07 febrúar, 2009

Vírar og vefir


Það er hægara sagt en gert að ætla sér að sópa burt vef, sem búið er að spinna s.l. 20 ár eða svo. Það kvikindi sem gat dundað sér við spunann óáreitt, er búið að byggja inn í vefinn allskyns skúmaskot sem erfitt verður að komast að. Það er ljóst að það mun taka allmörg ár að hreinsa þennan valdavef burt svo vel sé og því miður held ég að fyrir þann tíma verði búið að sannfæra okkur aftur um að án kvikindisins getum við ekki þrifist á þessu landi.
Það var ekki þetta sem ég ætlaði að segja á þessum laugardegi, en fingurnir taka af mér völdin. Von um breytta tíma styrkist lítið og það virðist ljóst að ekki verði gefist upp baráttulaust þrátt fyrir að buxurnar séu á hælunum. Úr ræðustóli þjóðþingsins og á síðum dagblaða og vefmiðla spretta þeir nú fram hver á fætur öðrum, blámennirnir, og hrópa um einelti, valdníðslu og illmennsku. Ekki er þar fjallað mörgum orðum um söguna af eigin landráðum, söguna af spillingunni sem gróf um sig eins og krabbamein, söguna um frjálshyggjubullið, sem á endanum komu heilli þjóð í þrot.

Nú tek ég fram fyrir hendurnar á fingrunum og læt staðar numið um þetta málefni. Það er hægt að klæða allt í þann orðabúning sem hentar málstað manns hverju sinni, eins og ég var að gera hér. Hver maður sér atburðina sem nú eiga sér stað með sínum augum og einnig atburði fortíðar. Það er síðan okkar, sem kjósum að fylgjast með á kantinum, að vega og meta.


Ég tel að ég sé nokkuð reyndur í því að hengja upp ljós innanhúss og utan (þegar samkomulag hefur náðst um hvernig ljós skal keypt). Hingað til hefur þetta gengið nokkuð áfallalaust fyrir sig, en nú hefur það gerst, að ég stend á gati. Ástæða þess er, að þegar ég tók mig til (það gerist einstaka sinnum) og hugðist tengja mikla lýsingu í Seðlabankanum (í viðbót við þá sem þegar er komin), að í dósinni, sem rafmagnsvírarnir eru búnir að bíða áratugum saman, voru 4 vírar í stað 3ja , eins og venjan er.
Ég beini því hér með til kunnáttufólks, að það leiðbeini um hverja þrjá hinna fjögurra víra ég á að velja. Mér líst best á þennan rauða sem 'lifandi' vírinn, þann brúna sem 'hlutlausa' og síðan auðvitað þann gulgræna sem 'jörð'. Þessi blái er einhvernveginn ekki inni þessa dagana.

Með vírum er vefurinn spunninn
ég verð víst að trúa því.
Nú er upp náðarstund runninn
með naglbítnum enn á ný.

3 ummæli:

  1. ... og víst skal á vírana klippa
    en verum samt klár öll í því:
    að aldrei fannst önnur eins kippa
    af alhliða-bull-svínarí´.

    Ég könguló´r eigi er af kyni
    en kann samt að skilja hve mjög
    það auðmýkir sælfrúr og syni
    ... að sitja við berangursflög.

    (Um samfélagslegan gróðavef, sem spunninn hefur verið ... allt frá því barn ég var!!!)
    Varðandi vírana: ekki klippa á þann vír hvar þú finnur að hlýja, heiðarleiki og traust ríkir; já og ekki minn... hvunnsnegins, sem hann kann nú að virka. Og hananú!
    Hirðkveðillinn

    SvaraEyða
  2. Með buxur á hælunum baksa
    og bannsettir fingurnir flaksa
    um leturborð allt
    - á lærum er kalt-
    NEI, ég læt ekki yfir mig valta!!!

    ...kvað PMS og tók málin í sínar hendur.

    að sögn
    Hirðkveðilsins

    SvaraEyða
  3. æ, fingurnir áttu "að slagsa"
    í vísunni hér að ofan.
    Viltu vinsamlegast laga þeteta fyrir mig ágæti PMS?
    Hirðkveðillinn

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...