26 janúar, 2014

Ég, gikkurinn

fD finnst kæstur hákarl góður........tvisvar ár ári - á Þorláksmessu á vetri og á Þorra. Henni finnst kæst skata góð........einu sinni á ári - á Þorláksmessu á vetri. Mér finnst hinsvegar lítið til þessa meinta góðgætis koma.........aldrei - ekki einusinni í þau skipti sem ég hef látið mig hafa það að prófa eftir að hafa deyft bargðkirtlana á tiltekinn hátt. Það er hreint ekki svo að ég fyllist viðbjóði við að leyfa þessum matvælategundum að velta í munninum, mér finnst þetta bara hreinlega ekki gott og það tel ég vera fullnægjandi rök gegn því að sameinast fD í þeim helgiathöfnum sem neyslu þessarra fæðutegunda fylgja. 
Nú er sem sagt Þorrinn og ég hef séð hverja myndina á fætur annarri á fb og víðar þar sem fólk finnur sig knúið til að sýna dásemdarhákarlinn sinn ásamt upplýsingum um hvaðan hann er kominn. Það er nefnilega ekki sama hvar hákarlinn er verkaður. Ef ég tæki mig nú til og verkaði hákarl hér í Laugarási þyrfti ég talsvert mörg ár til að sannfæra Tungnamenn um að þar væri á ferð vara sem viturlegt væri að flagga mikið á samfélagamiðlum.
En að hafa náð í vænt stykki af hákarli frá Bjarnarhöfn, svo maður tali nú ekki um ef hann skyldi vera kominn alla leið frá einhverjum kæsingarsnillingnum á Vestfjörðum eða Austfjörðum. Maður getur kinnroðalaust birt myndir af slíkum hákarli á fb. Ef maður fer hinsvegar í einhverja lágvöruverðsverslunina í höfuðstað Suðurlands og kaupir þar niðurskorinn hákarl í lofttæmdum plastpoka, án upprunamerkingar, þá birtir maður ekki mynd af honum neinsstaðar.
Maður hefur ekki hátt um hvaðan slíkur hákarl er kominn. Neysla hans er meira svona inn á við. Það má kannski líkja þessu við það þegar tvær konur kaupa sér kjóla. Önnur kaupir kjól frá Dior eða í búð með útlensku nafni, en hin kaupir á verksmiðjuútsölu í Allabúð. Hvor er líklegri til að auglýsa kaupin? Já, það er sama hver kaupin eru - ef maður telur sitt vera betra en náungans, finnst manni mikilvægt að láta náungann vita af því. Það er svona  minns-er-flottari-en-þinns.

Ég ætlaði nú ekki að eyða miklu púðri í hákarlinn þegar ég byrjaði á þessari tjáningu minni.  Ég ætlaði að skrá hugrenningar mínar í tilefni af því að nú er hafinn Þorri.
Við fD fórum ekki á þorrablót í Aratungu á bóndadag. Það, út af fyrir sig, getur talist fremur lélegt. Þetta þorrablót var áður fyrr einhver stærsta skemmtun ársins á þessum bæ, eins og víðar, en eftir því sem dregið hefur úr sambandi okkar við það sem gerist í þessum hluta Bláskógabyggðar, hefur dregið úr áfergjunni í að taka þarna þátt. Oftar en ekki fór rútufarmur úr Laugarási á þorrablót í Aratungu. Síðan, oftar en ekki, kom maður heim undir morgun því sumir farþeganna vildu njóta þorrablóts lengur en aðrir, við ættjarðarsöngva og aðra tjáningu sem þeir létu vera svona dags daglega.

Ég neita því ekki að mig langar heilmikið að fá að njóta þess græskulausa gamans sem sveitungarnir setja saman um hver annan og flytja á þorrablóti og þætti ekki verra að fá að njóta þess án þess að til þurfi að koma allt tilstandið sem því fylgir.

Það er þetta með þorramatinn; þessar kræsingar, sem sumir kalla svo. Þessa þrá eftir að nálgast frummanninn í sjálfum sér - rífa í sig kjammann, skella í sig brennivíninu, hlæja stórkarlalega að gríninu, sleppa fram af sér beisli hvunndagsins. Allt er þetta gott og blessað, og ég hef sannarlega tekið þátt í því og notið, meira að segja í meiri mæli en góðu hófi hefur gegnt.

