"Þarf þessi snúra að liggja þarna með loftinu og svo niður á gólf?"
Það getur hver og einn giskað hver átti þessa spurningu (sjá hér). Umrædd snúra var í, nýfyrrverandi vinnuaðstöðu fD í kjallaranum. Ég hafði við upphaf internetstenginga fengið símamann til að koma hér og sjá til þess að ég hefði slíkt samband í þá verðandi vinnuaðstöðu minni sem er nú nýfyrrverandi vinnuaðstaða fD. Vð síðustu hrókeringar innanhúss, sem áður hefur verið greint frá, var þessi snúra allt í einu orðin óþörf, enda wi-fi um allt hús.
"Nei, það er engin þörf fyrir hana lengur", svaraði og sagði svo ekki fleira um það mál, heldur hófst, innan ekki of langs tíma (ég er farinn að átta mig á í stórum dráttum hvenær tími er orðinn of langur) handa við að taka snúruna niður. Það gekk ágætlega að losa hana frá veggnum og þar kom, að ég stóð með dósins fyrir tölvutenginguna í höndunum, opnaði hana og sá fjóra fíngerða víra sem lágu inn í dósina og voru þar festir með einhverjum hætti tveir og tveir. Til þess að ná snúrunni var ekki um annað að ræða en losa hana af vírunum, sem ég gerði, átakalaust með naglbítnum á heimilinu. Nú var snúran laus, utan sá endinn sem hvarf inn í vegg þar sem síma og rafmagnslagnir liggja inn í húsið. Á einu augabragði beitt ég naglbítnum aftur og gat þar með gangið frá snúrunni. Sá endinn sem gekk inn í vegginn hvarf snyrtilega inn í holu sína.
Að þessu þarfaverki loknu hélt ég aftur á efri hæðina og lét fD eftir að halda áfram að bardúsa í nýfyrrverandi vinnuaðstöðu sinni. Þar stendur mikið til, svo ekki sé meira sagt.
Þar sem ég var kominn upp lá leið mín í nýuppgerða dyngju mína til að senda pósta og vinna í vinkonu minni henni Innu. Sú vinna helgast af því, að í dag stundaði heimavinnu, eða fjarvinnu þar sem ekki þótti mögulegt að stunda staðvinnu. Á bak við þessa yfirlýsingu er löng og flókin saga sem ekki verður rakin hér.
"Not connected to the internet" var það fyrsta sem blasti við mér þar sem ég freistaði þess að senda póst, sem ég hafði lokið við að skrifa, þegar aðgerðin sem lýst er hér fyrir ofan hófst. Ég reyndi aftur, og aftur og enn aftur, en það breytti engu. Ég endurræsti allt saman, eins og manni er stundum sagt að gera þegar tölvudót virkar ekki. Ég fór meira að segja inn í "advanced settings" til að leita upp mögulega bilun. Gerði reyndar ekkert þar, þar sem það gæti orðið til þess að ég framkvæmdi eitthvað óafturkræft.
Nú lá fyrir að gera frekari rannsóknir á ástæðum þess að samband náðist ekki við netið eina. Það fólst í að fara í fartölvu á svæðinu og athuga hvort þannig gengi betur. Það reyndist ekki vera.
Ég endurræsti beininn (routerinn) án árangurs. Ég prófaði að hringja í heimasímann, sem einnig var árangurslaust.
Þarna kom það mér í fyrsta skipti í hug að sambandsleysið gæti tengst með einhverjum hætti snúrunni í nýfyrrverandi vinnuaðstöðu fD.
Það fór um mig hrollur og ég fann fyrir ýmisskonar ónotum, aðallega taugatengdum.
"Var ég búinn að klippa í sundur samband heimilisins við umheiminn? Ef svo væri, hvernig átti ég að fara að því að koma því í lag? Væri þá búið með að ég gæti hunsað leikjabeiðnir á Fb í allan dag? Myndi ég ekki geta fylgst með hvað vinir mínir eiga falleg börn? Myndi umræðan um ófarna Parísarför alveg fara framhjá mér? Gæti ég ekki einusinni horft á fréttirnar í sjónvarpinu í kvöld? Hvernig færi þessi dagur eiginlega?"
Með allar spurningnarar í höfðinu fór ég niður í kjallara þar sem fD stóð í stórræðum við að undirbúa nýfyrrverandi aðstöðuna sína fyrir allskyns fínheit, sem verða umfangsmeiri eftir því sem hún dvelur lengur þarna niðri.
Þarna lá fyrir að skrúfa niður plötu, á bakvið hverja er rafmagnsinntakið og símainntakið, en um það snérist málið. Af ótrúlegri yfirvegun og ævintýralegu innsæi, með flækju af allskyns vírum í höndunum, tókst mér að lifa mig inn í hlutverk símamannsins, rekja vírana sem komu að utan, saman og vírana sem komu að innan einnig. Eftir nokkrar tilraunir tókst mér að festa endana í dósina sem hafði hýst fyrrum tölvutenginu í fyrrverandi aðstöðu minni og nýfyrrverandi aðstöðu fD. Einhver sem býr hér í nágrenni við mig myndi kalla þetta "skítamix" en ég er ekki frá því að allar tengngar um þessar lagnir séu miklu hraðari eftir en áður.
Tölvan tilkynnti eftirfarandi:"CONNECTED TO THE INTERNET", póstarnir voru afgreiddir og Innumálin, fyrstu barnamyndirnar voru skoðaðar, nokkrir leikir hunsaðir og nýjustu tilvitnanir vegna ófarinnar Parísarfarar lesnar. Svo eru það fréttirnar í kvöld.
Mér kom það oft í hug í dag að nútímamaðurinn er kominn út á ansi hálar brautir. Var lífið ekki talsvert miklu öruggara þegar maður sneri tvær stuttar og ein löng, þegar dagblaðið kom í bunkum einusinni eða tvisvar í viku, þegar það var greiða uppi á þaki til að ná útsendingu sjónvarps?
Það eru tveir örmjóir vírar sem tengja þetta heimili við allt annað en beinlínis viðveru í eigin persónu. Mér finnst að það þurfi að vera til varaleið, en ætli það breyti miklu?
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)
Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...
-
Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...
-
Það er ótvíræður kostur við þorrabót eldri borgara í Biskupstungum, að það er ekki boðið upp á dansiball með tilheyrandi hávaða þegar fól...
-
Líklega lið annars bekkjar veturinn 1971-1972. Aftari röð f.v. Helgi Þorvaldsson, Eiríkur Jónsson, Kristján Aðalsteinsson, Páll M, Skúlaso...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli