"Ertu þá hálfviti?" spurði einn starfsfélaginn mig í dag. Að sjálfsögðu játti ég því til þess að komast hjá því að svara spurningum um mál sem ég vissi ekkert sérstaklega mikið um.
Gegnum tíðina hafa orðið til ótal, ágæt, íslensk orð yfir ýmiss konar ástand á fólki; orð sem voru bara ágæt til síns brúks þegar þau urðu til. Þessi orð eiga það sameiginlegt að hafa síðan umbreyst smám saman og orðið að örgustu skammaryrðum og horfið út úr orðaforða siðaðs fólks.
Ég er nú í þeirri stöðu að vera að stíga, hægt og hægt út úr starfi sem ég hef gegnt lengi, þar sem ég hef safnað í höfuðið heilmiklu viti um flest það sem lýtur að stofnuninni sem ég vinn við. Með þessari breytingu gerist það smám saman að ég veit æ minna um það sem gerist nýtt og hef því meiri tíma til að velta mér upp úr því sem var. Það sem var myndar síðan grunninn sem ég byggi á hæfileika mína til ráðgjafar af ýmsu tagi, eftir því sem eftir er leitað og þörf er fyrir. Mér kemur alltaf í huga þegar gamla tíma ber á góma, þegar Hreinn heitinn Ragnarsson hóf mál sitt á kennarafundum með þessum orðum: "Í Héraðsskólanum........". Samstundis skynjaði maður það í hópnum að fólkið var ekkert sérstaklega tilbúið að leggja við hlustir, eða taka mark á einhverju sem gert hafði verið í Héraðsskólanum fyrir áratugum. Allt á sinn tíma og nútíminn er ekkert sérstaklega ginnkeyptur fyrir því að gapa við vísdómsorðum, sem geta jafnvel einfaldað mörg mál og stuðlað að farsælli niðurstöðu. Menn telja sig oft vita betur.
Ég held að ég sé ekki kominn á sama stað og Hreinn að þessu leyti, ekki enn. Enn finn ég augu samstarfsmanna beinast að mér þegar spurning liggur í loftinu og bíður svars. Nú er ég stundum farinn að segja: "Ég veit það ekki!" og nýt þess jafnvel stundum. Ef ég veit svörin, svara ég auðvitað og ég vona að þeim skiptum fari ekki mjög hratt fjölgandi þegar ég veit ekki. Við sjáum til með það.
Hvað um það. Hér er ég búinn að finna ágæta leið, að eigin mati til að endurnýta gömul orð sem hafa hlotið þau örlög að verða ónothæf.
Þetta virkar einfaldlega þannig, að þegar starfsmaður stofnunar eða fyrirtækis er byrjaður að draga saman seglin og veit jafnvel ekki lengur nema helming þess sem hann vissi þegar hann var upp á sitt besta, myndi samkvæmt þessu teljast vera hálfviti. Þegar lengra líður síðan gæti hann orðið kvartviti, með um það bil fjórðung hámarks vits á innviðunum, þá örviti, sem veit örlítð, sem væri svona um það bil sem hann er endanlega að kveðja vinnustaðinn og loks óviti, sem myndi gerast við það að hann hætti störfum.
Eftir á að hyggja er ég ekki orðinn hálfviti ennþá, ef miðað er við ofangreinda skilgreiningu. Ætli ég sé ekki nær því að teljast vera ofviti, sem stefnir í að verða bara viti, áður en ég verð trekvartviti og síðan hálfviti og svo fram eftir götunum.
Já, þetta er aldeilis ekki búið enn.
11 október, 2016
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)
Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...
-
Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...
-
Það er ótvíræður kostur við þorrabót eldri borgara í Biskupstungum, að það er ekki boðið upp á dansiball með tilheyrandi hávaða þegar fól...
-
fS, fA og fD með Burj Al Arab í baksýn. Í baksýn má greina á himni helstu martraðarsviðsmynd ferðarinnar, sem ekki raungerðist. Ferðin sem ...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli