06 janúar, 2014

Sextíu árin svifin eru að baki (1)

Ekki vil ég nú viðurkenna að það hafi hvarflað að mér að árans pestarskrattin sem hefur verið að leika mig grátt undanfarna daga, sé aldurstengdur, og ekki fannst mér skólameistarinn fara fínt í það þegar hann ýjaði að því að svo kynni að vera, þegar ég tilkynnti mig veikan, fyrsta sinni þennan veturinn. 

Ég blæs á allt sem gefur í skyn að með því aldur minn fluttist úr því að vera 59 ár, yfir í 60, hafi eitthvað breyst að því er varðar líkamlegt atgerfi mitt. Vissulega hefur það verið að þroskast og breytast í allmörg undanfarin ár; ýmislegt, sem á hverjum tíma hefur mátt teljast lítilsháttar, hefur, þegar litið er til lengri tíma, reynst hafa þroskast og breyst stórlega. Ég tel ekki að þessi vettvangur sé sá rétti til að velta sér upp úr því hvernig ástand mitt að þessu leyti, hefur breyst frá sem það var fyrir 40 árum eða svo: það getur hver maður (á mínum aldri, í það minnsta) ímyndað sér.
Það er miklu áhugaverðara, að mínu mati, að skoða aðra þætti sem viðkoma sjálfum mér, í þessu samhengi. Það sem þessir þættir eiga sameiginlegt hefur með að gera þá starfsemi sem á sér stað í heilanum: hugsuninni, tilfinningunum (sálarlífinu) og viðhorfunum.  Að þessu leyti má segja að mikil átök séu í gangi. Þar eru á ferð ótal spurningar um lífið og tilveruna. Þar er fjallað um hlutverk mitt sem einstaklings í samfélaginu. Svakalegar spurningar, sem fá svör fást við.

Ég, auðvitað til í að prófa ýmislegt, lét mig hafa það um daginn, að taka þátt í einhverju vitleysisprófinu sem gaf sig út fyrir að geta sagt til um aldur minn í andanum (mental age). Það kom mér svo sem ekki í opna skjöldu að ég skyldi reynast vera 19 ára á þeim mælikvarða. Sem sagt, annaðhvort afskaplega vanþroskaður, eins og flest fólk á þeim aldri er (að mínu mati), eða þá einstaklega vel með á nótunum í nútíma samfélagi. Auðvítað kýs ég að telja það vera hið síðarnefnda, þó ekki geti ég nú sagt að það höfði sérstaklega til mín að fara á "djammið" um hverja helgi (enda snýst slíkt aðallega um hormónastarfsemi) eða skjótast í Smáralindina til að öskra af tilfinningasemi yfir einhverjum internetgúrúum (reyndar var það fólk ekki 19 ára, en liggur bara vel við höggi sem samanburður).

Mér finnst það hafa komið mér vel á þessu sviði að hafa fengið að umgangast fólk milli tektar og tvítugs í daglegum störfum áratugum saman of þannig notið þess að drekka í mig tíðarandann á hverjum tíma. Mér finnst ég skilja fólk á þessum aldri að ýmsu leyti, en það sem skilur mig frá því er lífaldurinn. Ég er í þeirri aðstöðu að geta metið viðhorfin og skoðanirnar í ljósi áratuga reynslu. 
Jú, ég gæti fjallað um það allt saman í löngu máli, en það er ekki markmið þessa pistils, heldur frekar þau óeiginlegu tímamót sem ég upplífði þann 30. desember s.l.

Ég hef nú aldrei verið þessi afmælismaður. Man enga afmælisdaga að ráði, hef ekki talið mikilvægt að halda upp á afmælið mitt (fD hefur reyndar ávallt af gæsku sinni reitt fram tvennt á þessum degi, árlega, sem mér finnst betra en margt annað; brauðtertu og rjómatertu). Þessir dagar haf liðið einn af öðrum án þess að mikið væri við haft. Þar fyrir utan er þessi dagur á þeim stað í almanakinu, að varla er á bætandi hátíðahöldin.
Það varð niðurstaða þessu sinni, að sinna þessum degi, þó í litlu væri, enda varlegt að blása til stórveislu þegar allra veðra er von. Þessi samkoma fór vel fram og ég var harla kátur með að Kvisthyltingar voru þarna allir saman komnir meðal annarra góðra gesta.

Í tilefni þessa dags, sem markaði fyrst og fremst tímamót í óeiginlegum skilningi, bárust mér ansi margar kveðjur um samfélagsmiðla og með öðrum hætti. Ég mun koma að þeim að einhverju leyti í framhaldspistli, en hér læt ég fylgja eina kveðjuna, en hún lyfti sannarlega andanum og líklegast umfram það sem innistæða er fyrir. 
Hér mælir rímsnillingur sem hefur gefið sjálfri sér skáldanafnið "Hirðkveðill Kvistholts", en raunverulegt nafn hennar er Helga Ágústsdóttir:

Sextíu árin svifin eru að baki,
söm er lundin, gleði prýðir fas,
þó áfram líði tíminn taumaslaki,
sem telur korn í lífsins stundaglas.

Það er mælt að miklu ætíð varðar,
að mega ganga farsældar um veg,
og vera sannur vinur fósturjarðar,
þá verður æviferðin dásamleg.

Gleðstu Páll með gáskafullu sinni,
og geðprýði sem ávallt fylgir þér.
Allir þeir sem eiga við þig kynni,
af þér geyma mynd í hjarta sér.

Þakkir eiga skilið þjóðarhlynir,
þú ert slíkur eins og fjöldinn sér,
undir þetta allir taka vinir,
einum rómi og skála fyrir þér.

Ég hef bara ákveðið að trúa því að þarna sé á ferð raunsönn lýsing, og hyggst halda hnarreistur á grundvelli hennar inn í nýjan áratug.

Það er von á framhaldi umfjöllunar af sama tilefni og þá ekki síst í tengslum við fjölmiðlaumfjöllun sem varð vegna hennar í til teknu dagblaði og viðbrögð mín og annarra við henni.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...