03 mars, 2017

Svefnlaus brúðgumi á Borg

Fulltrúi Skálholtskórsins í sýningunni,
Jóhann Pétur Jóhannsson fer með burðarhlutverk.
(einkamynd að sýningu lokinni, þar sem hann var beðinn
að skella sér í karakter eitt augnablik)
Ekki ætla ég að fullyrða neitt um það hvort það getur talist trúverðugt, að brúðhjón eyði brúðkaupsnótt sinni á Hótel Örk í Hveragerði áður en þau halda í fjögurra vikna brúðkaupsferð  á Selfoss og til Vestmannaeyja. Ég neita því ekki að ég velti fyrir mér eitt sekúndubrot, hvað þau myndu mögulega geta tekið sér fyrir hendur á þessum tíma á nefndum stöðum. Auðvitað var flest sem viðkemur efni leikverksins "Svefnlausi brúðguminn" afskaplega ótrúverðugt og átti bara að vera þannig. Það breytti því ekki að ég skemmti mér hreint ágætlega.

Þarna birtist áhorfendum flest sem farsa prýðir, misskilningur, dómharka, léttúð, daður, svínarækt, fiskimjöl í gámavís, persónur í óleysanlegri kreppu sem leysist upp í alsælu, hraðar skiptingar og meira að segja nekt.

Þetta er ekki neinn leikdómur, enda þykist ég ekki kunna slíkt, hitt er annað mál, að þarna var kvöldstund afar vel varið.
Ég þekki það frá gamalli tíð (jæja, byrjar hann nú á þessu) að það eru ekki síst leikarar í svona sýningu sem skemmta sér, enda fór það ekki framhjá manni leikarar Leikfélagsins Borgar skemmtu sér hreint ágætlega, og það eitt smitar leikhúsgestina.

Það er afar mikilvægt, þegar lítil áhugamannaleikfélög setja upp sýningar til að lyfta sveitungum upp í skammdeginu. að þangað leggi fólk leið sína, ekki bara vegna þess að það er afskaplega gaman, heldur ekki síður til að styðja við svona starf, en þarna er fólk búið að leggja mikið á sig  við æfingar um langan tíma.
Svona lagað skiptir heldur betur máli.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...