18 nóvember, 2019

Þrjátíu ára þróun

Það má kannski segja að það geti talist nokkuð nördalegt, þegar maður sest yfir það að skoða talnaefni frá Hagstofunni, en ég lét mig hafa það fyrir nokkru, með áhugann einan í farteskinu.  

Það er rétt að geta þess, svo ég teljist nú ekki vera að koma aftan að neinum, að ég tel mig hafa verið nokkurn baráttumann fyrir sameiningu allra hreppanna í uppsveitum Árnessýslu á tíunda áratug síðustu aldar, þegar ég átti um stund sæti í hreppsnefnd Biskupstungnahrepps. Í framhaldinu var ég síðan andvígur sameiningu Þingvallahrepps, Laugardalshrepps og Biskupstungnahrepps upp úr aldamótum, einfaldlega vegna þess að mér fannst og finnst reyndar enn, að sú sameining hafi verið of lítil og að með henni skapaðist hætta á því misvægi, sem síðan virðist hafa orðið raunin. Hér er ég fyrst og fremst að vísa til byggðakjarnanna þriggja í Bláskógabyggð: Laugaráss, Laugarvatns og Reykholts.

Það er auðvitað ekki nóg að telja að eitthvað virðist vera með einhverjum hætti, það þarf að undirbyggja það og þessvegna tók ég mig til að tók saman þróun íbúafjölda í byggðakjörnunum þrem í Bláskógabyggð frá árinu 1991 til byrjunar árs 2019, eins og hann birtist í tölum Hagstofunnar.

Heimild: Hagstofan
Í byrjun árs 1991 bjuggu 166 á Laugarvatni, 111 í Laugarási og 94 í Reykholti. Það urðu svo sem ekki miklar breytingar á fólksfjöldanum fram að aldamótum, fækkaði lítillega á Laugarvatni og fjölgaði lítillega á hinum stöðunum. Svo var komið, skömmu eftir aldamót, þegar ákveðið var að sameina hreppana þrjá, án þess að íbúarnir tækju þátt í þeirri ákvörðun, að þorpin þrjú voru nánast jafn stór: á Laugarvatni bjuggu 150, í Reykholti 145 og Laugarási 133.
Eftir sameininguna hófst síðan þróun, sem er verðugt rannsóknarefni. Fyrst á eftir fjölgaði íbúum á Laugarvatni og í Reykholti talsvert hratt fram til 2009, en þá voru þessi þorp jafn stór, Laugarvatn með 203 íbúa og Reykholt 192.
Eftir sameininguna varð þróunin með öðrum hætti í Laugarási. Þar fækkaði íbúum um 21 á árunum 2002 til 2004. Fram til 2009 fjölgaði íbúunum aftur nokkuð stöðugt, þannig að árið 2009 voru þeir orðnir 144. Eitthvað varð til þess, árið 2009 að íbúum á Laugarvatni og í Laugarási fór að fækka ansi hratt, en árið 2012 voru þeir orðnir 148 á Laugarvatni og 114 í Laugarási. Á sama tíma fór íbúum stöðugt fjölgandi í Reykholti, en milli áranna 2012 og 2016 fór íbúafjöldinn úr 197 í 252 og í byrjun árs 2019 voru þeir orðnir 260.
Laugarvatn fór aðeins að taka við sér aftur 2014 en þá voru íbúarnir 165. Þar hefur fjölgað síðan og í byrjun árs 2019 voru íbúar þar orðnir 192.
Þróunin hvað varðar íbúafjölda í Laugarási hélt áfram niður á við og fæstir urðu íbúarnir 2016 og 2017, 97, en þá fór að birta aðeins til, því í byrjun árs 2019 var 121 íbúi í Laugarási.


Það er mikilvægt að halda því til haga, að það er nú ekkert óskaplegt fjölmenni sem er eða hefur verið í þessum byggðakjörnum og þar með hafa litlar breytingar tiltölulega mikil áhrif, en hinu ber líka að halda til haga, að þegar horft er á þetta þrjátíu ára tímabil, fer ekki hjá því að draga verði þá ályktun, að það hafi orðið skýrar breytingar í kjölfar sameiningarinnar þegar Bláskógabyggð varð til.

Ég er hugsi fyrir hönd Laugaráss, sérstaklega og mér finnst það undarleg staða, að búa í hjarta Uppsveita Árnessýslu, en teljast samt vera á jaðarsvæði; upplifa það sem hefur einna helst verið talinn þröskuldur sameininga: jaðarsvæðin, sem óttast að verða útundan í sameinuðu sveitarfélagi. Ég get ekki dregið aðra ályktun en þá, að sú hafi orðið raunin hér í Laugarási.

Mér er spurn: Hversvegna hefur þessi þróun orðið hér? 
Vísast eru ýmis svör við þessari spurningu, en ég ætla að varpa fram nokkrum, sem ég tel ekki ólíkleg:

1. Laugarásjörðin er í eigu sveitarfélaganna í uppsveitum Árnessýslu og þar með einhverskonar einskismannsland, sem ekki er talin ástæða til að nýta sem sameinandi þátt á þessu svæði, enda sveitarfélögin á svæðinu mjög áfram um að byggja upp sína eigin byggðakjarna. Þessi stefna sveitarfélaganna hefur síðan orðið til þess að slagkraftur í uppbyggingu þjónustu á svæðinu í heild hefur orðið minni en hefði getað verið. Þetta tel ég veigamestu ástæðuna.

2. Laugarás er beinlínis jaðarsvæði í Bláskógabyggð þar sem öxullinn liggur milli fyrrum stjórnsýslu-og félagslífsmiðstöðva Laugardalshrepps og Biskupstungnahrepps.

3. Frá kosningum 2006 hefur Laugarás  ekki átt fulltrúa í sveitarstjórn Bláskógabyggðar. Þetta tel ég vera miklvæga ástæðu og get ekki á mér setið að hvetja Laugarásbúa til að stefna að því að bæta úr þessu í næstu sveitarstjórnarkosningum.

4. Þjónustustig er líklegur orsakavaldur. Á Laugarvatni og í Reykholti eru leikskólar, grunnskólar og aðstaða fyrir ýmisskonar afþreyingu, sem ekki er að finna í Laugarási. Það getur ekki talist óeðlilegt, að þangað sæki fólkið frekar, sem slíka þjónustu er að fá.

Fleiri þætti má tína til, en eftir stendur sú þróun sem fram kemur í þeim fólksfjöldatölum sem ég hef birt hér. Ég tel það vera ábyrgð sveitarstjórnar hverju sinni að stuðla að uppbyggingu og framþróun hvar sem er innan áhrifasvæðis síns.

Ég er kominn á þá skoðun, að annað af tvennu þurfi að gerast:
a. Hrepparnir selji Laugarásjörðina, nú eða afhendi Bláskógabyggð eignarhald yfir henni með einhverjum hætti.
b. Sveitarfélög í Árnessýslu verði sameinuð í eitt sveitarfélag. Ég hef ekki séð neinar skýringar á því, að Bláskógabyggð hafnaði þátttöku í viðræðum, síðast þegar slík sameining kom til tals.

-------------------------------------

KYNJAHLUTFÖLL

Til gamans, úr því ég var kominn af stað í þessum talnaleik ákvað ég að bera saman fjölda karla og kvenna í þessum þrem þorpum. Nokkuð athyglisvert:


Það sem helst vekur athygli varðandi kynjaskiptinguna í Laugarási er, að frá 1991 til aldamóta voru karlar í meirihluta, en frá 2009 eru það konur sem eru fjölmennari.


Fram yfir aldamót voru karlar fjölmennari á Laugarvatni en síðan hafa konurnar verið fleiri, allajafna.


Í Reykholti voru karlarnir í meirihluta, nánast alveg þar til 2012, en þá tóku við jöfn kynjahlutföll þar til 2017, en síðan hafa konur verið í meirihluta.

Niðurstaðan er sú, mögulega, að með því að meirihluti karlanna í upphafi þess tímabils sem hér er undir, er horfinn og gott betur, hefur tími kvenna runnið upp í þorpunum þrem.
Ég leyfi öðrum að velta vöngum yfir þeirri þróun, þó ég gæti sannarlega tínt þær fram.

1 ummæli:

  1. Fróðlegur og skemmtilegur pistill.
    Kærar þakkir og kveðjur
    Dísa Pálma.

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...