17 apríl, 2010

Björgunaraðgerð



Gos í Eyjafjallajökli um hádegisbil í dag - séð frá Laugarási

Hvernig gæti ég hafa ímyndað mér að það ætti fyrir mér að liggja, að bjarga tveim Norðmönnum í vanda, á þessum sólríka laugardegi? Það varð hinsvegar raunin, þó svo endanleg ninðurstaða þessarar aðgerðar liggi ekki endanlega fyrir enn.

Það kom símtal frá Kvisthyltingnum danska, sem nú er staddur á ráðstefnu í þeirri merku borg Nottingham, þar sem Hrói höttur gerði garðinn frægan. Í dag hyllir undir ráðstefnulok og hugað er að heimferð. Þá kemur babb í bátinn, eins og flestum hlýtur að vera ljóst.

Þetta símtal fól í sér að fela mér að leita uppi mögulegar ferðaleiðir frá Englandi yfir á meginland Evrópu. Þar var nefnd til sögu hafnarborgin Harwich á austurströndinni. Þaðan eru ferjusiglingar til ýmissa borga. Ég hóf leit að fari og komst brátt að því, að þar er fátt um fína drætti. Næsta ferja sem ekki er fullbókuð fer til Esbjerg á föstudaginn kemur, 26. apríl. Ég leitaði því eftir fari til einhvers staðar sem kallast Hook of Holland, en þangað er rúmlega 6 tíma sigling. Fyrsta ferð þangað, þar sem enn var laust, reyndist vera að morgni þriðjudags næstkomandi.

Þetta tjáði ég Kvisthyltingnum símleiðis. Hann ákvað að taka þetta far þar sem ekkart annað var í kortunum. Að því sögðu fór hann þess á leit við mig að ég bókaði einnig tvo samráðstefnugesti hans í umrædda ferð. Þetta voru þeir Vegard Ölstörn og Bo Haugen, örugglega miklir öndvegismenn, norskir.

Ég komst í gegnum bókunarferlið og nú eru þeir félagarnir þrír bókaðir í ferju Stena Line frá Harwich til Hook of Holland, n.k. þriðjudag kl. 9:00 að morgni. Hvernig þier ætla sér síðan að komast til Norðurlandanna þaðan er eitthvað sem ekki liggur enn ljóst fyrir, en samkvæmt áreiðanlegum upplýsingum frá Fyrrelunden eru og verða allar almenningssamgöngur í Evrópu fullbókaðar eins lengi og séð verður.


Nú bíð ég spenntur eftir fregnum af því, hvort bókun mín reynist verða sú björgun sem endanlega leiðir til þess að tveir Norðmenn og einn Kvisthyltingur komast til síns heima áður en langt um líður.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...