03 ágúst, 2012

Rangárlón eða Rangalón

Sagnfræðingur ætla ég ekki að þykjast vera. 
smella á myndir til að stækka
Önnur ástæða þess að ég er að fjalla hér lítillega um Rangárlón/Rangalón í Jökuldalsheiði, er að þangað lá leið á ferð um landið fyrir nokkrum dögum. Ég var svo sem búinn að sjá rústir bæjarins  í talsverðri fjarlægð í fyrri ferðum yfir Möðrudalsöræfi, en nú tókst mér (með nokkurri aðstoð) að finna slóða sem liggur heim í hlað á þessum bæjarrústum í heiðinni.  




Sænautasel
Sænautasel, heitir bærinn sem stóð við suðurenda Sænautavatns, þar er skemmtileg ferðaþjónusta: við langborð í fyrrum lambhúsi er t.d. hægt að setjast niður og fá sér heitt kakó og nýbakaðar lummur hjá vertinum, skemmtilegum karli á sjötugsaldri, sem þarna fæddist og ólst upp til 11 ára aldurs. Hann sagði að það væri klukkustundar gangur frá Sænautaseli í Rangárlón, og gerði tilraun til að lýsa hvernig best væri að komast þangað akandi, en Rangárlón er við hinn enda ílangs vatnsins.

Hvernig tengist þetta mér svo?
Hin ástæðan fyrir þessari færslu snýr að tengingu minni við þetta eyðibýli í Jökuldalsheiðinni.
Í 3-4 ár, nánast þau síðustu í ábúendasögu Rangárlóns, árin 1918-1921 eða 1922 bjuggu afi minn Magnús Jónsson (1887-1965) og amma, (Sigríður) Ingibjörg Björnsdóttir (1893-1968), á þessu heiðarbýli. Þau fluttu þarna uppeftir  með tvo syni, þá Alfreð (1914-1994) og Harald (1915-1991). Árið sem þau fluttu fæddist þriðji sonurinn Skúli (1918- ), sem er einmitt hlekkurinn milli mín og Rangárlóns. Hann fæddist, sem sagt, í Jökuldalsheiði veturinn eftir  frostaveturinn mikla, sem er fremur kuldaleg tilhugsun. Fjórða barn sitt, þeirra sex sem upp komust, og fyrstu dótturina, eignuðust afi og amma ári eftir flutninginn, en það var Björg (1919-1982). Þriðja barnið sem fæddist í heiðinni var Sigfríður (1921-1993). Árið eftir að Silla fæddist, eða sama ár, (Íslendingabók) flutti fjölskyldan í Freyshóla á Héraði, en þar fæddist afi. Þar eignuðust þau tvíbura. Annar lifði, en það var Pálína (1925-1987). Alls munu afi og amma hafa eignast 10 börn, en það var nú bara veruleiki þess tíma, að barnadauði var talsvert stærri partur af veruleikanum en við eigum að venjast nú.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef þá urðu barnabörn afa og ömmu 19 að tölu:
Alfreð eignaðist 3, Skúli 5, Björg 10 og Pálína 1.

-----------



Afkomenda hvað?
Ítrekað hefur það komið fram í samtölum, ekki síst að undanförnu, en einnig um árabil, að það væri kominn tími til þess að afkomendur Magnúsar og Ingibjargar blésu til afkomendahátíðar. Það mál er nú komið svo langt, að vonir standa til að af þessu verði sumarið 2013. Sjálfskipuð nefnd skipar sig og leitar síðan leiða til að hafa upp á öllum sem geta gert tilkall til að tilheyra svo glæstum hópi sem þarna gæti komið saman.  Það hefur nánast verið ákveðið að þessi hátíð verði haldin á viðeigandi stað á Héraði, eða í Jökuldal.

-----------

Það er spurningin um Rangárlón eða Rangalón. 
Því meira sem ég skoða um þennan stað, því sannfærðari er ég um, að hann heiti Rangárlón. Eini gallinn á þeirri niðurstöðu er, að ég hef ekki fundið neina Rangá þarna í nágrenninu. Þetta er eina dæmið um á með þessu nafni austanlands. Þá átta ég mig  ekki heldur á því, hversvegna bærinn heitir RangárLÓN, þar sem hann stendur á bakka Sænautavatns og ekkert lón sjáanlegt í nágrenninu.

Fyrir utan það, að eldri heimildir virðast nota nafnið Rangárlón, þá tel ég aldeilis útilokað, að einhver taki upp á því að nefna bæinn sinn Rangalón - sem væri þá væntanlega andstæðan við Réttalón - fyrir utan það að þarna er ekkert lón, hvorki rétt né rangt.

----------

Hafi einhver sem þetta les, athugasemdir, vegna betri þekkingar á þessum málum, bið ég hann hafa samband við mig svo mér auðnist að leiðrétta mögulegar rangfærslur sem fyrst.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...