20 júlí, 2012

Æ, þú ferð nú ekki að lesa þetta.......

Það helltist yfir mig (og væntanlega aðra í svipaðri stöðu) fyrir skömmu, sama vonbrigðatilfinningin og ég hef upplifað ítrekað s.l. fjögur ár. Þetta var ástæðan þessu sinni:

Sakar ríkisstjórnina um að stunda blekkingarleik með fjárlögin

Það er á einhvern undarlegan hátt innbyggt í mig að vonast til þess að samfélaginu takist að rétta úr kútnum og að það muni nást tiltölulega ásættanleg lending eftir allt sem á undan er gengið. Þegar við bætist að ítrekað koma fram vísbendingar um að hér sé allt á réttri leið og að hér hafi jafnvel tekist betur til en víða annarsstaðar. Auðvitað er sá möguleiki fyrir hendi að það sé bara alrangt. Þetta eru bara þær frásagnir sem maður heyrir og les, yfirleitt með uppruna erlendis.

Það hvarflar nú ekki að mér, hvorki nú né fyrr, að halda því fram að hér hafi allt gengið stórkostlega frá því núverandi ríkisstjórn tók við "völdum". Fyrir því eru margar ástæður, en þar á meðal er ekki einlægur vilji stjórnarinnar til að takast á við það fordæmalausa verkefni sem við blasti þannig, að skaðinn sem samfélagið varð fyrir, verði sem minnstur til lengri tíma litið. 

Það hefur sannarlega ekki skort á  vægðarlausa og oft á tíðum einstaklega ósanngjarna gagnrýni úr herbúðum (jú, þetta virðist vera n.k. stríð um framtíð landsins) þeirra sem ekki tóku formlega við stjórnartaumunum eftir 2008 (þó svo liðsmenn þeirra um allt stjórnkerfið hafi líklegast veitt öflugt liðsinni) og fylgismanna þeirra, misspakra.

Já, ég velti því fyrir mér hvort staða mála í þessu landi væri með öðrum hætti nú, ef allir aðilar sem þarna koma að borði hefðu einsett sér að stefna allir að einu marki: að koma öllum grundvallarþáttum samfélagsins í var, áður en hafist væri handa við að deila um önnur mál og veigaminni, eins og t.d. útkomuna úr næstu þingkosningum. 

Hvað væri öðruvísi ef leiðtogar stjórnarandstöðunnar og fylgifiskar þeirra hefðu nú viðurkennt að sumt af því sem stjórnin hefur gert væri nú bara hreint ekki svo vitlaust? 
Mig grunar að það hefði getað breytt ýmsu. 

Hvað væri öðruvísi ef allir aðilar hefðu látið pælingar sínar eða væntingar um völd, lönd og leið og þannig vaxið hjá tilteknum hluta kjósenda? 
Mig grunar að ýmislegt væri öðruvísi.

Hvað væri öðruvísi ef stjórninni og "fylgismönnum" hennar hefði nú auðnast að vinna saman að risavöxnu verkefninu sem við blasti, í stað þess að eyða dýrmætum tíma í karp um mál sem oftast höfðu ekkert með uppbyggingu samfélagsins að gera - miklu fremur völd? 
Margt væri með öðrum hætti.

Hvað ef örlað hefði á auðmýkt eða jafnvel beiðni um fyrirgefningu þjóðarinnar meðal þeirra stjórnmálaafla sem slepptu skepnunni lausri á sínum tíma? 
Ég hefði, í það minnsta, litið þá öðrum augum, þ.m.t. að þeir byggju yfir snefli af trúverðugleika.




Framganga þeirra sem ættu að veita eðlilegt aðhald í stjórnaraðstöðu hefur verið með þeim hætti að varla getur talist boðlegt í samhengi hlutanna. Þeir er orðnir óþægilega fyrirsjáanlegir í öllum sínum "málflutningi": þeir eru í hlutverki kverúlantanna, besserwisseranna og mannkynslausnaranna; allt hlutverk sem höfða til þess hluta þjóðarinnar sem er tilbúinn að fylgja hinum sterka leiðtoga - láta teyma sig í óvissuför vegna blindrar trúar sinnar á eitthvað sem er í rauninni annað en það þykist vera. Ekki það skjól eða sú vernd sem það þykist vera.

2 ummæli:

  1. Ei get ég ort neitt sem skyldi
    og alls ekki hreint sem eg vildi:
    því þjóðin á bjarginu bíður
    sá búksorga fjallheimski lýður.

    Hann kýs nú að veita þeim völdin
    sem villtu fyr' oss bak við tjöldin.
    Í Valhöllu verður þá dansað
    og "væli úr skrílnum" lítt ansað.

    Úr mér kemur kommi úr leynum
    sem kannast við allt það er reynum,
    er sjálfstæðið situr í háum
    sessi- frá gjaldþrota og smáum.

    Hirðkveðill Kvistholts yrkir hér kvíðaljóð með talsverðum vinstri snúningi í nokkrum braglínum :(

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...