01 febrúar, 2014

"Er langt síðan þú varðst 67?"

Þarna sat ég í stólnum á sömu rakarastofunni og venjulega. Fannst kominn tími til að létta á hárlubbanum, sem er þó mis lubbalegur eftir því hvar er á höfðinu. Höfuðhárin eru farin að lýsast talsvert, svona eins og verða vill þegar bætist við árafjöldann. Ég þurfti ekki einu sinni að taka ákvörðun um það þegar hvít hár fóru að blandast þeim dökku fyrir um 30 árum, hvort rétt væri að freista þess að halda uppruinalegum háralit. Grásprengt hár er merki um reynslu og virðuleik í mínum huga og því hef ég nánast fagnað hverju hári sem hefur tekið á sig þannig litleysi.

Hvað um það, þarna þurfti ég klippingu fyrir þorrablót eldri borgara sem famundan var. Við hárskerinn ræddum þorrablót eldri borgara fram og til baka. Þar sem hann er kominn á áttræðisaldur hafði hann mikla reynslu af slíkum samkomum og sagði mér frá hvernig þær gengu fyrir sig í hans heimabyggð. Þessi umræða er svo sem ekki í frásögur færandi. Þar kom hinsvegar, að hárskerinn spurði spurningarinnar í titli þessa pistils.  Ég neita því ekki að spurningin kom á mig og viðbrögð mín voru nánast ósjálfráð: "Ertu galinn?"
Sem betur fer hef ég allmikla reynslu af setu í stól hjá þessum hárskera og hann brást því ágætlega við þessari ágengu spurningu minni. Ég þurfti í framhaldinu að útskýra fyrir honum, að þegar Tungnamenn verða sextugir opnist fyrir þeim tækifæri til að fara á þorrablót eldri borgara.

Ekki meira um það.

Í sömu ferð skellti fD sér í svona salon í hársnyrtingu sem á að taka svona 10-15 mín., en hver maður getur ímyndað sér að sú tímasetning stóðst ekki og þar með skellti ég mér í þolinmæðisgírinn, þann sama og ég nota þegar ég er að aka á eftir bíl á óskiljanlegum lúsarhraða, án möguleika á að komast framúr.

Þegar heim var komið eftir klippingaferðina hélt fD áfram að sinna hári sínu á þann veg sém ég geri ekki; lít reyndar á það sem hálfgerðan vítahring.

Þorrablót eldri borgara var hið ágætasta og öfugt við það sem venjulega er þegar ég fer á samkomur, þá held ég að ég hafi þekkt upp undir 90% þorrablótsgesta. Ég varð hugsi við þá staðreynd.

Eftir matinn, sem var á hlaðborði, og eftir að ég hafði eina ferðina enn freistað þess að smakka hákarl, með sama árangri og venjulega og látið vera að smakka sama mat og venjulega, voru gestum flutt ágæt skemmtiatriði Torfastaðasóknar. Mér fannst það þakkarvert að flytjendurnir skyldu koma þarna og flytja sömu dagskrá og á aðalþorrablótinu um síðustu helgi.

Svo kom að heimferð, ekki undir morgun, eins og venja var í þá tíð, heldur um kl. 23. Fínn tími og möguleiki á góðum nætursvefni.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...