04 júlí, 2017

Aumingja karlarnir (1)

Áður en lengra er haldið, vil ég leggja á það áherslu við þig, lesandi, að því sem ég læt frá mér fara hér á eftir, ber ekki að taka persónulega. Ég er ekki að beina máli mínu til þín, sérstaklega, eða segja þér hvernig þú ert eða hvernig þú átt að haga þér
Er það ekki skýrt?  
Ég er bara að ræða þessi mál út frá minni sýn á þau, aleinn við tölvuna mína. Mögulega í þeirri von að það kalli ekki fram hefðbundnar upphrópanir (jafnvel öskur) á samfélagsmiðlum, heldur rólegri og yfirvegaðri umræðu. Það er hægt að ræða mál þannig, er það ekki?

Fyrir nokkru lét ég mig hafa það, að skrifa grein sem ég kallaði "Aumingja konurnar". Það er ekki laust við að hann hafi vakið nokkra athygli og viðbrögð, þó svo í rauninni hafi ég sagt neitt sérstaklega merkilegt þar, að mínu mati. Ég sá mig knúinn til að bregðast við rakalausum viðbrögðum ákveðinnar manneskju. Þau viðbrögð mín má sá hér. Þessi manneskja heyktist síðan á að birta svar mitt á sama stað og hún hafði úthúðað mér, en við áttum nokkur samskipti í athugasemdum við þennan pistil.

Kjarninn í greininni var sá, fyrir utan tilefnið, auðvitað, sem var dagskrá rásar 1 á RUV,  að ég teldi, miðað við allt og allt, væri gert of mikið af því í kynjaumræðunni, að gera lítið úr konum með því að leggja of mikla áherslu á kúgun þeirra af hendi karla, í stað þess að tala um allar þær stórkostlegu fyrirmyndir sem blasa við konum hvert sem litið er. Sömuleiðis lýsti ég þeirri skoðun að í málflutningi um jafnrétti kynjanna, væri of mikil áhersla lögð á að lýsa karlmönnum sem ofbeldisfullum gagnvart konum í stað þess að beina sjónum að þessum venjulegu körlum sem gera ekki flugu mein og kúga engan.
Ég tel að nær væri, í allri þessari umræðu,að fjalla um kynin sem jafningja, hvort á sinni forsendu, í stað þess að stilla þeim upp eins og stríðandi öflum. Með þessu er ég ekki að halda því fram að ekki sé um að ræða neitt sem heitir kúgun kvenna, ekki er ég heldur að halda því fram að neitt sé til sem heitir kúgun karla, ég er ekki að halda því fram að ekki sé neitt til sem kalla má ofbeldisfulla karla  og ekki heldur að halda því fram að það séu ekki til ofbeldisfullar konur. Það eru til karlar og konur sem kúga og beita ofbeldi. Það eru einnig til karlar og konur sem eru kúguð og beitt ofbeldi. 

Ég tel að það sé kominn tími til að ræða þessi mál út frá stöðu þessara mála eins og hún er nú, í stað þess að draga umræðuna stöðugt inn í ástandið eins og það var fyrir áratugum síðan.

Hvernig er svo staðan í dag?
Jú, það eru til ofbeldisfullir karlar og það eru til ofbeldisfullar konur, fleiri karlar en konur, sennilega, en þó er ég ekki viss. Hvað er ofbeldi?
Það eru til kúgaðir karlar og það eru til kúgaðar konur, fleiri konur en karlar, sennilega, en þó er ég ekki viss. Hvað er kúgun?

Ég hef enga trú á að við breytum neinu að ráði, nema byrja í grunninum og ölum af okkur og ölum upp fólk sem er laust við einhver sálarsár, sem kalla fram í því ofbeldishneigð eða ótta. 
Það þarf, sem sagt, að byrja í grunninum. 
Til þess að það gangi nú allt vel, ríður á að foreldrarnir standi sig, sem er mikilvægast. Leikskólar þurfa að standa sig, grunnskólarnir, framhaldsskólar og allar þær stofnanir sem fjalla um börn og skapa þeim umhverfi.

Í framhaldsgrein(um) (svo hver bútur verði nú ekki of langur) ætla ég að velta fyrir mér meðal annars, hlut kynjanna í æsku, á miðjum aldri og þegar aldurinn færist yfir. Auðvitað verður það allt litað af því hver ég er. Hvernig getur það verið með öðrum hætti?  Þó ég sé að stíga út úr skólakerfinu eftir áratugi, þýðir það ekki að þar með hafi ég misst rétt til að halda fram skoðunum mínum. Einhverjum kann að finnast þær harla gamaldags. Við því bregst ég einfaldlega með því að halda því fram að allir, ungir, miðaldra, gamlir, karlar, konur, allar starfsstéttir, eiga rétt á sinni rödd. Þetta eru stærri mál en svo að þau eigi að fá að gerjast og afmyndast í einhverjum kimum í samfélaginu.

...það kemur framhald


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...