Til þess að fara á þorrablót í Tungnamanna í Aratungu þarf heilmikinn undirbúning. Á þetta þorrablót kemur hver með sinn þorrabakka með úrvali af þorramat að eigin vali. Það er ekki síst þorrabakkinn sjálfur sem er mikilvægur þegar haldið er til blóts. Góður þorrabakki er völundarsmíð og sannarlega ekki framleiddur af börnum í Kína. Þorrabakkar er pantaðir hjá valinkunnum völundarsmiðum og verða jafnvel ættargripir. Ingólfur á Iðu smíðaði þorrabakka Hveratúnsmanna.
Þegar haldið er á blótið er bundinn ferningslagaður dúkur utan um trogið með tveim hnútum.
Það er síðan helgiathöfn þegar dúknum er svipt af borðhaldið hefst. Þá blasa kræsingarnar við þeim sem bakkinn tilheyrir og fólkið tekur að stynja og rymja af tilhlökkun, góðgætið hverfur síðan í magana og vellíðunarstunurnar hækka með hverjum bitanum og snafsinum. Í Aratungu eru að jafnaði hátt á þriðja hundrað þorrablótsgestir og þegar borðahaldið stendur sem hæst hættir maður að heyra í sjálfum sér og hverfur inn í einhvern undarlegan þorrablóts heim, þar sem allir verða eitt, en þó hver í sínu.
Ég neita því ekki, að mér hugnast þessi aðferð við þorrablótsfagnað betur en sú sem algengust er orðin - hlaðborðin.

Þorrablót Tungnamanna í þessari mynd hafur lifað af heiftarlegar árásir gegnum árin. Það gekk svo langt, að í mótmælaskyni komu andstæðingar trogablóta eitt sinn til blóst með plastbox í stað trogs og steiktan kjúkling, franskar og kokteilsósu í stað þorramatarins. Sannarlega var tiltækið umtalað og Tungnamenn skiptust í fylkingar þeirra sem voru með og á móti trogablóti. Þeir fyrrnefndu stóðu árasirnar af sér.

Nú virðist mér þessi tegund þorrablóts vera fastari í sessi hér en nokkurntíma, ekki síst vegna þess að það víkur frá því sem algengt er nú til dags. Tungnamenn eru ekki fólk sem stekkur á nýjungar.

Leiðbeiningarstöð heimilanna (áður húsmæðra ;)) telur upp matvæli og drykki sem eru við hæfi þegar þorravevisla er annarsvegar: (Það sem ég hef merkt með rauðu er það sem ég myndi geta sett í mig í svona veislu)

Það sem hæfir slíku borði er:Blóðmör og lifrarpylsa, bæði súr og nýsviðasulta súrsuð og  sviðalappir (þurfa góða suðu)svínasulta, súrsuð og nýsúrsaðir hrútspungar, lundabaggar, bringukollar og hvalsrengi.HangikjötReyktur magáll Saltkjöt (helst heitt) fyrir þá sem ekki eru mikið fyrir súrmatSoðnir sviðakjammar Síldarréttir hvers konar  t.d. kryddsíld eða maríneruð síld og síldarsalötHarðfiskurKæstur hákarl 
Soðnar gulrófur, gulrófustappa, soðnar kartöflur, kartöflumúsLjóst og dökkt rúgbrauð, flatkökur og smjörHvítur jafningur (uppstúf) með hangikjötinu
Drykkjarföng með þorramat fara að sjálfsögðu eftir smekk t.d. öl eða gos og mörgum finnst gaman að fá staup af brennivíni með. 

Varast skal að láta þorramat standa lengi við stofuhita eftir að borðhaldi lýkur. Nauðsynlegt er að kæla afganga eins fljótt og við verður komið.  
Á eftir þorramat þarf ekki nauðsynlega eftirrétt en sumum finnst tilheyra að fá pönnukökur, upprúllaðar eða með sultu og rjóma ásamt góðu kaffi.Smákökur, konfektmoli og gott kaffi eða te er einnig tilvalið.
Hér má bæta við ýmsu og þá kemur í hugann það sem nýjast er á boðstólnum: súrsaður lambatittlingar og væri akkur í að fá upplýsingar fyrir áhugasama um hvernig þeir fara um bragðlauka neytenda.

Já, gikkur er ég.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...