02 apríl, 2013

See no evil.......


Í gærmorgun setti ég eftirfarandi yfirlýsingu á Fb:
Á þessum bæ þykir sumum fátt ógnvænlegra en þetta agnarsmáa spendýr, sem er í rauninni bara að reyna að lifa af eins og við öll. Hér er um að ræða fjölskyldu sem tók sér bólfestu undir einu blómakerinu fyrir í það minnsta ári síðan. Krílin virðast fá næga fæðu sér til framfærslu og það er ekki síst vegna þess að af borði auðnutittlinganna, sem fD elur í Sigrúnarlundi á fitu og fræjum, falla molar sem nýtast vel til að fita ungviðið undir blómakerinu. Jú, ég tók myndir, en hvað svo?
Í dag datt mér svo þetta í hug:
.........Art thou afeard
To be the same in thine own act and valour
As thou art in desire?
og þetta:
When you durst do it, then you were a man;
And, to be more than what you were, you would
Be so much more the man. Nor time nor place
Did then adhere, and yet you would make both:
They have made themselves, and that their fitness now
Does unmake you.
 
 Ekki svo að það breyti neinu í samhengi við það sem hér fer á eftir, en hér fyrir ofan er Lady Macbeth að brýna eiginmanninn til að myrða Duncan konung, og beitir þar því vopninu sem oft bítur best: "Þú ert aumingi ef þú andskotast ekki til að gera þetta". Það var ekki sú aðferðin sem fD notaði, enda ekki um það að ræða að ég hafi þráð að verða konungur í músaríkinu undir blómakerinu. Hún beitti öðrum aðferðum, sem fólust að mestu í því ýja beinum orðum að því að þarna væri um að ræða að bjarga sálarheill hennar. Ég var nú samt ekkert að flýta mér að hugsa upp aðferðir við að koma ræflunum fyrir kattarnef, enda hafði ég fulla trúa á að sálarheillin væri bara í nokkuð góðu standi; þetta væri mest í nösunum á frúnni - en auk þess verð ég að viðurkenna að tilhugsunin um að taka líf, hversu smátt eða lítilmótlegt sem það kann að vera, er mér síður en svo að skapi (hér undanskil ég flugur og annað svipað).

Skömmu eftir að ég hafði lokið við að mynda fjörug hlaup músarinnar, eða músanna þvers og kruss um og við pallinn, heyrði ég að fD var komin niður í kjallara og farin að rótast eitthvað. Ekki gat verið um að ræða að það tengdist listgjörningi og því lagði ég leið mína niður til að vita hvað væri í gangi.
"Ég er viss um að ég sá hana hérna einhvers staður um daginn."
"Hverja?"
"Nú, músagildruna".
"Músagildruna?"
"Já. Það verður að d...a þessi kvikindi. Ekki ætla ég í sólbað úti á palli fyrri en ég er viss um að öll fjölsyldan er d...ð!"
"Jæja......... Ég hef ekki séð gildruna frá því ég var að veiða mýsnar í Xtrail um árið."

Þar með fór ég aftur upp, og hugðist fara að sinna vorverkum í garðinum í blíðviðrinu.
Það leið ekki á löngu áður en fD birtist í palldyrunum og hélt í hornið músagildru með þumalfingri  og vísifingri, lét hana falla á pallborðið um leið og hún sagði:
"Hér er gildran!"
Það fór ekki á milli mála hvert hlutverk hún ætlaði mér.

Sálarheill tel ég vera miklvægt fyrirbæri, jafnvel mikilvægara en músalíf. Því var það, eftir að ég hafði sinnt vorverkum eins og ekkert væri yfirvofandi; eins og enginn þrýstingur væri fyrir hendi, í svona klukkutíma, að ég græjaði músagildruna, sem kallast því innblásna nafni: "VICTORY". Ætli það sé ekki til þess ætlað að láta músaveiðimönnum líða betur þegar að því kemur að þeir þurfa að takast á við að losa músahræin úr gildrunni og horfa í brostin augu, sem áður voru full af lífi?. Samkvæmt teiknimyndum á maður að setja ost í músagildrur þar sem músum finnst ostur undurgóður - síðasta máltíðin. Af þessum sökum fann ég til ostbita, spennti gildruna og kom henni fyrir þar sem ég hafði, fyrr um daginn, staðið í rúmlega metra fjarlægð frá konunginum í músaríkinu, án þess að hann yrði mín var.
Svo hélt ég áfram að sinna vorverkunum.

"Nei" sagði ég þar sem við fD stóðum við dyrnar út á pall í morgun.
"Ertu búinn að fara að gá?"
Þarna hafði ég, eins og svo oft áður, séð spurninguna fyrir og svarað áður en hún var borin upp. Ég gáði ekki í morgun.

1 ummæli:




  1. Ekki gáð'ann elskan þessi
    að þeim, litlu músunum.
    Allt eins þó að ein sig hvessi
    er allt vill dautt hjá húsunum.
    Enga frið og enga sátt
    er að fá úr þeirri átt.

    Hirðkveðill Kvistholts kveður um Kvistholtsmorðin- væntanlegu.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...