Það hefur greinilega verið ætlun hans að skrásetja nú vel og rækilega þann tíma sem hann átti hér fyrir sunnan og hélt því dagbók um daglegt líf í eitt ár, árið 1940, svo ekki söguna meir.
Dagbókin geymir aðallega frásagnir af daglegu lífi á Torfastöðum og Syðri-Reykjum. Það sem hér fer á eftir er frásögn af einum atburði, og því sem honum fylgdi.
29. janúar, 1940Færslurnar næstu daga greina að mestu leyti frá daglegum störfum, en síðan kemur laugardagurinn 17. febrúar:
Austan gola og dálítil rigning. Þeir menn sem eru nú í vinnu hjá Stefáni eru Magnús Sveinsson frá Miklaholti, Bergur Sæm(undsson), Olav hinn norski og ég.
Mbl. 23. febrúar |
Laugardagurinn 17. febrúar, 1940
Norðaustan kaldi, bjart veður, 10°frost. Ég var í ýmsum snúningum, svo sem fægja rör, láta rúður í glugga og grafa skurði. ég fékk bréf að heiman og frá móður Hlyns.
Ólav fór upp að Efstadal.
Sunnudagurinn 18. febrúar.
Norðan og norðaustan gola og 2°frost, mikil snjókoma með morgninum.
Olav var ókominn frá Efstadal.
Mánudagurinn 19. febrúar
Norðaustan strekkingur, mikil snjókoma og fjúk er á daginn leið, en var slydda um morguninn og fremur stillt veður. Þegar við höfðum borðað morgunverð lögðum við fjórir af stað, Stefán, Jón Guðmundsson (hann kom að S.-Reykjum 31. janúar til að leggja miðstöð í gróðurhusin), Bergur (Sæmundsson) og ég til að líta eftir Olav, því að veður tók heldur að versna, snjókoman og vindurinn jókst. Við vonuðum að hann hefði aldrei lagt af stað frá Efstadal, en þorðum samt ekki annað en grennslast eftir því. Þegar við vorum koomnir norður fyrir Brúará var kl. 9.50. Við reyndum að hraða ferð okkar sem mest, en það var ekki auðvelt, því að snjórinn var mjög mikill, stöðugt kafald í mitt lær og mitti og jafnvel enn meira sumsstaðar. Okkur sóttist seint sem vonlegt var.
Þegar við höfðum gengið æði spöl áleiðis til Efstadals mættum við pilti þaðan sem fræddi okkur á því að Olav hefði farið þaðan kl 8 um morguninn og kvaðst ekki hafa þorað annað en fara á eftir honum er hann varð þess var hve veðrið var orðið ískyggilegt.
Nú leist okkur ekki á blikuna og vissum sem sagt ekki hvað gera skyldi. Snjókoman jókst enn meir, jafnframt því sem hvessti. Loks tókum við þá ákvörðun að fara vestur að Böðmóðsstöðum, því að okkur þótti líklegt að hann hefði leitað þangað, þar eð þetta var næsti bær. Eftir hér um bil tvær klukkustundir komumst við þangað (þegar sæmilegt er umferðar er þessi vegalengd farin á 20' til hálftíma) og vorum flestir orðnir þurfendur hvíldar. Eftir að við höfðum hresst okkur þar og fengið þau klæði sem okkur vanhagaði um (við höfðum ekki búið okkur nægilega vel er við lögðum af stað að heiman) lögðum við af stað sömu leið ásamt Guðmundi bónda. Ferðin heim gekk slysalaust og vorum við komnir þar um kl. 5.
Jón fór með Guðmundi til baka aftur, því að varhugavert þótti að láta einn mann vera á ferð í þessu veðri.
Þreyttir og áhyggjufullir lögðumst við til hvíldar.
Þriðjudagurinn 20. febrúar
Hvass norðaustan, snjókoma og talsvert frost. Dimmviðri var svo mikið að ekki þótti fært nokkrum manni að leita Olavs. Sátu því allir heima og gátu ekkert að gert.
Miðvikudagurinn 21. febrúar
Austan kaldi, úrkomulaust, en dálítið fjúk. Fjórir menn héðan af bæjunum fóru norður að Efstadal og vestur að Laugardalshólum til að vita hvort Olav hefði komið þangað, en svo reyndist ekki vera. Leituðu þeir síðan hér á mýrunum meðan bjart var, en án nokkurs árangurs.
Nú gerðu menn sér ekki von um að Olav væri lífs fyrst hann hafði ekki komist til þessara áðurnefndu bæja. Var nú tekið að safna lið hér í nágrenni til að leita á morgun.
Fimmtudagurinn 22. febrúar
Austan strekkingur, krapahríð. Laitað var að Olav meirihluta dagsins. Við vorum átta, sem tókum þátt í leitinni. Heim komum við án nokkurs árangurs. Eins og áður er sagt var krapahríð, enda urðum við mjög hraktir og kaldir. Á mýrunum var snjóinn ekki að sjá, en í skóginum og þar sem eitthvert afdrep var, var kafald og him mesta ófærð.
Okkur þótti fullvíst að leit yrði árangurslaus meðan þessi snjóþungi væri á þessum slóðum. Var því ákveðið að geyma hana þar til þiðnaði.
Föstudagurinn 23. febrúar.
Norðaustan gola, skýjað loft, úrkomulaust, að kvöldi var 4°frost.
Við lögðum rör í 4 og 5 (númer gróðuhúsa), en létum okkar týnda vin og félaga hvíla í sinni hvítu og friðsömu sæng, óáreittan.
Næstu daga er ekki vikið að hvarfi Olavs, en veðri lýst, svo og daglegum störfum á Syðri Reykjum.
Föstudagurinn 1. mars.
Hæg suðvestan átt, éljaveður en bjart á milli. 1°frost. Lokið var við að logsjóða miðstöðina í 4 og 5. Ég fór niður að Torfastöðum með Agli logsuðumanni.
Lík Olavs heitins fannst. Var það á svokallaðri áveitu, sem er vestur af Efstadal. Hafði hann auðsjáanlega ætlað að rekja sig með girðingu sem liggur frá grundarhúsunum í Efstadal suður að Brúará, en sökum dimmviðris tekið skakka girðingu og lent suður á áveituna.
Laugardagurinn 2. mars
Suðvestan kaldi, rigning af og til, 5°hiti. Ég batt upp tómata í 6 og lauk því.
Gröf Olavs var tekin af Bergi. Systir Olavs heitins og maður hennar komu hingað.
Mánudagurinn 3. marsÍ framhaldi af þessum lestri komst ég að því að Olav sá sem þarna lét lífið hét fullu nafni Olav Sanden og systir hans, Liv Sanden var kona Stefáns Þorsteinssonar, garðrkjufræðings í Hveragerði á þessum tíma. Þau höfðu gengið í hjónaband 1938. 1946 fluttu Liv og Stefán að Stóra-Fljóti og bjuggu þar saman til 1951, en þá lést Liv úr berklum. Stefán bjó áfram á Stóra-Fljóti til 1956. Hann lést 1997.
Norðaustlæg átt, bjart veður, 5°frost.
Jarðarför fór fram á Torfastöðum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli