30 júní, 2017

Gerum við gluggana

- Þessi bloggpistill er ekki kostaður og af honum hef ég enga fjárhagslega eða aðra hagsmuni utan að búa í Skálholtssókn - 

Ég hef í tvígang fjallað um listaverkin sem liggja undir skemmdum í Skálholtsdómkirkju, annarsvegar í Facebookhópnum Laugarás - þorpið í skóginum og hinsvegar á þessu bloggsvæði í grein sem ég kallaði Uppeldi og viðhald. 

Ég hef reynt að líta þannig á þetta mál, að um sé að ræða menningarverðmæti; þjóðargersemar, rétt eins og Kjarvalsmálverk eða höggmynd eftir Ásmund Sveinsson, en ekki  verðmæti í eigu eða umsjón íslensku þjóðkirkjunnar.
Það virðist vera svo, að þegar minnst er á að þessi verk, Gerðar Helgadóttur (gluggarnir) og Nínu Tryggvadóttur (altaristaflan), liggi undir skemmdum, rísi fólk upp og fari að fjalla um þá fjármuni sem þjóðkirkjan fær á hverju ári úr sameiginlegum sjóðum, yfirleitt með þeim orðum, að þar ættu að vera til nægir fjármunir ef rétt væri á málum haldið.
Ég tel mig ekki vera í aðstöðu til að meta hvort kirkjan fær nægilegt fé til að standa undir því sem henni er ætlað. Í þá umræðu ætla ég ekki að blanda mér. Það er að mínu mati, önnur umræða en sú sem ég er að reyna að taka þátt í.

Ég hafna því hér með, að nauðsynlegt sé að blanda saman fjárhag kirkjunnar og varðveislu þessara menningarverðmæta. Ykkur er auðvitað frjálst að hafa hvaða skoðanir sem þið viljið á kirkju og kristni. Auðvitað má segja margt um þessa stofnun og þessa trú, meira að segja að kirkjan hafi sjálf átt verulegan þátt í að koma sér í einhverskonar andstöðu við umtalsverðan hluta þjóðarinnar.

Kristján Valur Ingólfsson,
vígslubiskup
Ég vil bara tala um björgun á þessum verkum og vil tala fyrir því að sú björgun verði framkvæmd óháð þjóðkirkjunni sem stofnun, því það liggur fyrir að þaðan mun sennilega aldrei koma nægilegt fjármagn til þessa verks.

Það var haldinn fundur í Skálholti í gærkvöld, þar sem ástand glugganna var megin umfjöllunarefnið. Vígslubiskup, Kristján Valur Ingólfsson, boðaði til fundarins og kynnti stöðu mála.  Drífa Hjartardóttir, formaður stjórnar Skálholts, stýrði fundinum.

Það sem vakti athygli mína var nú ýmislegt.
Það kom fram, að listgluggarnir (steindu gluggarnir) voru settir upp rétt eins og um rúðugler væri að ræða, á sínum tíma: Þeir voru, sem sagt, settir í gluggakarm, síðan var settur listi og þar fyrir utan einfalt hlífðargler. Mér skilst að þetta hafi ekki mátt gera, en var gert engu að síður.  Rétta aðferðin, og sú sem notuð verður þegar listglerið hefur verið lagfært í Þýskalandi og gluggakarmar endurnýjaðir, er að tvöfalt einangrunargler verður sett í alla glugga.
Drífa Hjartardóttir,
formaður stjórnar Skálholts
Listglerinu verður síðan komið fyrir innan frá þannig, að loft nái að leika um það frá báðum hliðum.
Verkið sem framundan er, er þannig í stórum dráttum tvennskonar. Annarvegar þarf að flytja listgluggana  með öruggum hætti til Þýskalands í viðgerð hjá Oidtmann, en það fyrirtæki vann gluggana upphaflega.
Fyrir utan að gera við skemmdirnar, þarf að taka allt að 5 mm utan af gluggunum (sem Evrópustaðlar munu segja að megi), svo hægt verði að koma þeim fyrir að innanverðu.. Hinsvegar þarf að skipta um gluggakarma og setja í þá tvöfalt gler.
Það er ljóst að þetta mun kosta tugi milljóna og þar stendur hnífurinn í vorri kú.
Það liggja fyrir loforð um einhverja fjárupphæð til verksins og nú er gert ráð fyrir að fara í það, með því að græja 2-3 glugga til að byrja með.

Ef einhver skyldi svo ímynda sér að gluggarnir séu það eina sem taka þarf á í Skálholtsdómkirkju, þá er það heilmikill misskilningur.
Hér er listi yfir það helsta sem nefnt var:
1. Altarisverk Nínu Tryggvadóttur, sem farnar eru að sjást sprungur í.
2. Ofnana þarf að endurnýja, sérstaklega er mikilvægt að skipta um ofna bak við orgelið, en fari þeir að leka hlytist af milljónatjón.
3. Smám saman er er verið að lagfæra stólana, í það þarf að skipta um böndin í þeim.
4. Uppi í turni liggur brotin klukka og er búin að gera síðan 2002. Hún verður ekki fjarlægð nema gert verði gat á vegg turnsins og nýrri komið þar í gegn í staðinn. Grindin sem heldur klukkunum uppi er afar veikbyggð.
5. Það er orðið brýnt að gera við sprungur í útveggjum kirkjunnar og mála hana.
6. Talsvert er farið að brotna úr kirkjutröppunum
og svona mætti sjálfsagt lengi telja.

Hvernig verður svo mögulegt að fjármagna þetta allt saman? Það finnst mér góð spurning.
1. Sjóðir á vegum þjóðkirkjunnar. Þær eru margar kirkjurnar sem halda þarf við.
2. Sjóðir sem viðhalda menningarverðmætum. Þau eru mörg, menningarverðmætin.
3. Ríkissjóður. Þar kemur pólitíkin við sögu og sjálfsagt ekki margir pólitíkusarnir sem treysta sér að leggja pólitískan frama sinn að veði í baráttu fyrir viðhaldi sem tengist kirkjunni.
4. Fyrirtæki. Mögulega ekki mörg sem telja það sér til framdráttar að styrkja verk af þessu tagi. Ekki veit ég það þó.
5. Einstaklingar. Það má segja að margt smátt geri eitt stórt, en ekki finnst mér ólíklegt staða kirkjunnar í samfélaginu komi til skoðunar þegar fólk veltir fyrir sér hvort rétt sé að setja fé í þetta verkefni, en þá reynir á hvort fólki tekst að gera greinarmun á kirkjunni, annarsvegar og listaverkunum, hinsvegar. Hér er hlekkur á sjóð sem hægt er að greiða í.
6. Gjaldtaka af ferðamönnum.  Þetta finnst mér sjálfsagt og eðlilegt, en við Íslendingar erum óskaplega feimnir við að láta túristana okkar borga fyrir að njóta þess sem telja má til menningarverðmæta okkar.  Við leyfum hinsvegar ferðaþjónustufyrirtækjum að hafa fé upp úr þeim, án þess að blikna. Ekki finnst mér spurning um þetta. Auðvitað eiga ferðamenn að greiða. 
7. Erlendir sjóðir - það er sjálfsagt skoðað, en um það veit ég ekkert.
8. Sveitarfélög. Ja, hver veit hvort hægt er að koamst eitthvað það það. Ætli þau eigi ekki nóg með að styðja við sínar kirkjur. Það væri varla hægt að ætlast til mikils af uppsveitahreppunum, þrátt fyrir að Skálholtskirkja hýsi flestar útfarir á svæðinu.

Svona má lengi velta hlutunum fyrir sér, en ég held, eins og ég hef áður sagt, að þetta verði torsótt, nema takist að kynna þetta verkefni sem björgun menningarverðmæta, eða þjóðargersema, frekar en sem einhvers sem kirkjan ber ábyrgð á, ein og sér.

-------------

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan faðir minn og fjölskylda hans barðist í öllum veðrum til kirkju á sunnudögum til að bjarga sér frá helvítisvist.

Þessar vísur heyrðust oft við borðstofuborðið í Hveratúni, síðustu árin sem gamli maðurinn lifði:
Fyrri vísan er ort af bónda austur á Héraði sem var eitthvað illa við prestinn sinn:

Mikið er hvað margir lof´ann
menn sem aldrei hafa séð´ann
skrýddan kápu Krists að ofan,
klæddan skollabuxum neðan.
(Skollabuxur er húðin frá mitti og niður úr, en klæði menn sig í slíkar buxur skortir þá ekki fé í þessum heimi – en brenna munu þeir að eilífu í víti annars heims). 
Í sveitinni var annar bóndi og honum líkaði einnig illa við prestinn og langaði að læra vísuna. Það tók hann talsverðan tíma (3 ár, að sögn), en lokst taldi hann sig hafa náð henni. Útkoman var svona: 

Mikið er hvað margir lof ´ann
að ofan
menn sem aldrei hafa séð´ann
að neðan.

Það má hafa gaman að öllu, en mikilvægast kannski að gera greinarmun; blanda ekki saman málum.

Gerum við gluggana


Engin ummæli:

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...