03 júlí, 2017

Jón frændi

Það var rólegheita laugardagskvöld. Líklega, svona eins og venjulega, hugljúf amerísk á RUV.
Síminn minn pípti og um reyndist vera að ræða framsendingu Hveratúnsbóndans á skilaboðum sem hann hafði fengið og sem sjá má hér til vinstri.
Fólk, frá Kanada hafði komið við á Hofsósi til að leita aðstoðar við að finna mögulega ættingja á þessu landi, en afi eins þeirra hafði farið til Vesturheims um aldamótin 1900.  Hveratúnsbóndinn setti mig í málið, líklega þar sem ég hef meira velt fyrir mér ættfræði en aðrir í Hveratúnsfjölskyldunni.
Það reyndist létt verk að finna út úr þessu, en þar sem það reyndist ekkert auðvelt að fá sumt fólk til að átta sig á hvernig skyldleika okkar við þetta fólk er háttað, hef ég útbúið mynd þar sem þetta á að vera nokkuð skýrt. Þessa mynd má sjá hér nokkru neðar, en í sem stystu má má segja að afi Kanadamannsins og amma móður minnar voru systkin.
Vissulega má segja að við frændur séum nokkuð fjarskyldir og ég veit harla lítið um ættingja mína hérlendis sem eru skyldir mér með þessum hætti.
Hvað sem segja má um það, þá ákvað ég nú að setja mig í samband frænda, en hann heitir John Robert Asmundson (Jón Róbert Jónsson), fullu nafni, fæddur árið 1942 og býr í bænum Red Deer í Albertafylki, en það fylki er næst vestasta fylkið á vesturstönd Kanada. Hann var hér staddur með konu sinni, Brendu (Deedee) Asmundson, frænku hennar og eiginmanni.


Jón og Siggi
Í sem stystu máli mæltum við okkur mót við Selfoss. Sigrún og Ásta slógust í för. Frá Selfossi lögðum við leið okkar á Baugsstaði þar sem Jón frændi  hitti Sigga frænda sinn, en eins og hver maður getur áttað sig á þá voru amma Sigga og afi Jóns systkin. Þarna slóst Ella (Elín Siggeirsdóttir) í hópinn.
Frá Baugsstöðum héldum við að Stóra-Núpi, en í kirkjugarðinum þar hvíla þau Ásmundur og Sigurlaug, langafi og langamma Jóns og Sigga. Við fundum ekki legstaðinn, en þegar fólk er búið að ferðast næstum hálfan hnöttinn þá skipta 5-10 metrar harla litlu.
Ferðinni lauk svo í Laugarási þar sem sest var niður og spjallað í Kvistholti og starfsemin í Hveratúni og á Sólveigarstöðum skoðuð.
Í Kvistholti: f.v. Jón, Deedee, Duncan, Marleen, Ásta og Sigrún
Ég verð nú að segja að þarna var á ferð ágætis fólk og Jón frændi virtist vera sómamaður og engin skömm að því að eiga slíkan fulltrúa þarna vestur í Alberta. Hann reyndi sig á einhverjum tíma við búskap, en það var víst hálf dapurlegt. Hann kom síðan á fót og rak nýlenduvöruverslanir (grocery stores) ásamt tveim bræðrum sínum, Harold Franklin og Edmund August. Þegar þeim þætti lauk keyptu hjónin Jón og Deedee fasteignir og munu lífa á þeim eignum nú. Þau eru miklir ferðagarpar og Jón kvaðst hafa komið til 80 landa.

---------------------
Ágúst Ásmundsson
Ágúst og Sigurlaug
Þá að fólkinu sem tengir þetta allt saman. Ég fann mynd af Ásmundi Benidiktssyni, en enga af Sigurlaugu, konu hans. Ég fann enga mynd af Guðnýju, langömmu og Siggi kvað enga slíka vera til, en hún lést 1920.  Jón sendi mér myndir af afa sínum honum Ágúst á yngri árum og aðra þar sem hann er ásamt konu sinni, ömmu Jóns, Sigurlaugu, en hún var einnig íslensk, en þau kynntust skömmu eftir að Ágúst kom til Kanada og giftust 1903.
Ágúst starfaði lengst af við "masonry" múrverk, hlóð hús og steypti gangstéttar og því um líkt.

