Ég lýsti fyrir nokkru þeirri skoðun minni hér í þessum tiltölulega áhrifalitla miðli mínum, að það væri sannarlega vel athugandi að breyta sláturhúsinu hér í Laugarási í dvalar- og hjúkrunarheimili. Viðbrögðin eru kannski að gerjast ennþá, en þau hafa nú ekki verið neitt yfirþyrmandi, eftir því sem ég veit best.
Þessa skoðun mína lét ég ekki í ljós að ástæðulausu:
Í fyrsta lagi er hér hin ágætasta heilsugæslustöð sem má alveg við því að eflast enn meir og skapa enn fleiri störf.
Í öðru lagi er varla hægt að ímynda sér fegurri stað fyrir starfsemi af þessu tagi með útsýni yfir Hvítá og glæsilega hengibrúna, svo ekki sé nú minnst á Vörðufell.
Í þriðja lagi vegna þess að það styttist í að stór hópur fólks hér í uppsveitum þurfi að fara að huga að sólarlagsárunum.
Í fjórða lagi stefnir í að stór hluti þessa fólks þurfi ekki að flytjast nema nokkur hundruð metra þegar þar að kemur. Þannig er því nefnilega háttað, að íbúar hér í Laugarási gera orðið fátt nema eldast og hafa flestir misst getuna til að skapa nýtt líf með beinum hætti (utan auðvitað að sá fyrir grænmeti og blómum). Líf þeirra snýst æ meir um að njóta friðsældarinnar sem fylgir vaxandi aldri. Vissulega gefst þeim færi, flestum, á að umgangast ungviðið sem börnin þeirra færa þeim í sívaxandi mæli, en svo er hinsvegar í pottinn búið að þessi börn með barnabörnin virðast ekki sjá framtíð sína fyrir hugskotssjónum hér, væntanlega vegna þess að ekki er á vísan að róa með örugga atvinnu sem gefur af sér viðunandi laun - í það minnsta er ástæðan örugglega ekki eitthvert óhrjálegt þorpskríli, því slíku er hreint ekki til að dreifa, þvert á móti er vandfundinn hlýlegri og vinalegri staður en "Þorpið í skóginum".
Lausleg skoðun mín, sem stenst vonandi skoðun, hefur leitt í ljós að yngsta barnið í Laugarási er að verða 13 ára. Ég hef látið hugann reika á bæina sem hér er að finna (ef vel er að gáð) og sé fyrir mér að stærstum hluta íbúa á sextugs eða sjötugs aldri, jafnvel þaðan af eldri. Eftir 10-20 ár verður allt þetta fólk komið á dvalarheimilisaldur, ef því endist aldur.
Sjálfsagt eru margar ástæður fyrir þessari íbúaþróun og ég get haft mínar skoðanir á því. Þar vil ég auðvitað t.d. nefna, að hér er ekki grunn- eða leikskóli, sem er ekki augljós skýring þar sem samskonar íbúaþróun virðist eiga sér stað í Laugardalnum. Þá dettur mér í hug ástæða, sem ég hef nefnt áður og lýtur að meðvitaðri eða ómeðvitaðri stefnumörkun sveitarfélagsins Bláskógabyggðar eftir sameininu hreppanna þriggja ssem mynda sveitarfélagið. Það virðist jafnvel enn vera svo, að þar á bæ sé mikið lagt upp úr því, til að halda bæði Tungnamönnum og Laugdælingum í góðum fíling (afsakið orðskrípið); að tryggja að hvorki Laugarvatn né Reykholt missi spón úr aski. Á niðurskurðartímum má því ímynda sér að hagur Laugaráss hafi verið fyrir borð borinn. Ekki ætla ég sveitarstjórnarmönnum að ástunda slíkt viljandi, en ég fæ ekki varist þeirri hugsun að þetta hafi verið að gerast, í það minnsta ómeðvitað. Ég vona að einhverjir séu tilbúnir að mótmæla þessari skoðun kröftuglega.
Það sem hefur verið að gerast nýtt í Laugarási á undanförnum árum, fyrir utan frábært starf á nokkrum garðyrkjustöðvum við að þróa áfram og efla sig og garðyrkjuna, er uppbygging sumarhúsa. Á því hefur þó orðið hlé frá hruni en fyrir það var varla selt hérna neitt nema til vel stæðra einstaklinga sem voru að kaupa sér sumarhús. Þetta er allt hið ágætasta fólk, en mér er til efs að það efli byggðina og skjóti einhverjum rótum hér þannig að lífvænlegra teljist fyrir fólk sem sækist eftir að flytja hingað til að finna lífsviðurværi.
Ég á eftir að nefna eina hugmynd í málefnum Laugaráss, en hún er einfaldlega sú, að núverandi íbúar haldi bara áfram að búa í húsunum sínum, en sláturhúsinu verði breytt í stúdíóíbúðir fyrir umönnunaraðila, sem færu síðan á milli íbúanna og sinntu vaxandi þörf þeirra fyrir þjónustu.
Jamm, þetta var svona hugmynd.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)
Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...
-
Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...
-
Það er ótvíræður kostur við þorrabót eldri borgara í Biskupstungum, að það er ekki boðið upp á dansiball með tilheyrandi hávaða þegar fól...
-
Líklega lið annars bekkjar veturinn 1971-1972. Aftari röð f.v. Helgi Þorvaldsson, Eiríkur Jónsson, Kristján Aðalsteinsson, Páll M, Skúlaso...
Ég efast um að nokkur muni mótmæla skrifum þínum og hvað þá hörkulega. Þetta er vel mælt og margt hefur maður vitlausara heyrt um dagana en pælingar þínar hér.
SvaraEyðaHeyr, heyr.
Bestu kveðjur,
Aðalheiður
Hugmyndin er góð en ertu ekki hræddur um að allt fyll
SvaraEyðaist af aðkomufólki. Þú veist að Reykvíkingum þykir svo huggulegt í Laugrási?
Heiða - þakkir :)
SvaraEyðaAnonymous - alltaf vont að vita ekki hver er - en hvað um það - höfuðborgarbúar sem setjast að til að skapa og efla er auðvitað jafn velkomnir og hver annar. Ég er ekki hræddur.
Ég hef verið talinn aðkomufólk (töskufólk) og veit hvernig það er - ekkert að því :