02 febrúar, 2014

Laugarás - sjöundi áratugurinn: Vatnsveitufélagið

Vatnsveitukofinn og safntankurinn.
"Nú er hún Snorrabúð stekkur."
Ég held að stærsti þátturinn í annarri bylgju í íbúaþróun í Laugarási hafi verið tilkoma Vatnsveitufélags Laugaráss. Fram að því að ákveðið var að stofna þetta félag hafði hver bjargað sér; það var notast við kælt hveravatn til vökvunar í gróðurhúsum og kalt neysluvatn var að skornum skammti. Hvernig, nákvæmlega fólk aflaði þess er mér ekki alveg ljóst, en ég geri ráð fyrir að annaðhvort hfi verið notast við kælt hveravatn (ansi vont á bragðið), eða þá að það hafi verið útbúnir brunnar sem vatn var tekið úr. Ég veit um einn slíkan, sem er á lóðarmörkum Kvistholts og Lyngáss. Það var steypt utan um hann og þar safnaðist yfirborðsvatn. Ég veit svo sem ekki hvort umræddur brunnur var eingöngu notaður til að safna vatni fyrir fé Hveratúnsmanna, 

Þegar Sláturfélag Suðurlands ákvað að byggja sláturhús í Laugarási þurfti augljóslega mikið kalt vatn. Því var það, að 1964 var VL stofnað. Auk SS komu að stofnun: Rauði krossinn vegna barnaheimilisins, Laugaráslæknishérað, sem eigandi jarðarinnar, Biskupstungnahreppur, sem hafði með málefni Laugaráss að gera og síðan íbúarnir sjálfir.
Þetta framtak varð mikil lyftistöng fyrir Laugarás og á sjöunda áratugnum fjölgaði íbúum mjög og ég ætla mér að gera grein fyrir þeirri þróun síðar. 

Vatnsveitufélagið skipti áhemju miklu máli fyrir íbúana í Laugarási, og þeir skiptust á að sitja í stjórn og vinna þeirra að málefnum félagsins var hugsjónastarf. Árin liðu og áratugir og það kom nýtt fólk í Laugarás sem hafði ekki þessa sömu sýn á félagið. Það þurfti bara sitt neysluvatn.  Það fór smátt og smátt að fjara undan félaginu og ég þykist nú ekki vita allt um ástæður þess, en hér eru nokkrar tilteknar:
a. Rauði Krossinn og Sláturfélag Suðurlands hættu starfsemi í Laugarási.
b. Vatnið, sem kom úr lind í Vörðufelli, var takmarkað. Kröfur um að fá kalt vatn til vökvunar í gróðurhúsum urðu smám saman háværari og aðferðir við að takmarka slíka notkun ollu óánægju og deilum. Það má kannski segja að meðal íbúa í Laugarási á 9. og 10. áratug síðustu aldar hafi ekki verið fyrir hendi sú hugsjón frumbýlingsins sem ráðið hafði för í málefnum félagsins.
c. Það höfðu aldrei náðst samningar við eigandur Iðu um vatnið. Þau mál voru stöðugt umfjöllunarefni í fundagerðum, en niðurstaða náðist aldrei, mér vitanlega.
d. Nýr eigandi húss og lóðar Sláturfélagsins, gerði kröfur til meints eignarhluta SS í vatnsveitufélaginu, sem þáverandi stjórn félagsins gat með engu móti sæst á. 

Í sem stystu mál varð það úr að félagar í VL samþykktu að afhenda Biskupstungnahreppi veituna gegn því að hreppurinn tryggði kalt vatn eftir þörfum. Þetta varð síðan til þess að innan einhvers tíma var hætt að nota vatn úr lindinni í Vörðufelli, og í staðinn fékk Laugarás vatn úr Biskupstungnaveitu.

Þar sem ég þykist ekki vera að ástunda sagnfræði læt ég aðra um að nálgast þessi mál öll frá því sjónarhorni.

Ég sat í stjórn VL á þeim tíma sem félagið var lagt niður, gegn vilja mínum, eins og flestir á þeim tíma; enginn hugsjónaeldur lengur (ég sat s.s. í stjórn gegn vilja mínum). Þetta voru átakatímar, en ég tel að niðurstaðan hafi orðið góð. Nú hafa íbúar Laugaráss aðgang að öllu því kalda vatni sem þeir þurfa á að halda. 

Það sem hér fer á eftir er:
a. Listi yfir þá sem sátu í stjórn Vatnsveitufélags Laugaráss á hverjum tíma.
b. Punktar úr fundagerðarbókum félagsins, sem ég tók saman í aðdraganda þess að félagið var lagt niður.



Listi yfir stjórnarmenn 

í Vatnsveitufélagi Laugaráss frá upphafi (í stafrófsröð)


Punktar úr fundargerðabókum 
Vatnsveitufélags Laugaráss

Stofnfundur 12. júní 1964.
Stofnfundinn sátu:


Fyrir Biskupstungnahrepp: Skúli Gunnlaugsson oddviti, Bræðratungu og Þórarinn Þorfinnsson, hreppsnefndarmaður, Spóastöðum
Fyrir sláturhús Sláturfélags Suðurlands: Rögnvaldur Þorkelsson, verkfr.
Fyrir stjórnarnefnd Laugaráslæknishéraðs: Jón Eiríksson formaður
Fyrir Sumardvalarheimili RKÍ: Jóna Hansen
Auk ofangreindra sátu fundinn garðyrkjubændurnir Skúli Magnússon, Hveratúni, Jón V. Guðmundsson, Sólveigarstöðum og Hjalti Jakobsson, Laugargerði.
Fyrir Skálholtsstað, áheyrnarfulltrúi: Sveinbjörn Finnsson, staðarráðsmaður.

Samkv. áætlun sem kynnt var á stofnfundi skyldi virkjuð lind í Vörðufelli 3-4 sek.l. Vatnið yrði leitt í asbestpípum að dælustöð þar sem væri allt að 15 m3 þró.
Gert var ráð fyrir tveim dælum í dælustöð, annarri öflugri til að mæta álagi í sláturtíð.
Upphafleg kostnaðaráætl. hljóðaði upp á kr. 575.000 - búist við hækkun.
Fram kom hjá verkfræðingnum að með veitunni sköpuðust möguleikar á fullkomnum brunavörnum og þess vegna lækkuðum iðgjöldum.
Fram kom að ríkissjóður myndi styrkja framkvæmdina um allt að kr 300.000.
Á fundinum var lögð fyrir og rædd samþykkt fyrir félagið.

Auk þeirra sem að ofan er getið undirrituðu fundargerðina eftirtaldir:
Ólafur Einarsson, læknir, Hörður V. Sigurðsson, Lyngási, Einar Ólafsson, Jóhann Eyþórsson og Sigmar Sigfússon.

Aðalfundur 11. apríl 1965
Fram kom að byggingarkostaður veitunnar til áramóta 1964-65 var 717.656.55, að stofnframlög kr. 176.000 hefðu öll verið greidd, að loforð lægi fyrir frá ríkissjóði um framlag kr. 358.000.
Á þessum fundi var samþykkt að breyta samþykkt félagsins þannig að getið væri um upphæð stofngjalda hvers stofnanda:
Sláturhús SS kr. 110.000, læknisbústaðir og sumardvalarfeimili RKÍ kr. 20.000 hvert, aðrir stofnendur kr. 4.000 hver og Biskupstungnahreppur kr. 4.000 vegna hverrar leigulóðar.
Þá var á fundinum lögð fram tillaga að samningi milli eigenda Iðu I og Iðu II og stjórnarnefndar Laugaráslæknishéraðs varðandi skipti á réttindum kalds og heits vatns. Fundurinn féllst á tillöguna.
Helgi Indriðason bóndi í Laugarási fékk aðild að veitunni.
Á stjórnarfundi 20. ágúst 1965 var ákveðið að taka í félagið eftirtalda:
Sigurð Sigurðsson, Krosshól, Guðmund Indriðason, Lindarbrekku og Læknishéraðið vegna gamla læknishússins.

Aðalfundur 16. apríl 1966

Útskýrt hvernig fastagjald væri fundið: Sláturhúsið og barnaheimilið greiddi 1/2 fastagjaldsins, eyðslugjald var 60 aur. pr.tonn á síðasta ári, en nú yrði að hækka það.

Stjórnarfundur 25. ágúst 1966
Þar er að finna þessa bókun:
Stjórnin ræddi um skiptingu stofnkostnaðar vatnsveitunnar og gerir í því sambandi eftirfarandi bókun:

Á stofnfundi veitunnar var ákveðið af þeim sem að því unnu, að Sláturfélag Suðurlands tæki að sér að greiða hálfan stofnkostnað og áskildi sér rétt til tveggja sek.ltr. af vatni. En bókun þessara atriða hefur fallið niður í samþykktum veitunnar og fundargerð stofnfundar. Vegna seinni tíma ákveður stjórnin, að eignahlutur og vatnsréttur Sláturfélags Suðurlands og annarra aðila verði samkvæmt því, sem umrætt var á stofnfundi sbr. bókun hér að framan. Verði aukning á vatnsmagni frá því sem nú er, þ.e. ca. 4 sek.ltr., þá skal Sláturfélag Suðurlands eiga rétt á að halda óbreyttum hlutföllum um eignarrétt og vatnsrétt.

Þótt vatnsréttur Sláturfélags Suðurlands sé 2 sek.l., þá skal félaginu heimil meiri notkun, sé nægilegt vatn fyrir hendi, en samkomulag þetta gildir að fullnýtingu 4 sek.ltr., sem er það vatnsmagn, sem eigendur Iðu hafa boðið fram.

Viðvíkjandi greiðslu stofnkostnaðar skal tekið fram, að Sláturfélag Suðurlands og hverfisbúar greiða tvo jafna hluti þegar hlutur Rauða Kross Íslands hefur verið dreginn frá, og eftir þeim hlutföllum verði aðveitukerfi veitunnar við haldið, miðað við óbreytt eignahlutföll, en rekstur vatnsveitunnar sjái um dælur og búnað þeirra.

Aðalfundur 2. apríl 1967
Umræður urðu um fyrningu veitunnar þar sem fyrningarreikningur er ekki færður, en þar sem vatnsveitan er ekki skattskyld var ekki talin ástæða til að breyta því.

Aðalfundur 30. mars 1968
Rætt um ákvörðun vatnsskatts og vatnsmæla sem voru að verða úr sér gengnir.
Rétt þótti að hafa mæla áfram hjá stærstu aðilunum, en samþykkt að fela stjórninni að ákveða vatnsskatt hjá öðrum með hliðsjón af nokkrum síðustu árum.

Stjórnarfundur 19. mars 1970
Jóhann Ragnarsson hefur neitað að greiða stofngjald vegna sumarbústaðar síns í landi Ólafs Einarssonar. Hann telur sig ekki eiga að greiða stofngjald, en [greiði] notkunargjald.
Stjórn veitunnar lítur svo á að nýjum notanda beri að greiða sömu gjöld og öðrum notendum, þar með talið stofngjald, og verði notaðir þeir hlutir er Biskupstungnahreppur tók að sér að greiða við stofnun veitunnar, meðan þeir endast, svo ekki raskist hlutföll eigenda í veitunni.

Aðalfundur 2. apríl 1970
Á þessum fundi var samþykkt félagsins 6. gr. breytt í framhaldi af máli Jóhanns Ragnarssonar.

Aðalfundur 11. sept 1971
Þórarinn Þorfinnsson talaði um stofna þá er Biskupstungnahreppur lagði á sinni tíð og væri óafturkræft framlag til veitunnar. Nú hefði verið lagður nýr stofn norðaustur að Höfðavegi og lagði hreppurinn hann á sinn kostnað, sem er um kr. 38.000, en hreppurinn taldi sjálfsagt að veitan annaðist þessar lagnir og því bæri hann fram tillögu um breytingu á samþykktum félagsins, þannig að 4. grein verði þannig: Frá og með árinu 1970 kostar vatnsveitan aukningu og viðhald allra stofna vatnsveitunnar frá fyrstu greiningu að heimæðum notenda. Tillagan var samþykkt.

Þá kom fram tillaga frá Skúla Magnússyni um breytingu á 5. grein: Stjórninni er þó heimilt að leyfa notkun vatns til græðlingaræktunar svo og blómaræktunar í þeim tilfellum sem hveravatn er sannanlega ónothæft. Tillagan var samþykkt.

