Ég var ekki það sem kallað hefur verið lyklabarn, ólst upp í sveitinni með umtalsvert stórri fjölskyldu, þar á meðal afa. Verkaskipting foreldranna var nokkuð skýr og hefðbundin miðað við það samfélag sem þá var. Smám saman fór maður að taka þátt í ýmsum störfum á heimilinu og í gróðurhúsunum (jú, víst, fÁ og fS!). Ekki þótti mér það alltaf skemmtilegt og hef sjálfsagt sinnt því sem mér var falið, með hangandi hendi. Þegar leið á var hægt að kaupa mig til verka með því að, lofa mér að á eftir fengi ég að snúa Land Rovernum á hlaðinu.
Hvað sem má segja um það allt, þá fékk ég þarna einhvern skilning á samhengi hlutanna: til þess að eitthvað gerist þá þarf einhver að gera það.
Það var mér á stundum mikil raun að þurfa að dvelja í heimavist í Reykholti, en mig minnir að á fyrri hluta skólagöngunnar hafi ég, eins og önnur börn sem ekki voru í göngufæri frá skólanum, dvalið þar uppfrá í viku á móti viku heima.
Eftir grunnskólann tók við Laugarvatn þar sem ég var líklega ein átta ár í heimavist.
Ekki ætla ég að halda því fram að allt þetta heimavistalíf hafi verið uppeldislega jákvætt, en ég tel að það hafi sam kennt mér að standa á eigin fótum og að ég hafi verið nokkuð tilbúinn að standa á eigin fótum þegar framhaldsskólanámi lauk. Ég vissi ýmislegt um ýmislegt. Ég var t.d. búinn að læra að skipta um kló, var búinn að læra grundvallaratriði í bílaviðgerðum, skildi hvað það þýddi ef ég eyddi þeim peningum sem ég aflaði. Þegar við síðan byggðum okkur hús voru lán af skornum skammti og við fluttum inn í hálfkarað húsið með notuðum húsgögnum og eldhúsinnréttingu sem ég klambraði sjálfur saman.
Með því sem ég hef sagt hér að ofan, er ég ekki að þykjast hafa verið betur búinn undir lífið en margir aðrir á sama reki, þvert á móti held ég að flestir aðrir sem nutu samsvarandi skilyrða, hafi sömu sögu að segja.
Hvað er ég svo að fara með þessu öllu?
Svarið hefur með að gera þrennt:
a. Ég tek þátt í því um þessar mundir að skipuleggja skólastarf í framhaldsskóla þar sem áleitnar spurningar koma til umræðu. Þessi er stærst í mínum huga: Hvert á hlutverk framhaldsskóla að vera í því samfélagi sem við búum í núna og til næstu framtíðar?
b. Atvik sem átti sér stað í spurningaþættinum Útsvari á RUV s.l. föstudagskvöld. Það var þegar bjölluspurningar dundu á keppendum. Það var spurt, og ungur og vel gefinn keppandi annars liðsins greip bjölluna á undan, en það vildi svo illa til, að kólfurinn datt úr henni. Pilturinn setti kólflausa bjölluna aftur á borðið og hélt í sæti sitt.
"Ætlarðu ekki að laga bjölluna?" spurði spyrillinn.
"Ég? Nei, ég kann það ekki." svaraði keppandinn og settist í sæti sitt.
Þegar hér var komið reis keppandi úr hinu liðinu, sauðfjárbóndi af Héraði, á fætur, gekk að bjöllunni, setti kólfinn í hana og kom henni fyrir á borðinu, þegjandi og orðalaust.
c. Frétt í dagblaði í morgun, sem fjallar um það að einhverjir háskólanemar hafa tekið sig til og sett upp síðu á fésbókinni þar sem þeir dunda sér við að niðurlægja konu sem ræstir húsnæðið sem þeir stunda nám sitt í.
----------------------------
Ég hef velt því talsvert fyrir mér samfélag okkar stefni í að verða samfélag sérfræðinga, sem skilja fátt út fyrir sitt þrönga sérsvið, hafa ekki skilning á, eða bera virðingu fyrir störfum, eða lífi annarra. Ef svo er, þá vaknar strax spurningin: getur slíkt samfélag verið samfélag?
Hvert er hlutverk skólakerfisins í þessu? Er það yfirleitt hlutverk þess að ala nemendur upp til sama skilnings á samfélaginu og ég var alinn upp til? Er hér kannski bara um að ræða nýja tegund samfélags, sem smám saman nær einhverju jafnvægi?
Það hefur svo sem hvarflað að mér, að hér sé um að ræða skýrt merki þess, að ég sé bara smám saman að detta úr takti við samfélagið, eða samfélagið við mig.
Þetta gæti verið inngangur að endalausri umfjöllun minni um allt það sem ég hef um þessi mál að segja. Ég hlífi traustum lesendum við því.
Kannski gæti þetta varpað ljósi á málið :)
SvaraEyðahttp://www.youtube.com/watch?v=iG9CE55wbtY
Jamm, þetta er umhugsunarvert.
SvaraEyðaÞað er gott að getað gengið að pælingum að þessu tagi á blogginu þínu Palli. Það nennir enginn orðið að staldra við og spyrja eins og þú gerir hér og skáldið gerði forðum: „Höfum við gengið ... o.s.frv.
SvaraEyðaPælingarnar eru eins og þær eru. Átti það ekki að gerast eftir hörmungarnar, að við ættum að staldra við. Það taldi ég, í það minnsta. Það virðist ekki vera að gerast í miklum mæli, í það minnsta. :)
SvaraEyða