05 febrúar, 2009

Brosað í uppsveitum

Sjaldan held ég að mér hafi þótt verðlaunaveiting betur verðskulduð en sú, að sæma þá læknana og félagana á Heilsugæslustöðinni í Laugarási, Gylfa Haraldsson og Pétur Skarphéðinsson, Uppsveitabrosinu svokallaða.
Þessir herramenn hafa starfað hér síðan einhverntíma að síðustu áratugum síðustu aldar og hefur tekist að ávinna sér óskorað traust þeirra sem hafa þurft á þjónustu þeirra að halda gegnum árin. Þó þeim hafi tekist að vinna saman svo lengi sem raun ber vitni, eru þeir afskaplega ólíkir, á sama tíma og þeir eru með einhverju móti mjög líkir. 
Það er oft svo með sjúklinga að þeir vilja hafa 'sinn' lækni, en mér hefur ekki fundist það vera vandamálið hér. 

Kæruleysisleg glettni Péturs, sem er oft dálítið kaldranaleg, jafnvel svo jaðrar við kaldhæðni eða hreint háð, en samt hlýleg, skapar fljótt afslappað andrúmsloft og auðveldar þannig samkiptin við sjúklinginn. Þegar fólk veit að sjúklingur er að fara til Péturs í fyrsta skipti, er hann oftar en ekki undirbúinn fyrir móttökurnar svo þær misskiljist ekki. Þegar kemur að fagmennskunni, tekur öruggur og yfirvegaður læknirinn við. 

Nálgun Gylfa að sjúklingum er með töluvert öðrum hætti, en engu síður árangursríkum. Rólyndið, alvarlegt fasið og yfirvegunin veitir öryggi frá fyrstu stundu, en undir ólmast hinn tamdi grallari, sem oft fær að njóta sín við önnur tækifæri. 

Það eru margir sem brosa í uppsveitunum þegar þeim verður hugsað til félaganna. Það er brosað vegna þess að fólkið veit hve verðmætt það er, að svona læknar eru á svæðinu.

Það er eins með Gylfa og Pétur, eða Pétur og Gylfa, og aðra menn, að þeir eldast. Það er eiginlega aðal áhyggjuefnið í sambandi við þá.

Uppsveitabrosið eiga þeir skilið.

Þó að heimur af hörmungum skylfi
haggast myndi ei Gylfi.

Hann er sjálfsagður sumar og vetur
sóttvarnalæknirinn Pétur.  


uss, uss - bara til að segja eitthvað.




 

2 ummæli:

  1. Þótt heimur af hörmungum skylfi
    1/2 samt nægði þá Gylfi
    en sæki að svellkaldur vetur
    með sulti, þá 1/4 Pétur!

    Best er þó við þá báða
    að bráðvel þeir kunna að ráða
    í svipi - og þögn
    og svolitla ögn
    af sálrænum, illvígum kláða.

    (Bloggskapur um Uppsveitabrosið og læknana í Laugarási; bara til að vera sisona með)
    Hirðkveðillinn

    SvaraEyða
  2. Svo eru þeir líka með sætasta brosið ;)

    SvaraEyða

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...