15 janúar, 2011

Tærður fittings

Það var í janúar á síðasta ári, sem ógæfa dundi yfir í Kvistholti, sem nokkuð rækileg grein var gerð fyrir í fjórum eftirminnlegum færslum undir heitinu JANÚARKRÍSA 1-4.
Það var í gær sem ég fékk símtal, sem ég vildi hreint ekkert fá:
"Hitalögnin í efra plasthúsinu hjá þér er sprungin. Ég var þarna á gangi með hundana og heyrði hávaðann."
Ég þakkaði auðvitað fyrir að hundaeigandinn skyldi láta mig vita af þessu. Settist síðan niður og hugsaði minn gang. Fyrsta hugsunin var auðvitað, eins og venjulega þegar svona tilvik koma upp: Ég vil bara að þetta vandamál hverfi! Sannarlega gerði það það ekki. Mér var nauðugur einn kostur að athuga hvernig staðan var. Það var myrkur, enda komið kvöld í janúar. Þá uppgötvaði ég, maðurinn sem á nánast allt, að ég á ekki vasaljós. Sem betur fer var útihitinn tæpar þrjár gráður í plús og því var það, að ég tók ákvörðun um að fresta málinu, fara bara út og skrúfa fyrir - kíkja svo á málið þegar birti.  Þegar ég kom út heyrði ég, svo ekki varð um villst, að eitthvað hafði sprungið í efra plasthúsinu.  Ég stóð fast við fyrri ákvörðun mína og fór niður í gróðurhús þar sem hægt er að skrúfa fyrir hita í bæði plasthúsin. Það gerði ég síðan og svo sem ekkert meira um það að segja. Í skímunni frá götuljósum fikraði ég mig síðan að efra plasthúsinu, en út úr því gaus mikill gufumökkur. Þetta leit ekki vel út. Ég stóð við fyrri ákvörðun mína um frestun frekari aðgerða. Fór aftur inn í hlýjuna og á vedur.is þar sem ég fékk von mína uppfyllta um frostlausa nótt.
Í hönd fór síðan rólegheita nótt þar sem iðkaður var, með réttu eða röngu, svefn hinna réttlátu.

Þegar fór að birta aftur reikaði hugurinn í plasthúsið. Hvað skyldi bíða mín þar? Var kannski allt meira og minna frostsprungið? Hvernig færi ég að því við slíkar aðstæður, að hleypa bara hita á neðra plasthúsið?

Það varð hreinlega ekki undan því vikist að rölta niðureftir og öðlast þannig vitneskju um það sem gerst  hafði. Í gúmmískóna, vopnaður myndavél (augljóslega myndi hún ekki gera neitt gagn, eins og hver maður getur sagt sér).

Af ótrúlegri yfirvegun lagði ég leið mína inn í efra plasthúsið, sem bara var þarna í sakleysi sínu eins og ekkert hefði skeð. Það sem við blasti þegar inn var komið hafði tvennskonar áhrif - aldeilis af báðum pólum mannlegra tilfinninga; önnur kallaði fram í hugann (auðvitað ekki upphátt) ANDSKOTINN SJÁLFUR!, en hin framreiddi hugsunina GUÐI SÉ LOF!

Fyrir 15 árum voru plasthúsin byggð og þá var var plastinu á þeim gefinn 5 ára líftími, en vegna veðurfars í Laugarási sér ekki á því enn. Í húsin var sett miðstöð - af vanefnum, og allir vita að að því hlýtur að koma að mannanna verk gefa sig. Þarna hafði ég, sem sagt sett hitalögn þannig, að lagt var í plasti að húsunum og plastið síðan tengt við hitarörin inni í húsunum. Það var á þeim samskeytum sem  svart hné hafði gefið sig (svart, þýðir að það er ekki galvaniserað og getur því ryðgað), hafði orðið tæringunni að bráð. Á þetta hné var komið gat sem var tæpur fersentimetri að stærð.

Ég tók myndir af hnénu (hversvegna, verður hver að svara fyrir sig). Að því búnu fór ég aftur inn og átti símtal við hG sem hefur haft garðyrkjuhluta Kvistholts á leigu undanfarin ár. Hann kom síðan. Leit á aðstæður. Fór síðan og kom aftur með fittings (fittings, fyrir þá sem ekki vita, eru allskyns bútar með skrúfgangi. Þarna getur verið um að ræða hné, té, skrúfbúta, minnkanir, stækkanir o.þ.u.l.). "Ég geri bara við þetta til bráðabirgða", sagði hG. Með því var mér auðvitað stórlétt. Engin stórframkvæmd framundan. Allt í gúddí, nema auðvitað enginn handbolti í sjónvarpinu í kvöld!

4 ummæli:

  1. Bráðabirgðarreddingar eru náttlega annað heiti á verðandi langtíma ástandi :)

    SvaraEyða
  2. nú jæja, ekki gott að heyra hvernig fór, en fínt að þetta reddaðist !

    Leikinn má að öllum líkindum finna ókeypis hér: http://www.atdhe.net/
    Með sænskum lýsendum þó, en af því sem ég hef heyrt eru þeir sennilega skárri en þeir sem fólk þarf að borga fyrir heima..

    SvaraEyða
  3. fékk þær sjóðheitu fréttir frá Álaborg að þessi linkur hér: http://www.firstrow.net/sports/handball.html
    sé betri þar sem maður geti séð alla leikina...

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...