04 apríl, 2013

Á maður að láta þetta yfir sig ganga?

Þetta er ekki umræddur hundur.
Sem betur fer fyrir mig, að ég tel, hef ég verið að temja mér það í vaxandi mæli, að fara í gönguferðir eftir vinnu, ekki síst ef veður er þess eðlis. Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að þetta eigi ég að geta gert í friði og ró, í fullvissu þess að það eina sem gönguferðirnar geta haft í för með sér sé bætt heilsa.

Ég fór í gönguferð áðan í blíðviðrinu og gekk um slóðir hér í Laugarási, sem teljast vera utan einkalóða. Þegar ég nálgaðist eitt húsið spratt fram gjammandi hundspott af meðalstærð. Ég hef svo sem heyrt hunda gjamma áður og kippti mér því ekkert upp við gjammið í þessum. Taldi víst að hann væri bundinn heima við hús, svona rétt eins og vera ber, en svo reyndist ekki vera. Hann kom hlaupandi alveg út á götun, en hélt sig þar um stund, gjammandi, og sýndi mér með ótvíræðum hætti, að hann teldi að þarna vær ég kominn á hans yfirráðasvæði. Kamburinn var reistur og hann sýndir skjannahvítar tennurnar, urrandi og geltandi á víxl. Var samt hikandi og þorði ekki og nálægt.  Ég prófaði að kalla hann til mín, því slíkt hefur oft dugað til að róa svona hundspott, en það gerðist ekki í þessu tilviki. Ég gekk áfram, og þá gerði hann sig líklegan til að koma að mér að aftanverðu, en þegar ég sneri mér snöggt við, hrökk hann til baka, geltandi og urrandi með uppbrettar varir, ef svo má að orði komast. Með hávaðann á eftir mér hélt ég áfram eftir götunni, leit heima að húsinu og sá þá húseigandann standa sallarólegan fyrir innan einn gluggann. Hafði ekki einusinni rænu á að koma út og kalla kvikindið til sín.  Gjammið fylgdi mér allt þar til ég beygði inn í aðra götu.  Ég viðurkenni það bara alveg, að mér stóð ekki á sama, en ég er viss um að ef kvikindið hefði þekkt mig þá hefði þessi staða ekki komið upp. Það er ekki við hann að sakast í þessu efni, heldur auðvitað eigandann, sem á að hafa undirgengist reglur Bláskógabyggðar um undanþágu til hundahalds. Þær eru svona (það sem er yfirstrikað með gulu eru þau brot sem ég varð fyrir á göngu minni áðan):


Samskipti mín við flesta hunda sem verða á vegi mínum í Laugarási eru með ágætum, enda þekki ég þá flesta og þeir mig. Það breytir ekki því, að það er öldungis ótækt að fólk geti ekki treyst því í gönguferðum sínum um hverfið, að það sé óhult fyrir ógnunum af þessu tagi. Mér þykir miður að þurfa að segja  þetta, því hér eru hundaeigendur sem eru mér tengdir og eiga hunda sem eru einstaklega ljúfir þar sem ég er annars vegar, þeir kunna að vera síður ljúfið við fólk sem ekki þekkir þá. Þeir hundar einir, sem ættu að hafa möguleika að að vera hér óbundnir og þá í fylgd húsbænda sinna, eru þeir sem hlýða húsbónda sínum umsvifa- og möglunarlaust.

Já, mér stóð ekki á sama, en slapp heill heim úr göngunni, efins um að ég leggi leið mína á þær slóðir sem ég fór í dag í bráð, að óbreyttu. Mér finnst ekki skipta máli í þessu samhengi um hvaða hundaeiganda er að ræða, heldur er svona lagað bara almennt séð ótækt.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...