10 febrúar, 2014

Ég á víst bara bágt

Andstæðingar málfarsfasisma míns, snúið við áður en lengra er haldið.

Ábyrgð fjölmiðla er mikil þar sem um er að ræða viðgang og þróun íslenskunnar. Hún er því meiri vegna þess að með samstilltu átaki er búið að afgreiða alla þá sem eiga erfitt með að sætta sig við málfarslegt metnaðarleysi, sem málfarsfasista. Þeir eru orðnir nokkurskonar hrópendur í eyðimörkinni, Eiðar.


Ég hlustaði á fréttir í gærkvöld, svona eins og gerist.
Í inngangi að frétt í fréttatíma sem hófst kl. 19:30, þar sem verið var að fjalla um Þorláksbúð í Skálholti sagði þulurinn, án þess að blikna:
Miklar skuldir hafa safnast vegna byggingu Þorláksbúðar í Skálholt, en nú er ljóst....... (hér má hlusta á þetta)
Þarna er um að ræða skrifaðan texta og því ætti að vera óhætt að gera þá kröfu að hann falli að eðlilegu íslensku máli.
(Fyrir þá sem enn finnst ekkert að þessu er hér setning þar sem á eftir vegna kemur ÉG í viðeigandi falli: Miklar skuldir hafa safnast vegna mér. - hvernig hljómar það?)  

Svo hélt fréttatíminn áfram og það var sagt frá
"Goðsagnakenndum verum í Árbæjarsafni". (smella til að hlusta)
Ég tek það fram, að ég kenni viðmælandanum ekki um, heldur fjölmiðlinum. Þarna hefði augljóslega, í mínum huga, átt að benda viðmælandanum á að ekki væri málfarið nú alveg að gera sig, og síðan taka upp aftur.
Viðmælandinn sagði sem sagt:
a. "Það var Miklabæjarsólveig sem var höfnuð af presti og skar sig svoldið ítrekað........"
b. "Bjarna-Dísa frosnaði til hels"
c. "Þetta er allt svona kafað djúpt í sögur Íslands....."
Já, já, ég veit. Ýmsir munu afgreiða þetta sem hroka eða yfirlæti af minni hálfu, en ég hafna því að svo sé.
Það er mikið gert úr því að fólk eigi að hafa metnað; verk sem maður leggi metnað í skapi manni þá ímynd að það sé mark takandi á því sem maður segi og geri. Tungumálið sem maður notar, segir meira um mann en flest annað. Þarna var á ferð fær förðunarmeistari, það ætla ég ekki að draga í efa, en listaverkin sem sýnd voru guldu þess hve lýsingin á þeim var brengluð. Þarna kom til ábyrgð fjölmiðilsins, metnaðar hans og virðingar fyrir tungunni.


Og hana nú.

Engin ummæli:

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...