07 febrúar, 2014

Forréttindi í uppsveitum.

Heilsugæslustöðin í Laugarási
Svo segir í "Sunnlenskum byggðum", eða glæpamannatalinu eins og það hefur stundum verið kallað í mín eyru:
Árið 1923 var læknissetrið í læknishéraðinu, sem þá var nefnt Grímsneshérað en síðan Laugaráslæknishérað, flutt frá Skálholti að Laugarási. Hafði þá verið byggt þar hús yfir lækninn. Var það timburhús á steinsteyptum kjallara.
...
Nýtt læknishús var byggt þar 1936. Var það notað til íbúðar fyrir lækninn og lækningastofu í um 30 ár, en þá leysti hús það, er nú er nefnt Launrétt 2, það af hólmi.
Eðlilega veit ég harla lítið um þá lækna sem störfuðu hér í Laugarási fyrir þann tíma er ég fæddist, nema Ólaf Einarsson og fjölskyldu hans. Ólafur var læknir Laugarási frá 1932-1947, eða í ein 15 ár. Hann, eins og fyrirrennarar hans í starfi stundaði búskap meðfram læknisstörfum sínum og var síðast læknirinn í Laugarási sem það gerði. Hann fékk land hérna og byggði sumarhús og plantaði trjám. Alla tíð síðan hefur fjölskylda Ólafs verið með annan fótinn hér í Laugarási og litið á staðinn sem sitt annað heimili, að ég tel.
Knútur Kristinsson tók við af Ólafi 1947 og var hér í ein 8 ár og ég man nú ekki eftir veru fjölskyldu hans hér (var 2ja ára þegar þau fóru), en hef séð myndir af mér með börnum Knúts og Huldu.
1955 gerðist Grímur Jónsson síðan læknir hér og bjó hér ásamrt Gerðu konu sinni og börnum í um 10 ár. Þann tíma man ég bara nokkuð vel, enda börnin  á aldur við mig og systkin mín. Síðasta árið sem Grímur var hér læknir, bjó fjölskyldan í nýbyggðu læknishúsinu (heilsugæslustöðinni) í Launrétt.
1967 tók Konráð Sigurðsson við embætti héraðslæknis og hann var hér ásamt fjölskyldu sinni til 1982, fyrst með konu sinni Sigrid Østeby og börnum þeirra og síðar með þriðju konu sinni Önnu Agnarsdóttur og dætrum þeirra.
Umsvifin í heilsugæslunni jukust og 1983 var ráðinn annar læknir til starfs við hlið Konráðs, en það var Guðmundur B. Jóhannsson og hann flutti ásamt eiginkonu sinni Jósefínu Friðriksdóttur og börnum í nýbyggðan læknisbústað 1972. Hann var síðan læknir  í Laugarási, með hléum til 1983.

Þegar tímabili Konráðs og Guðmundar lauk hér í Laugarási voru ráðnir til starfa Pétur Z. Skarphéðinsson og Gylfi Haraldsson. Ég man nú reyndar ekki hvor kom á undan, en það er aukaatriði.
Þeir settust hér að með fjölskyldum sínum og hafa búið hér síðan, eða í ríflega 30 ár.

Vissulega hafa fleiri læknar átt hér viðdvöl um skemmri tíma, vegna afleysinga, aðallega.

Undantekningalítið hafa þeir læknar sem hér hafa starfað þann tíma sem ég hef þurft að sækja heilsugæsluþjónustu, verið gull af mönnum og fyrir það er ég og á að vera þakklátur.

Ég held að við sem búum eða höfum búið hér í uppsveitum og fengið að njóta svo öruggrar læknisþjónustu sem raun ber vitni, getum seint ofmetið þau forréttindi.

Þá vil ég halda því fram, að sú einfalda staðreynd að hér hafi tveir læknar unnið saman í meira en 30 ár, án þess að skugga hafi borið á störf þeirra og án þess að íbúarnir hafi fengið nóg af þeim, eða þeir hvor af öðrum, sé besti vitnisburðurinn um að það sé bara allt í góðu lagi.
Mér finnst það vel sagt, sem Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi lét frá sér fara fyrir nokkrum dögum í færslu á fb:
Af gefnu tilefni vil ég segja að við eigum hér í Laugarási bestu heilsugæslu sem völ er á á Íslandi í dag, þar starfa tveir frábærir læknar og fleira gott starfsfólk. Sama hvert erindið er alltaf getum við leitað til þeirra og er vel tekið. Árið 2008 hlutu þeir "Uppsveitabrosið" fyrir frábæra þjónustu við heimamenn og þá óteljandi ferðamenn sem þeir hafa þjónað líka.
Ég neita því ekki, að í stormi undanfarinna daga; stormi sem geisaði eins og þessir venjulegu stormar í athugasemdakerfum nútíma fjömiðla. þurfti ég aðeins að taka á sjálfum mér. Mér tókst það. Ég skynja það hjá sjálfum mér og því fólki sem er í umhverfi mínu, að við erum ánægð með þá ágætu heilsugæslu sem  við njótum hér og það ágæta starfsfólk sem vinnur að því að aðstoða okkur þegar á bjátar, eins og það getur best, hvert með sínum hætti.

Loks vísa ég í skrif mín í tilefni af því að læknarnir tveir hlutu uppsveitabrosið árið 2008.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...