Loks læt ég fylgja hér með  þátt sem Valdimar Briem skrifaði um Ásmund Benidiktsson


Ásmundur Benediktsson (1827-1916)
Margir menn bæði norðan lands og sunnan, einkum Þingeyingar og Árnesingar, munu kannast við Ásmund Benediktsson, er fyrir norðan var kendur við Stóruvelli (í Bárðardal), en fyrir sunnan við Haga (í Gnúpverjahreppi).
Ásmundur var fæddur á Stóruvöllum 19. des. 1827. Faðir hans var Benedikt bóndi Indriðason á Fornastöðum í Fnjóskadal Jónssonar bónda Þorsteinssonar í Lundi í sömu sveit. Fyrri kona Benedikts og móðir Ásmundar var Guðný Jónsdóttir bónda á Mýri í Bárðardal, systir Sigurðar bónda föður Jóns alþingismanns á Gautlöndum og sömuleiðis systir Jóns föður Kristjáns skálds. Guðný var ekkja eftir Ásmund Davíðsson, er bjó á Stóruvöllum.
Systir Benedikts var Herdís fyrri kona Jóns á Þverá, móðir Benedikts á Auðnum og þeirra systkina.
Seinni kona Benedikts var Helga Skúladóttir ekkja eftir Krislján bónda á Sigríðarstöðum í Ljósavatnsskarði.
Ásmundur ólst upp með föður sínum á Stóruvöllum ásamt Jóni bróður sínum. (Eina systur átlu þeir, sem dó ung). Árið 1852 fluttist faðir þeirra búferlum að Sigríðarstöðum, en þeir bræður synir hans tóku þá að búa á Stóruvöllum. Tveim árum áður, eða í júlí 1850, kvongaðist Ásmundur Sigurlaugu Jónsdóttur frá Fornastöðum. Hún var fædd 26. júli 1830. Faðir hennar var Jón bóndi Indriðason á Fornastöðum. Voru þau hjón bræðrabörn. Móðir Sigurlaugar var Ingibjörg Ólafsdótlir prests að Kvíabekk. Sigurlaug hafði flutst að Stóruvöllum nálægl ársgömul og alist þar upp hjá Sigurlaugu föðursystir sinni og manni hennar Jóni Daviðssyni.
Sigurlaug kona Ásmundar var hinn besti kvenkostur, og orðlögð fyr og síðar fyrir staka manngæsku. Varð og hjónaband þeirra hið farsælasta. Ásmundur var mikill atgervismaður á ýmsa lund. Hann var gáfumaður mikill, vel að sjer og fróður  í mörgu. Hann var maður mikill fyrir sjer að 5 ýmsu leyti og Ijet snemma mikið til sín taka. Hann fjekk og brátt mikið álit meðal sveitunga sinna, og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir þá. Hann mun og, að því er mig minnir, hafa verið hreppstjóri í sveit sinni í nokkur ár. Oft var hann í ferðalögum, ekki síst í erindum, er vandasöm þóttu.

Legstaðar leitað í Stóra-Núpskirkjugarði.
Árið 1870 gerði hann þá breytingu á ráði sínu að hann flutti búferlum suður á land, að Haga í Gnúpverjahreppi. Um tildrögin að þessari ráðabreytni er mjer ókunnugt, en að líkindum hefur honum þótt þröngt um sig þar sem hann hafði búið til þessa, enda mun honum hafa litist vel á sig í Haga, er þá var laus í ábúð; en þar hafði hann kynst í ferðalögum sínum suður á land. Þó er svo að sjá sem hann hafi verið alltregur til að yfirgefa Bárðardal, er á átti að herða. Bað hann siðar vin sinn Brynjólf Jónsson frá Minnanúpi að lýsa í ljóði hugsun sinni, er hann rendi síðast augum yfir æskudalinn sinn, er hann fór alfarinn þaðan. Gerði Brynjólfur það, og er það kvæði prentað í kvæðum hans 1889, bls. 101. Þótti Ásmundi, þá er hann sá kvæðið, nærri farið. Eftir að Ásmundur kom suður gekk smátt og smátt af honum efnalega. Var hann og um tima ómagamaður. Má og vera að sumir búskaparhættir hans, er hann hafði vanist nyrðra, hafi síður átt við á Suðurlandi. En þrátt fyrir þetta hjelt hann allri virðingu sinni og hafði traust sveitunga sinna; gegndi hann og fyrir þá ýmsum trúnaðarstörfum þegar svo bar undir. Hann var allmörg ár fulltrúi sveitunga sinna í sýslunefnd, og þótti þar sem annarslaðar talsvert að honum kveða.
Eitt af því, sem Ásmundur var einna kunnugastur fyrir út í frá, voru langferðir hans í ýmsum erindum, helst fyrir aðra. Minnir mig að hann hafi farið um 40 sinnum yfir Sprengisand, eða nálægt 20 ferðir fram og aftur, og komst hann þá stundum í hann krappan, en komst vel fram úr því öllu, enda var hann framúrskarandi ferðamaður. Á eina af slíkum ferðum sínum minnist hann í Dýravininum 1909, bls. 50.
Í rósahúsi á Sólveigarstöðum
Smátt og smátt fór heilsa hans að bila og hann að þreytast á búskapnum, enda hætti hann búskap er þau hjón höfðu búið í Haga í 19 ár. Tók einn sonur hans þá við.
Árið 1892 fluttust þau með honum að Fjalli á Skeiðum og voru þar 6 ár. En síðan fóru þau að Árhrauni í sömu sveit til annars sona þeirra, dvöldu þar 11 ár, en fluttust þaðan með honum að Kálfsholtshjáleigu í Ásahreppi í Rangárvallasýslu og dvöldu þar það sem eftir var ævinnar.
Mörg seinustu árin voru þau hjón heilsutæp; einkum var hann lengi ellihrumur og var stirt um mál. Sigurlaug dó 14. mars 1915, 84 ára, en hann tæpu ári síðar, 12. jan. 1916, 88 ára. Höfðu þau þá verið nærri 65 ár í hjónabandi. Bæði voru þau jörðuð að Stóranúpi, sem Hagi á kirkjusókn að.
Börn þeirra hjóna voru alls 11. Af þeim dóu 3 ung, en 1, Jón að nafni, fulllíða. Þau 7, sem lifa, eru: 1. Benedikt í Vesturkoti á Skeiðum, vitfirrtur frá unga aldri. (Um hann er saga í Dulrúnum Hermanns Jónassonar 1914 bls. 189). 2. Guðný, gift Guðmundi Jónssyni á Baugstöðum (frá Minnanúpi). 3. Vigfús, fyr bóndi í Haga og Fjalli. 4. Ásgeir, bóndi í Kálfholtshjáleigu. 5. Ingibjörg, gift Birni Guðmundssyni í Vesturkoti. 6. og 7. Ágúst og Halldór, báðir í Vesturheimi.
Ásmundur var maður í lægra meðallagi á hæð, þrekvaxinn og þjettur á velli. Hann var að eðlisfari skapmikill og kappsamur og fylginn sjer meðan hann naut sin fyrir aldurs og heilsu sakir. Hann var trúrækinn og alvörugefinn, en skemtinn í viðtali, og fylgdi með áhuga því sem gerðist hjer innanlands, alt fram á síðustu elliár. (Mynd sú af Ásmundi, er hjer með fylgir, er frá efri árum hans. En því miður mun engin mynd vera til af konu hans).

Valdimar Briem.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...