21 ágúst, 2011

Þar sem skil verða í framrás tímans

Mín eigin krækiber
Það er haustáferð á þessum sólríka sunnudegi.
Svöl lognkyrrðin ilmar af fullþroskuðum afurðum sumarsins.
Ég fylgdi fD í berjamó í gær, ekki til að fara að handtína bláber eins og hún, heldur til að tínutína krækiber með það að markmiði að borða þau bara algerlega óunnin.
Ber ku vera holl.
Ég er í hollustunni núna.
Reykurinn liðast ekki lengur upp af pallinum með reglulegu millibili.
Kröftugar gönguferðir eða golfæfingar orðnar dagleg iðja.
Brjáluðum lyfjakúr er nýlokið.

Það urðu nokkur tímamót í vor þegar mér settur stóll fyrir dyr í vissum skilningi.
Nei, ég var ekkert á útleið - fjarri því. Það þurfti bara að tryggja enn betur, nauðsynlegt langlífi mitt.
Því skellti ég mér í hollustuna.
Mér hefur nú alltaf fundist hún fremur óáhugaverð; ekkert nema einhver sjálfspynding.
Ekki það að mér hafi ekki fundist fólkið í hollustunni líta vel út - þvert á móti. Mér hefur bara fundist hún snúast of oft um einhvers konar trúaratriði. Ofsatrúað fólk hugnast mér ekki. Mér finnst meðalhófið vera best þegar upp er staðið.
Hvaða gagn og gaman er í lífi sem gengur út á það að neita sér um allt sem hugurinn girnist og gott þykir?
Mannskepnan dvelur örskotsstund úr eilífðinni sem ógnarsmátt sandkorn á þessu leiksviði sem jarðvistin er.
Argast þarna og þvargast eins og hún skipti einhverju máli.
Hverfur síðan.

Það er rétt, að með hollum lífsháttum líður manni betur, en það má samt ekki líta framhjá því að ýmislegt það sem óhollt er, kryddar lífið og gerir það í mörgum tilvikum, þess virði að standa í að lifa því.

Hóf er best í öllu.

Það eru nokkur tímamót núna - um tíma í það minnsta.
Í fyrsta sinn frá því ég hóf ævistarfið af fullum þunga árið 1979 (hafði reyndar þar áður sinnt slíku starfi veturinn 1974-75) mun ég ekki leiðsegja æskufólki um dýrðarveröld enskrar tungu á komandi vetri. Þessi tímamót kalla fram blendnar pælingar, allt frá hugsuninni: "Jæja, er þetta þá bara búið?" - upp í : "Úff hvað ég er feginn. Þau skilja mig ekki lengur hvort sem er - og ég ekki þau."  Formlega er framhald þessa máls í vinnslu og aðeins um að ræða hlé á þessum hluta starfsins.
Nokkur tilhlökkun gerir vart við sig. Hvernig verður lífið án þessa vettvangs til að láta ljós sitt skína?

Fínt er.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...