Ég viðurkenni það, að þó svo ég beri það ekki utan á mér dags daglega, þá blundar í mér vitleysingur sem er til ýmislegt sem víkur af þeirri braut sem ég ætti að ganga ef tekið er mið af aldri og stöðu í samfélaginu. Ég komst að því fyrir nokkrum dögum, að það sama gildir um flesta samstarfsmenn mína.
Í gærkvöld var haldin árshátíð nemendafélagsins í skólanum þar sem ég starfa. Það hafði komið fram ósk um það frá nemendum að starfsmenn myndu hafa eitthvað fram að færa, enda boðið til ágætis hátíðakvöldverðar með vönduðum skemmtiatriðum. Ekki veit ég nákvæmlega hvernig það gerðist, en svo fór að fólk var kallað saman á kennarastofunni á tilteknum tíma í vikunni, því þar skyldi tekið upp atriði fyrir árshátíðina. Það lá fyrir að til stæði að skella í Harlem shake, svokallað, en það er eitt þeirra tískufyrirbæra sem skella yfir veröldina, eða í það minnsta hinn vestræna heim, hvert á fætur öðru. Einhver spurði svo skemmtilega sem svo: "Hvernig væri nú að heimurinn hætti að planka, eða dansa Gangnam style, nú eða fíflast í Harlem skake og færi í staðinn að hugsa?". Þeir sem ekki vita þegar, í hverju þetta felst, þá er til dæmis slóð að fyrirbærinu hér.
Ekki ætla ég að fjölyrða um hvernig upptakan gekk, að öðru leyti en því, að rétt eftir hádegið, í miðri viku, má segja að dagfarsprúðir starfsmenn hafi nánast gjörsamlega tapað sér í stigvaxandi taumleysi þessa fyrirbæris. Ef ekki hefði verið gripið í taumana áður en það varð of seint, er ekki erfitt að ímynda sér hvað hefði getað gerst.
Það var ákveðið fyrirfram, að uppökunni yrði eytt að lokinni einni sýningu á árshátíðinni. Meðal annars þessvegna varð þetta nú úr.
Í gærkvöld var afraksturinn síðan sýndur. Ég hef farið á tónleika heimsfrægra popphljómsveita og upplifað fagnaðarlæti æstra áhanga, séð upptökur frá tónleikum Bítlanna á hátindi ferilsins. Ég hef ekki áður upplifað önnur eins fagnaðar- og hrifningarlæti og þau sem þarna brutust fram. Sannarlega viðurkenni ég að ég hafði kviðið þessari sýningu nokkuð - svona verandi eins og ég er. Kvíðinn reyndist hafa verið ástæðulaus og nú finnst mér miklu frekar að þarna hafi starfsmenn skólans sýnt á sér hlið sem lýsir ansi vel þeim óþvinguðu samskiptum sem ríkja í hópnum og góðum starfsanda.
Ég er meira að segja orðinn efins um að rétt sé að eyða upptökunni, en auðvitað verða allir þátttakendur að samþykkja að hún fái að fara sem eldur í sinu um veröld alla.
Þetta var í það minnsta bara ansi gaman.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)
Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...
-
Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...
-
Það er ótvíræður kostur við þorrabót eldri borgara í Biskupstungum, að það er ekki boðið upp á dansiball með tilheyrandi hávaða þegar fól...
-
Líklega lið annars bekkjar veturinn 1971-1972. Aftari röð f.v. Helgi Þorvaldsson, Eiríkur Jónsson, Kristján Aðalsteinsson, Páll M, Skúlaso...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli