21 júní, 2017

Finslit

Einhverntíma kom mér í hug, að þar sem það fólk sem telst til "vina" manns á Facebook, sé ekki endilega vinir í hefðbundinni merkingu þess orðs. Þetta er fólk sem annaðhvort kaus að tengjast þarna við þig, eða þú við það.  Þetta geta auðvitað verið allt frá bestu bestu raunverulegum vinum þínum, í að vera bláókunnugt fólk. Mér hefur aldrei fallið við þetta orð "vinur" í þessu samhengi. Þannig hefur það væntanlega komið til, að fólk talar um "facebook-vini" eða "vini á Facebook".

Þar með datt mér í hug hið frábæra nýyrði
F I N U R
sem er stytting á orðinu Facebook vinur.
Ef sú stað kemur síðan upp einhverntíma að slettist upp á finskapinn þá ófinast finirnir, eða þú ófinast við einhvern fina þinna. Það verða finslit.

Ég ófinaði þrjá fina minna í morgun.  Slíkt gerist.

Ástæðan er einföld.
Þessir finir mínir höfðu lýst sig sammála lýsingum kvenpersónu sem ég hef nýlega átt í (og á sennilega enn) einhverskonar útistöðum við. Þetta gerðu finirnir með því að smella á læk-hnapp viðkomandi. Ég skil það svo, að ef maður smellir á þennan hnapp hjá fini sínum, er maður að samþykkja það sem hann segir og taka undir það.

Ég mun nú eiga 31 fin sameiginlegan með umræddri kvenpersónu. 
Eftir viku mun ég ófina þá einnig.

Já, ég get verið svona prinsipp-maður, það sem stundum er kallað að vera einstrengingslegur, stefnufastur eða jafnvel þrjóskur (hversvegna datt mér faðir minn í hug þegar ég skrifaði þetta?). Ég á það til að taka afstöðu, sem ég stend síðan við, vegna þess, að ég álít hana snúast um grundvallaratriði.

--------

Gengi kvenpersónunnar sem um ræðir byggist á fjölda fólks sem kýs að vera í finfengissambandi við hana. Án finanna væri hún ekkert. 
Mig grunar að margir í hópi þeirra þúsunda sem eru í finfengi við hana, séu þar fyrir forvitnissakir, sem er alveg lögmæt ástæða til finfengis. Hverfi þeir hinsvegar á braut, ófini hana, hverfur einnig grundvöllurinn að veldi hennar.  Næringin hverfur og þá er ekkert orðið eftir nema hatrið og mannfyrirlitningin sem hún elur í brjósti sínu eða huga, en kemur ekki frá sér, því enginn nennir að hlusta.

Ég hef enn þá trú, að við séum nægilega skynug til að hafna þeirri aðferð sem ofangreind kvenpersóna beitir í "málflutningi sínum"

Mér finnst finur bara fínt orð, og það virkaði í öllu samhengi hér fyrir ofan, að mínu mati. 
😎
Ef einhver skyldi ekki átta sig á tilefni þessa þá er það að finna hér.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...