Stjórnarfundur 13. sept. 1971
Ákveðið að greiða Bisupstungnahreppi kostnað við lagningu stofns norðaustur að Höfðavegi ca. kr. 38.000 fyrir áramót.
Ákveðið að hækka gjaldskrá um sem næst 50%. Samsvarandi hækkun verði hjá SS og RKÍ.
Lágmarksgjald á leyfðri notkun í gróðurhúsum verði 2 hlutar notkunargjalda.

Stjórnarfundur 6. júlí 1972
Beiðni Auðshyltinga um vatn frá vatnsveitu Laugaráss. Stjórnin samþykkir að fresta ákvörðun og gefa Jóni H. Bergs þannig tækifæri til að fá umboð stjórnar Sláturfélags Suðurlands til þess að samþykkja breytingu á vatnsnotkuninni sbr. fundarsamþykkt 25. ágúst 1966, sjá efst á bls. 15.(fundagerðarbók)

Stjórnin samþykkir að skora á stjórnarnefnd Laugaráslæknishérðs að ganga formlega, hið fyrsta frá samningum um vatnsréttindi vatnsveitunnar skv. áður gerðu munnlegu og bréflegu samkomulagi við eigendur jarðarinnar Iðu. Stjórnin samþykkir að fela formanni að skrifa stjórnarnefndinni um þetta mál.

Aðalfundur 16. september 1972
Formaður ræddi um ósk Auðsholtsmanna um aðild að veitunni, en taldi ekki möguleika á því eins og sakir standa.
Nokkrar umræður urðu um samninga við Iðueigendur vegna vatnsréttinda, en það mál er ekki komið á hreint ennþá. Oddvitanefnd Laugaráshéraðs hefur unnið að því máli.

Stjórnarfundur haldinn 21. sept 1972
Ákveðið að gefa RKÍ 20% afslátt af notkunargjaldi fyrir s.l. gjaldár.

Aðalfundur 6. október 1973
Formaður ræddi um að réttast væri að fella niður af notendum stofngjald. Fundarmenn hreyfðu ekki mótmælum. Var talið eðlilegast að stjórnin tæki ákvörðun í málinu.
Formaður upplýsti að enn væri ósamið við Iðumenn um vatnsréttindi. Var í sumar haldinn fundur með Iðumönnum, en sættir tókust ekki og er málið nú í höndum lögfræðinga.

Stjórnarfundur 18. október 1973
Samþykkt að leggja niður stofngjöld og hækka fastagjald úr 900 kr í 1000 kr. pr. hlut og notkunargjald úr 330 kr. í 500 kr pr. hlut og notkunargjald pr. tonn verði kr. 1,52.
Samþykkt að verða við ósk RKÍ um að fella niður notkunargjald af barnaheimilinu að óbreyttri vatnsnotkun þess.

Aðalfundur 14. mars 1976
Formaður las bréf frá stjórnarformanni Laugaráslæknishéraðs frá 15. janúar 1975 varðandi vatnsréttindi og samninga þar að lútandi við eigendur Iðu. Svo og svarbréf stjórnar veitunnar. Að því búnu las formaður annað bréf frá sama aðila dags. 22. október 1975 um sama mál.

Formaður óskaði eftir afgreiðslu á seinna bréfi stjórnarformanns Laugaráshéraðs. Var stjórn Vatnsveitunnar falið að svara því bréfi þannig: Eigendum Iðu sé heimilt að fá kalt vatn úr dælustöð veitunnar með sömu réttindum og skyldum sem aðrir notendur veitunnar. En telur jafnframt óframkvæmanlegt að leyfa þeim vatnstöku úr stofnæð veitunnar. Samþykkt var að senda öllum eigendum Iðu afrit af bréfi þessu.

Aðalfundur 11. des 1976
Samþykkt var breyting á 9. grein samþykkta félagsins og var hún við það þannig:Aðalfundur er lögmætur hafi réttilega verið til hans boðað og þriðjungur félagsmanna mætir.

Stjórnarfundur 26. sept 1977
Rætt var um fyrirsjáanlega stofnlögn , umsókn um inntak í vinnuhús og rætt var almennt um notkun vatnsins í gróðurhúsum. Einnig var rætt um umbúnað við vatnsból.

