31 mars, 2010

Gott starf og bóluvitleysa

Ég er vanur að gera mikið úr því þegar ég á frí, meðan flestir aðrir þurfa að sinna vinnu sinni og inna þannig af hendi "nauðsynlega" þjónustu sína við samborgarana. Mér finnst það alveg stórfínt að ganga út af vinnustaðnum á föstudegi fyrir pálmasunnudag og mæta svo aftur, galvaskur að morgni miðvikudags eftir páska.

Auðvitað er ég ekki svo illa innrættur að það hlakki í mér að vera í fríi þegar aðrir þurfa að vinna, en ekki neita ég því, að það brá fyrir glotti við tilhugsunina um að fD hafi þurft að mæta til vinnu bæði í gærmorgun og í morgun.

--------------------

Það sem ég er að fara með þessari vinnutímapælinu er eftirfarandi:

Er í rauninni einhver brýn þörf á að verslanir og þjónustufyrirtæki af ýmsu tagi séu opin alla daga nema á hinum langa föstudegi og páskadegi? Eru laugardags- og sunnudagsopnun í raun eitthvað sem er nauðsynlegt?
Ég var í þessu sambandi talsvert undrandi þegar rakarinn minn sagðist hafa opið á laugardag fyrir páska. Ástæðan? Jú, það var vegna samkeppninnar í bransanum á Selfossi.

Mér finnst það vera mikilvægur þáttur í því að skapa nýtt Ísland, að vinda ofan af þeirri brjálæðislegu hugsun að við eigum að geta fengið allt nákvæmlega þegar okkur dettur það í hug. Kannski er komið fyrir okkur eins og er, einmitt vegna þess, að við lifum í núinu, höfum ekki framtíðarsýn, erum orðin ófær um að skipuleggja þarfir okkar umfram einn dag í einu.
Hver er það sem á ekki að geta ákveðið það með góðum fyrirvara, að hann þurfi nú að fara að skella sér í klippingu? Hver er það sem á ekki að geta ákveðið hvað hann þarf til heimilisins viku fram í tímann, þó ekki væri nema bara yfir eins og eina helgi?

Það ástand sem við höfum vanist með því sem víkingarnir okkar kölluðu "botnlausa samkeppni á öllum sviðum", hefur ekki gert okkur neitt gott.
Þau fyrirtæki sem ekki geta lifað af án þess að hafa opið 7 daga í viku, eiga ekki rekstrargrundvöll, að mínu mati. Það er engin ástæða til þess að hallir kapítalismans þurfi að halda áfram að veita afþreyingu fyrir hugmyndasnauða borgarbúa á sunnudögum.

"Maður er að vinna allan daginn! Hvenær á maður þá að "versla" inn."

Þá er bara að vinna minna og gera þar með minni efnislegar kröfur til lífsins. Það væri til dæmis harla jákvæð þróun að sinna þörfum barnanna betur. Þessir ræflar hafa hreint ekki gott af því að dvelja í leikskólum 8 tíma á dag, fimm daga vikunnar. Það er önnur umræða, en kallar óhjákvæmilega á svar við spurningunni til tilgang lífs okkar. Það er nú engin smá spurning.

Hægjum á okkur og skoðum þetta allt frá nýju sjónarhorni.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...