26 mars, 2013

Laugarás 1883,1923 eða 1941 og áfram

Ég hef stundum velt því fyrir mér að búa til vefsíðu sem héldi utan um sögu og mannlíf í Laugarási frá því hér varð til einhver byggð að ráði í byrjun 5. áratugar síðustu aldar. Hér hafði verið búskapur, sem héraðslæknirinn tók við þegar stofnað var til Grímsneshéraðs með aðsetri læknisins hér. Grímsneshérað hlaut síðar nafnið Laugaráslæknishérað.
Ég hef ekki komið þessu í verk enn, enda varla kominn á þann aldur enn að vera farinn að velta mér óhóflega upp út því liðna - það er enn full ástæða fyrir mig til að horfa fram á veg fremur en til baka, þó svo ég haldi því auðvitað statt og stöðugt fram, gegn straumnum að mér finnst stundum, að án fortíðarinnar værum við nú eiginlega bara ekki til.

Árið 1975 ákvað Búnaðarsamband Suðurlands að ráðast í það stórvirki, í tilefni af 70 ára afmælinu, 1978, að láta rita sögu sunnlenskra byggða. Það vara skipuð 6 manna nefnd til að gera tillögur að því hvernig staðið skyldi að verkinu. Fyrir Árnessýslu sátu í nefndinni þeir dr. Haraldur Matthíasson, menntaskólakennari á Laugarvatni og Jón Guðmundsson, bóndi á Fjalli á Skeiðum. Nefndin lagði til það sem fram kemur hér:
Úr formála Sunnlenskar byggðir I Tungur, Hreppar, Skeið - 1980
Búnaðarfélag Biskupstungna myndaði starfshóp til að vinna þetta verk að því er varðaði Biskupstungur og Arnór Karlsson var skipaður formaður hópsins. Að efnisöflun og ritun stóðu, auk Arnórs þeir Einar J. Helgason í Holtakotum, Sighvatur Arnórsson í Miðhúsum, Guðmundur Óli Ólafsson í Skálholti, Sigurður T. Jónsson frá Úthlíð, Guðmundur Ingimarsson í Vegatungu og Eiríkur Sæland á Espiflöt.  Hér er inngangur Arnórs þar sem hann lýsir því hvernig staðið var að þessu:
Sunnlenskar byggðir I 
Tungur, Hreppar, Skeið - 1980 bls.10

Arnór sá um að taka saman upplýsingar sem vörðuðu Laugarás, eins og þær voru fram undir 1980. Síðar kom til endurútgáfa á verkinu, en þá var ég kominn til baka úr útlegð minni vegna náms og sestur að með fjölskyldunni í Reykholti. Við komumst á spjöld þessarar sögu í endurútgáfunni. Við vorum í Reykholti þar til leiðin lá aftur í Laugarás 1984.

Sunnlenskar byggðir I - Tungur, Hreppar, Skeið, fyrsta útgáfa 1980, er til á þessu heimili og gengur undir nafninu "Glæpamannatal" dags daglega. Í henni er að finna afskaplega góðar upplýsingar um þróun byggðar í Laugarási og ábúendur/íbúa þar, fram yfir 1980. Árið 2018 verður Búnaðarsamband Suðurlands 110 ára. Mér finnst það harla góð hugmynd að sambandið uppfæri þessar mikilvægu heimildir í tilefni af því. Ef ekki þá ætti, að mínu mati, Bláskógabyggð að skella sér í þetta verkefni fyrir sitt leyti. Alltaf góðar hugmyndir hér.

Það sem mig langar hinsvegar að gera, með mögulegum vef um Laugarás, er að taka saman upplýsingar um byggðina og mannlífið í gegnum áratugina 7 sem eru nú liðnir frá því hér fóru að byggjast upp garðyrkjubýli. Þá var hér fyrir héraðslæknirinn Ólafur H. Einarsson ásamt konunni sinni Sigurlaugu Einarsdóttur og börnum. 
Árið 1941 var fyrsta garðyrkjubýlið stofnað í Laugarási. Það var Daninn J.B. Lemming sem það gerði og þá kallaðist býlið Lemmingsland, en 1946 fluttu foreldrar mínir þangað og gáfu því nafnið Hveratún. 1942 var byggt sumarhús þar sem nú er Lindarbrekka, 1943 var stofnað garðyrkjubýlið Gróska, en mun ekki hafa verið í stöðugum rekstri fyrr en á 6. áratugnum og varð þá Sólveigarstaðir.

Það hefur margt gerst hér í Laugarási síðan þá og það væri gaman að kynna sér þá sögu alla, enda hef ég verið hluti hennar í "hartnær" 60 ár.
Þetta verk væri auðveldara ef allir núverandi og fyrrverandi Laugarásbúar myndu grafa í sögu sinni og fjölskyldunnar hér. Skrá niður allt sem máli skipti og skreyttu það með skemmtilegum sögum af mönnum og málefnum, auk myndefnis.

Til þess þurfa þeir að hafa lesið það sem hér er skráð, en það er víst ekki mjög líklegt.

Framhaldið ræðst að þróun mála. 

4 ummæli:

  1. Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.

    SvaraEyða
  2. Alltaf gaman að viðlíka byggðasögu.
    Eitt gætir þú haft gaman að af vita en það er að til var jörð í Laugarási sem nú hefur verið máð af kortinu og innlimuð í Sólveigarstaði.
    Þetta var smá skiki niður við Hveralækinn en eftir hræðilegt banaslys þá fluttu ábúendurnir á brott og spildan var sameinuð Sólveigarstöðum sem þá hétu Gróska.

    SvaraEyða
  3. Jamm - það er einmitt eitthvað svona sem þarf að halda til haga. Ég vissi um að barn fór í lækinn 1946, held ég. Ekk neitt veit ég um það fólk eða hvað varð af því. Eiginlega er flest í kringum Grósku og annað sem var þarna á hverabakkanum ansi þokukennt.
    Þú veist kannski um hvar helst er að leita heimilda um þetta sem annað? Ég hef ekkert leitað að slíku, enda hafði ég nú ekki hugsað mér, sjálfur, að leggjast í verulegt grúsk - vonast til að aðrir muni sjá um það :)

    SvaraEyða
  4. Stúlkan fór í lækinn 15. júní 1943 - ekki 1946

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...