Aðalfundur 20. nóvember 1977
Umræður um vatnsréttindin - ekkert hefur gengið í samningsgerð. Jón Eiríksson á að hafa lýst því yfir að lokað verði fyrir heita vatnið til Iðu í vor og að Iðumenn hafi hótað á móti að loka fyrir kalda vatnið en ljóst væri að þeim myndi ekki verða stætt á því samkvæmt lögum um vatnstöku til heimilisnota.

Stjórnarfundur 18. júlí 1979
Fundurinn var haldinn með Jóni H. Bergs vegna bréfs eigenda Iðu, dags. 3. júlí 1979 um makaskipti á heitu og köldu vatni. Ákveðið var að leita til Haraldar Blöndals lögfræðings. Stjórnin átti viðræður við Harald sama dag og fellst hann á að senda vatnsveitunni álitsgerð um rétt hennar í þessu máli.

Stjórnarfundur 11. ágúst 1979
Tekið fyrir bréf frá Haraldi Blöndal dags. 8. ágúst 1979 vegna bréfs eigenda Iðu dags. 3. júlí 1979, ákveðið var að synja kröfum eigenda Iðu á hendur Vatnveitu Laugaráss, á grundvelli álitsgerðar Haraldar Blöndals.
Lagning kaldavatnsstofns í nýtt íbúðarhverfi í Laugarási. Vatnsveitan sér sér ekki fært að leggja nýjan stofn í hverfið nema hreppurinn borgi stofngjöld fyrir óúthlutaðar lóðir. Ákveðið að ræða við viðkomandi ráðamenn.

Stjórnarfundur 12. des 1979
Farið fram á að Biskupstungnahreppur leggi fram tengigjöld vegna hluta af óúthlutuðum lóðum í nýju íbúðarhúsahverfi á Laugarástúni.

Stjórnarfundur 24. ágúst 1980
Umsókn frá Skálholtsstað im inngöngu í félagið. Samþykkt að heimila vatnstöku úr stút RKÍ í 15 daga vegna bráðs vanda.

Stjórnarfundur 3. okt 1980
Vegna umsóknar Skálholtsstaðar. Ákveðið að athuga lagalega stöðu gagnvart eigendum Iðu ef Skálholtsstaður fengi vatn fram að þeim tíma er fyrirhuguð "Reykholtsveita" taki við.

Aðalfundur 9. nóvember 1980
Ósk Skálholtsstaðar rædd og stjórn falið að leysa málið.

Stjórnarfundur 9. nóvember 1980
Samið bréf til Biskupstungnahrepps - óskað eftir upplýsingum um hugsanlega vatnsveitu í sveitina og hvort Skálholtsstaður sé inni í þeirri mynd.

Aðalfundur 13. desember 1981
….að Skálholtsstaður hefði sótt um fulla aðild að veitunni og lagt stofn frá Skálholti að Ljósalandi 2-3" víðan að öllu leyti á sinn kostnað.

Í bráðabirgðasamkomulagi hefði þeim verið heimilað að fá næturrennsli frá 20-8, en heimilt væri að loka fyrir vatnið ef þurfa þætti þegar sláturhúsið væri að störfum. Nokkuð var rætt um vatnsveitu Biskupstungna og hvernig Vatnsveita Laugaráss myndi tengjast því máli og stjórninni falið að kanna þau mál.

Fundur 17. febrúar 1982
Fjallað um kaldavatnsþörf og ástand í vatnsmálum. Vísað til þess að við stofnum veitunnar var gert ráð fyrir að úr lindinni í Vörðufelli kæmu 3-4 sek.ltr. Við nákvæmar mælingar frá síðari hl. jan. til 15. feb. hefði vatnsmagnið reynst vera 2.84 sek.ltr.

Stjórnarfundur 7. júní 1982
Greint frá endurteknum mælingum á vatnsmagni á tímabilinu mars til apríl. Það mesta sem mældist mun hafa verið 3,81 sek.ltr.
Ítarlega rætt um samningsdrög vegna vatnsafnota Skálholtsstaðar. - ákveðið að láta lögfræðing ganga frá samningnum.

Stjórnarfundur 3. nóvember 1982
Frekari mælingar á vatnsmagni:
21. júni var vatnsmagn 2,97 sek.ltr.
8. ágúst 3,42 sek.ltr.
26. sept. 3,3 sek.ltr.

Stjórnarfundur 15. nóvember 1982
Bókaður samningur við Skálholtsstað.

Stjórnarfundur 13. janúar 1986
Samþykkt að fella niður fastagjald á RKÍ.

Stjórnarfundur 28. mars 1988
5. Miklar umræður urðu um stöðu félagsins almennt með tilliti til ýmissa mála sem komið hafa upp á yfirborðið á síðustu árum. Töldu menn að kominn væri tími til að staldra við og athuga þann grundvöll sem félagið var stofnað á í upphafi og að nauðsynlegt væri að reyna að vekja félagsmenn til umhugsunar um þau mál. Var ritara fálið að gera uppkast að dreifibréfi til félaga í vatnsveitunni í þessu skyni og skal bréf þetta sent út með fundarboði.

Stjórnarfundur 27. júní 1988
Fram kom að ákveðið hefur verið að leggja 4" kaldavatnslögn ofan úr Bjarnarfelli í Reykholt of etv. að Torfastöðum.
Ákv. að ritari skrifi hreppsnefnd og fari fram á að Laugarás verði reiknað inn í þetta dæmi.

Stjórnarfundur 4. október 1988
7. Fram kom að enn hefur ekki borist [svar] við bréfi stjórnar til hreppsnefndar um könnun á þátttöku í Bjarnarfellsveitu.

Stjórnarfundur 29. júní 1989
Mætt var stjórn og Birkir Þrastarson. Birkir skýrði svo frá að hann hefði fengið aðstöðu til fiskeldis í Sláturhúsi SS. Vatnsþörf er áætluð 24m3*6 á sólarhring. Samningurinn er til 15/9 1989.
Í framhaldi af því var ritara falið að semja bréf til hreppsnefndar. Afrit af því bréfi er í bréfamöppu. Haft var samband við Jóhann Bergmann bæjarverkfræðing í Keflavík til að skoða aðstæður.

Stjórnarfundur 23. október 1989
Bréf frá Óskari Magnússyni hdl fyrir hönd landeigenda Iðu I og Iðu II. Ákveðið að kynna efni bréfsins á fundi með fulltrúum hreppsins.
Kynnt bréf frá oddvita þar sem Sverrir (Gunnarsson) og Þorfinnur (Þórarinsson) eru tilnefndir til viðræðna við stjórn V.L.

VANTAR AÐALFUND 1990 og 1992 !

Aðalfundur 22. maí 1993
Sagt frá viðræðum við Iðumenn og að þær hefði litlum sem engum árangri skilað.

Aðalfundur 13. júní 1994
Umræður um veitumál við hreppinn

Aðalfundur 30. nóvember 1995
Hugmyndir ræddar um sameiningu við hreppsveitu og að því máli verði ýtt af stað.

Stjórnarfundur 22. febrúar 1995
2. Samþykkt að fela ritara að senda hreppsnefnd bréf til að fá upplýsingar um með hvaða móti hreppsnefnd sjái fyrir sér að V.L. komi inn í hreppsveituna.

Stjórnarfundur 7. desember 1997
Ákveðið að SS verði sendur reikningur vegna hálfs árs notkunar. Rætt verði við nýja eigendur vegna seinni hluta ársins og settur upp mælir. Reikningur sendur vegna sömu upphæðar og SS greiðir.

Kynnt bréf Biskupstungnahrepps frá 1. okt. 1997

ENGINN AÐALFUNDUR HEFUR VERIÐ HALDINN Í FÉLAGINU SÍÐAN 1995

Stjórnarfundur 1. júní 1999
Fjallað um stöðu og framtíð félagsins út frá punktum sem ritari lagði fram og hann hafði tínt saman úr bókum félagsins. Þykir stjórnarmönnum þörf á að fyrir liggi hvernig eignarhaldi í félaginu er háttað og hver lagaleg staða þess er. Ákveðið að fela ritara að koma á fundi með lögfræðingi vegna þessa.


Ákveðið að bíða með boðun aðalfundar þar til eftir fund með lögfræðingi.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...