu máli, en taugar mínar til staðarins eru sterkar og því leyfi ég mér að tjá mig um málefni Laugaráss, rétt eins og mig lystir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...