03 apríl, 2015

Að eiga kökuna og étana

Álftirnar kvökuðu í morgun þar sem volgran frá lóninu rennur í Hvítá og ég freistaði þess að láta sem ég svæfi, en vissi að það myndi ekki leiða til þess að það yrðu úr því einhver raunverulegur svefn. Sú varð heldur ekki raunin. Ég er farinn að sjá afskaplega margt jákvætt við að þurfa ekki að sofa langt fram eftir morgni. Eitt af því sem gefur morgnum gildi er tækifærið sem þeir veita manni til að velta fyrir sér stóru málunum. Gallinn við þær vangaveltur, hinsvegar er, að þær verða ekkert nema vangaveltur. Sannarlega tekst mér að leysa mörg stór mál í huganum, en jafnskjótt geri ég mér grein fyrir tilgangsleysi pælinganna og þeirra lausna sem spretta fram í hugskotinu.

Hér læt ég fylgja eitt dæmi um það sem ég nefni hér fyrir ofan.

Ég hef lengi velt fyrir mér hversvegna þessi þjóð horfir meira vestur yfir haf, til Bandaríkja Norður Ameríku þegar leitað er fyrirmynda eða lausna á verkefnum í íslensku samfélagi, en til þeirra þjóða sem næst standa okkur sögulega og landfræðilega. Mér hefur fundist þetta undarlegt og illskiljanlegt. Hér á ég t.d. við eftirfarandi:

- ameríski daumurinn og sá íslenski fela í sér það sama. Hér á einstaklingurinn hafa hafa frelsi til að verða ríkur og frægur. Þennan draum ala menn með sér þó möguleikarnir virðist oftast harla litlir. Þeir eru valdir til forystu sem lofa peningum í vasann, jafnvel þó það sé ekki það sem lofað er í raun. Það hljómar bara svo vel.

- foreldrar líta á það sem skyldu sína að borga allt uppihald og skólagöngu fyrir börnin sín og finna hjá sér þörf til að safna í sjóð "college fund" í því skyni.

- það eiga að vera lágir skattar og á móti á fólk að þurfa að greiða sérstaklega fyrir heilbrigðisþjónustu og skólagöngu barna sinna.

- ljósvakafjölmiðlar keppast um áhorf með auðmeltu afþreyingarefni sem að mestu eru framleitt í Bandaríkjunum, þar sem "góði kallinn" sigrar og amíslenski draumurinn fær að rætast.

- það er horft til dollarans þegar rætt er um nýja mynt.

- unga fólkið fer á "deit" og það gefur Valentínusardagsgjafir.

Ég gæti tínt margt til sem bendir til þess að þessi þjóð þrái að líkjast þjóðunum sem byggja risaveldið í vestri, en ég nenni því bara ekki.

Skv uppl. frá Hagstofu Íslands. Ef rennt er yfir dagskrá
Stöðvar 2 og Skjás 1s blasir við að stærstur hluti erlends
efnis á uppruna í Bandaríkjunum.
Áhrif þessa á þjóðarsálina þurfa ekki að koma á óvart.
Á sama tíma og þráin eftir að "meikaða" eða verða rík og fræg einkennir þjóðina, með öllum þeim óstöðugleika sem því fylgir, eru háværar kröfur um að við fáum að njóta þess sem kallað er "norræn velferð". Ef fólkið "meikar" það ekki á þessu landi og fær ekki fullnægjandi aðstoð þegar ekkert gengur, þá er horft til nágrannalandanna þar sem, jú, skattar eru háir, en launin eru hærri og samfélagið veitir á móti þjónustu án endurgjalds. Þar er ekki greitt fyrir læknisþjónustu, túlkaþjónustu og skóla svo einhver dæmi séu nefnd.  Þessi samfélög eru kannski ekki mjög spennandi fyrir fólk sem elur í brjósti sér íslenska drauminn. Þau eru  fyrirsjáanleg og kannski frekar leiðinleg að einhverra mati, en veita á sama tíma öryggi og stöðugleika.

Lukkuriddarar samtímans berja á því að þetta land sé land hinna frjálsu, land möguleikanna, landið þar sem fólkið getur orðið svo óendanlega ríkt af veraldlegum auði. Það er minna gert úr því að þetta sé ef til vill einnig landið þar sem yfirborðsmennska, populismi, sjálfsdýrkun og plebbaskapur eru helstu einkennin.

Ég held að fari ekkert á milli mála hvora tegund þjóðfélags ég aðyllist. Þessi þjóð veit hinsvegar varla í hvorn fótinn hún á að stíga.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...