02 ágúst, 2018

Ef ég þarf að fara á Selfoss.....

Myndin er ekki af Suðurlandsvegi við Selfoss. Þar sem ég
var akandi gat ég ekki tekið myndi til að birta hér,
en hefði gjarnan viljað. "Maybe I should have"
...þá auðvitað fer ég á Selfoss. Þar er margt að sjá og margt að gera.. Ég þarf kannski að fara í klippingu og ekki þarf ég að kvíða því að fá hana ekki. Ég þarf til tannlæknis og þeir eru þarna á hverju strái. Ég þarf að komast í búð og það veit sá sem allt veit, að maður getur varla snúið sér við fyrir búðum. Svona gæti ég lengi talið.

Stundum bara ætla ég ekki á Selfoss. 

Ég þarf að fara annað.
Ef ég vil ekki hætta lífi mínu á veginum um Grímsnesið, þá verð ég að gera svo vel að þræða þröngar og ofhlaðnar götur Selfoss, hvað sem tautar og raular.
Hversvegna skyldi þetta nú vera?

Þetta minnir ig reyndar á tíma þegar það voru til vísitölubrauð. Voru það ekki franskbrauð, heilhveitibrauð og normalbrauð? Þessi brauð lutu ákveðnum reglum og voru þessvegna ódýrari en önnur brauð. Neyslunni var beint að þessum tegundum brauðs.

Þegar umræða um nýja brú á Ölfusá var talsverð í upphafi aldarinnar, kom fljótt í ljós að ekki voru allir á eitt sáttir. Ekki nenni ég að rekja þá sögu, enda aðrir betur færir um það. Helst var að skilja að þjónustuaðilar á Selfossi væru uggandi um sinn hag. Mig grunar að sá uggur sé ein megin ástæðan fyrir því ástandi sem er í dag og þá kem ég að tilefni pistilsins - pistils sem ég hef oft hugsað mér að láta frá mér.

Ástandið í umferðarmálum í kringum Selfoss er ótækt.
Hvernig getur það verið að Selfyssingar virðast sætta sig við það umferðarkraðak sem er á Austurveginum nánast hvern dag?
Hver getur fólk sætt sig við það, nánast hljóðalaust að það skuli vera biðraðir inn á Tryggvatorg (heitir það það ekki?) alla daga?

Þetta lendir sjálfsagt minna á mér en mörgum öðrum, þar sem ég get yfirleitt bjargað mér með því að fara Grímsnesið, nema þegar ég þarf á Selfoss, því þá er hægara sagt en gert að taka vinstri beygjuna af Biskupstungnabraut.

Á þessum Drottins degi, fimmtudegi fyrir verlunarmannahelgi þurfti ég að sinna erindum á Selfossi, svona eins og gengur og gerist. Síðan lá leiðin í höfuðborgina, en þá var bílalest frá torginu við brúarendann og að torginu við Toyota.  Ég sagði auðvitað bara "VÁ", svona eins og maður segir, ekki síst þegar svona er. Þetta var um hádegisbil.
Þessi umfjöllun er frá 2008.
Síðan eru 10 ár, eins og hver maður getur éð.
Erindum lauk ég í borginni við sundin og hélt heim á leið.
Þegar mér, um fjögurleytið, tókst loksins að beygja inn á Biskupstungnabraut, eftir að hafa ekið í fyrsta gír eða minna  langleiðina frá Kögunarhól, varð mér litið í vesturátt og svo langt sem ég þá sá, að Kögunarhól, sem sagt, sniglaðist bílalestin milli þess sem hún stóð kyrr.

Ég telst líkast til óskaplega ósanngjarn og tilætlunarsamur, en svona aðstaða á þjóðvegi eitt, er bara hreint ekki boðleg, og ætti að vera búið að kippa í liðinn fyrir löngu.
Ég geri mér fulla grein fyrir því, að umferðin er ekki svona alla daga ársins hring. Það breytir engu um þá skoðun mína, að ekki verður búið við þetta lengur

Ástæður fyrir því að svo er ekki, er ekki síst að finna á Selfossi, þar sem hagsmunaaðilar hafa, að mínu mati, haft þau áhrif á þetta brúarmál að það hefur frestast úr hófi.
Það er þekkt í öðrum landshlutum að þingmenn hafa barið í gegn nauðsynlegar umbætur  á samgöngum.
Hvar eru sunnlenskir þingmenn, nú þegar hljóðnaður er söngurinn um að brú verði að vera þannig á Ölfusá sett, að hún beini allri umferð á þjóðvegi eitt í gegnum Selfoss?

Kannski erum við Sunnlendingar bara svona lítilþægir.

Hvur veit?


Þetta er umfjöllun frá 2005, síðan eru 13 ár. Hvað dvelur orminn langa?

Vísir september 2017. NÍU ÁRA BIÐ FRAMUNDAN!Engin ummæli:

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...