11 janúar, 2014

Sextíu árin svifin eru að baki (2)

Það var að morgni föstudagsins 27. desember, að síminn hringdi. Sá sem hringdi kynnti sig sem blaðamann á tilteknu dagblaði og að hann starfaði við þann hluta þess blaðs sem kallaðist Íslendingar. Hann spurði hvort hann mætti ræða við mig í tilefni yfirvofandi afmælis.
Þarna þurfti ég að hugsa hratt, sem ég gerði auðvitað. Eldsnöggt renndi ég yfir, í huganum allt það sem mælti með því að ég svaraði þessu játandi og allt sem mælti gegn.
Þetta eru tvær megin ástæðurnar sem mæltu eindregið gegn því að ég samþykkti að taka þátt í umbeðnu  viðtali:
1. Frá því núverandi ritstjóri tók við þessu blaði, hef ég aldrei flett því, jafnvel þó svo ég sæti einn heima hjá mér með eintak af blaðinu á borði fyrir framan mig í boði fD. Ekki hef ég heldur farið inn á vef þessa blaðs.  Já, já, lesendur verða bara að sætta sig við að svona er ég nú og ég hef ekki hugsað mér að breyta því. Með þessu móti hef ég að mörgu leyti verði sáttari við sjálfan mig en ella hefði verið.
2. Ég hef ekki tilheyrt þeirri manngerð sem telur það mikilvægt að halda sjálfum sér á lofti út á við. Þeir sem vilja sjá hver ég er, eða fyrir hvað ég stend, geta kynnt sér það. Að öðru leyti hef ég leyft umheiminum (fyrir utan þennan vettvang, auðvitað) að vera lausan við fregnir af því hverskonar snillingur ég er, að flestu leyti. Ég tel mig vera svona, eins og kallað hefur verið - prívatmanneskja eða "private person".

Þetta er það sem mælti hinsvegar með því að ég tæki í mál að taka þátt í þessum leik:
1. Ég hef stundað það nokkuð, aðallega mér sjálfum til skemmtunar, að fara aðrar leiðir en fólk á endilega vona á, og mér hefur stundum tekist að sýna á mér óvæntar hliðar. (jú, víst!)
2. Ég beiti nokkuð oft ákveðinni og fremur kaldranalegri kaldhæðni í daglegum samskiptum. (það held ég nú).
3.  Hér var um að ræða ákveðin, óeiginleg, tímamót í lífi mínu, en því gæti verið tilvalið fyrir mig að sýna nýja hlið.
4. Upp að vissu marki tel ég mig búa yfir ákveðnum húmor, ekki síst gagnvart sjálfum mér.
5. Maðurinn í símanum var afar kurteis, og virtist vera eldri en tvævetur.
6. Með umfjöllun um mig í þessu blaðið yrði minna pláss fyrir annað, sem hefði verri áhrif á þjóðina.

Eftir 5 sekúndna umhugsun samþykkti ég viðtalið, sem síðan fór fram og tók um 45 mínútur. Þar kom í ljós að viðtalstakandinn hefði alveg geta skrifað um mig án þess að hafa við mig samband, því hann gat fundið allt sem um mig var að segja með því að gúgla.
Á meðan á viðtalinu stóð gekk á með símhringingum, og ég fékk skilaboð um að það væri blaðamaður að reyna að ná sambandi við mig. Mér var farið að líða eins og einhverri mikilsháttar manneskju með öllum þessum áhuga fjölmiðlanna og það kann að hafa haft áhrif á það sem ég lét frá mér fara.
Viðtalinu lauk. Skömmu síðar hringdi síminn og þar var á ferð blaðamaður sem óskaði eftir viðtali við mig í tilefni af afmælinu. Þarna var ég orðinn heitur, og til í allt, en samt varð ekki af þessu viðtali, þar sem þessi reyndist vera frá sama blaði og hinn, og ég taldi að nóg væri að gert, þó eflaust hefði umfjöllun um persónu mína einnig farið vel, t.d. þar sem staksteina er að finna, öllu jöfnu (þá var að finna í þessu blaði þegar ég sá það síðast fyrir 5-6 árum).

Ég fékk viðtalið sent til yfirlestrar og mér var falið að senda tilteknar myndir, sem hvort tveggja gekk vel fyrir sig.

Mánudaginn 30. desember birtist svo viðtalið í þessu blaði.
Ég verð að viðurkenna, að sjálfhverfa mín olli því, að ég skoðaði umrædda opnu, en hinsvegar ekkert annað. Mér varð ekki um sel til að byrja með og þá aðallega vegna stærðar myndefnisins, en þá varð mér aftur hugsað til þeirra raka sem ég hafði fært með sjálfum mér fyrir að taka þátt og ákvað að láta þetta  ekki á mig fá.
Yngsti sonurinn lét mynd af greininni inn á samfélgsmiðil og þar tóku að birtast athugasemdir, flestar fremur jákvæðar og aðrar athyglisverðar:


Hér var á ferð samstarfsmaður minn, sem áttaði sig fullkomlega á hvað þarna var á ferðinni.
Svo kom annar samstarfsmaður, sem tók annan pól í hæðina, væntanlega í þeirri von að ég færi loks að nálgast lífsskoðanir hans, sem seint mun verða, eins og hver maður getur ímyndað sér. Það stóð ekki á viðbrögðum kvennanna, sem ávallt taka upp hanskann fyrir mig þegar því er að skipta:


Hvað sem því öllu líður fór þetta allt nokkuð ásættanlega og ég hef hafið vegferð mína inn í nýjan áratug ævinnar (reyndar hef ég vart mátt á heilum mér taka frá því afmælið skall á sökum ólukkans pestar sem á mig hefur lagst og sem óðum er að rjátlast af mér - ég hafna því að hún hafi verið áminning um að nú væri kominn tími til að hugsa málin upp á nýtt).
---
Þann 30. desember fékk ég ýmsar góðar kveðjur, þar sem mér voru eignaðir ýmsir góðir kostir, bæði að því er varðar eðliseiginleika mína og ytra útlit. Allt þetta lyftir mér upp.
Ein kveðjan, frá æskufélaga á sjötugsaldri, fékk mig til að staldra aðeins við:

Í "denn" minnist ég þess að einhverntíma hafi ég reynt að ímynda mér, hvernig komið yrði fyrir mér árið 2000. Þá yrði ég 47 ára. Sú hugsun leiddi ekkert af sér sem eðlilegt var. Ætli foreldrar mínir hafi ekki verið á þeim aldri þá og þau voru nú bara talsvert öldruð í mínum huga þá. 
Að hugsa sér sjálfan sig enn síðar, sem sextugan stútungskall, sem væri farinn að huga að starfslokum og lífeyristöku, var auðvitað enn fjær. 

Ég var við jarðarför í gær. Fyrrverandi nemandi, rétt skriðinn yfir tvítugt, lést eftir bílslys á afmælisdaginn minn. Það er skammur vegur milli lífs og dauða og þá er ekki spurt um aldur. Í þeim efnum er sanngirnin engin. 

Sannarlega vonast ég til að fá að njóta efri ára fullfrískur og þætti ekki slæmt að takst að viðhalda tiltölulega jákvæðu lífsviðhorfi - losna við að verða fúllynt og þreytt gamalmenni, en - "den tid den sorg" - ég er enn á fullu og verð, um langa hríð enn, ef......
-------------------------
Vegna tilmæla þeirra sem ekki hafa séð fjölmiðlaumfjöllun þá sem hér hefur verið vísað til:







Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...