En svona hljóðar þessi frásögn:
Ég hef ágætan skilning á því að andrúmsloftið í Menntaskólanum að Laugarvatni hafi verið dálítð rafmagnað undanfarna 10 daga eða svo. Fyrir því eru góðar og gildar ástæður sem ég ætla að reyna að gera grein fyrir að hluta til á þessum vettvangi. Þetta er ef til vill áhættuatriði hjá mér, enda verð ég óhjákvæmilega að snerta ýmsa strengi sem eru mis viðkvæmir.
Þetta hófst, eins og það snýr að mér, þegar fyrir lá að hreyfingarárinu var að ljúka og geðræktarárið var framundan. Ég fór að heyra utan að mér að einhverjar breytingar væru í farvatninu á stýrihópnum. Þetta heyrði ég hvískrað í nágrannaskrifstofunni - engin bylting, en svona lítilsháttar andlitslyfting.
Formlega frétti ég ekki af neinum hrókeringum fyrr en ég fékk póstinn. Þar var almennur inngangur og í beinu framhaldi kom þetta:
Nú er verkefnið geðrækt eins og við vitum. Í ljósi verkefnisins og tengsla geðheilbrigðis við mætingar, ástundun og almenna líðan ert þú til í að .... vera í hópnum ?Einstaklega vel undirbyggt, reyndar svo vel að ég sá enga undankomuleið – og svaraði því póstinum efnislega í lítillæti mínu, og var síðan boðin sálfræðiaðstoð í svari við svarinu.
Þarna fór boltinn að rúlla – við tók málþing um geðræktarárið þar sem kynnt var til sögunnar veggspjald, sem skólar gátu fengið sér að kostnaðarlausu – 1.30x2 – með ýmsum gagnlegum upplýsingum fyrir nemendur – ég og annað hópsfólk vorum á því að þiggja veggspjaldið. Það var ekki mikið testósterón á þessu málþingi. Hví?
Segir nú ekki af þessum málum fyrr en fyrir um þrem vikum, þegar pósturinn tilkynnti um stóran pakka á pósthúsinu á Selfossi, sem hann kæmi ekki í póstbílinn. Það var samdóma álit þeirra sem um fjölluðu innanhúss, að það væri gagnrýnisvert að senda svo stóran pakka með póstinum og ýmislegt fleira var sagt.
Segir nú ekki af þessum pakka fyrr en morgun einn þegar hann hafði ratað inn á skrifstofu skólameistara. Þarna reyndist maðurinn hafa átt leið á Selfoss á jeppanum. Þar tók hann pakkann, sem var reyndar alltof stór fyrir stórt farartækið. Það var ekki látið skipta máli, inn fór pakkinn, 1.30x2 þannig, að hann lá eftir jeppanum endilöngum og var sveigður yfir bílstjórasætið. Ég leyfi fólki síðan að ímynda sér þær aðstæður sem öðrum ökumönnum á Biskupstungnabraut og Laugarvatnsvegi voru búnar síðdegis þennan dag.
Næstu daga var minnst á þennan pakka, veggspjaldið, við og við, í skrifstofuumhverfinu. Ég fékk það dálítið á tilfinninguna að þarna væri kominn heitur pakki. Heita pakka þarf að meðhöndla gætilega, með þykkum vettlingum eða pottaleppum. Tilvera pakkans kom til umræðu á skrifstofu skólameistara, en þar gat hann augljóslega ekki átt framtíðarstað. Tilvera hans kom einnig til tals á skrifstofusvæðinu að öðru leyti. Þá jafnvel upp úr eins manns hljóði, sem viðbrögð við tölvupóstum. Dagarnir liðu og að því kom að tölvupóstar voru sendir á fleiri aðila og þar kom málið inn á mitt borð, vegna tengsla minna við geðræktarárs stýrihóp um heilsueflandi framhaldsskóla.
Þarna hófst eiginlega atburðarás sem fullvissaði mig um mikilvægi þess að halda svona geðræktarár. Ég treysti mér ekki, á þessum vettvangi til að lýsa, eða vitna í sendingarnar eða hver sagði hvað. Þarna var komið upp eitthvað, sem hljómaði svo einfalt en var samt svo flókið.
Í grunninn snerist umræðan um heppilegan stað fyrir veggspjaldið, sem var 1.30x2. Aðilar máls færðu rök fyrir skoðunum sínum og rök gegn skoðunum hinna eða hins. Ég leyfði mér að koma lítillega inn í umræðuna, ekki síst til að slá aðeins á hitann. Auðvitað fikraði ég mig varlega inn á hverasvæðið, enda beggja megin borðs, eins og reyndar í mörgum málum innanhúss. Ég leik nefnilega tveim skjöldum.
Margt væri hægt að ræða um póstsendingarnar í aðdraganda ákvörðunar um staðsetningu veggspjaldsins sem ekki er tími til að rifja upp hér, en með réttu eða röng kom þetta kvæði Gríms Thomsen, "Á Glæsivöllum", upp í hugann nokkrum sinnum:
Hjá Goðmundi á Glæsivöllum
gleði er í höll,
glymja hlátra sköll
og trúðar og leikarar leika þar um völl
en lítt er af setningi slegið.
Áfengt er mungátið
og mjöðurinn er forn,
mögnuð drykkjarhorn,
en óminnishegri og illra hóta norn
undir niðri er stiklunum þruma.
Á Grími enum góða
af gulli höfuð skín,
gamalt ber hann vín
en horns yfir öldu eiturormur gín
og enginn þolir drykkinn nema jötnar.
Goðmundur kóngur
er kurteis og hýr,
yfir köldu býr.
Fránar eru sjónir en fölur er hans hlýr
og feiknstafir svigna í brosi.
Á Glæsivöllum aldrei
með ýtum er fátt,
allt er kátt og dátt.
En bróðernið er flátt mjög og gamanið er grátt,
í góðsemi vegur þar hver annan.
Horn skella á nösum
og hnútur fljúga um borð,
hógværi fylgja orð,
en þegar brotna hausar og blóðið litar storð
brosir þá Goðmundur kóngur.
Náköld er Hemra(Grímur Thomsen)
því Niflheimi frá
nöpur sprettur á.
En kaldara und rifjum er konungsmönnum hjá,
kalinn á hjarta þaðan slapp ég.
Ekki dettur mér í hug að halda því fram að umfjöllunarefni kvæðisins eigi sér einhverja skírskotun í samskpti starfsfólks skólans. Mér fannst hinsvegar í lagi að lesa þetta kvæði í því samhengi sem er hér til umræðu, ekki síst í montvímunni eftir niðurstöður ráðuneytisúttektar.
Svo er það aftur að veggspjaldinu.
Um tíma virtist stefna í óefni með ákvörðun um staðsetninguna. Hugmyndir um staðsetningu fólu í sér mis mikla virðingu fyrir veggspjaldinu. Það má ímynda sér, t.d. að sú hugmynd að setja það upp á þröngum gangi kæmi til af reynslunni af flutningnum frá Selfossi. Við þessar aðstæður sá ég fram að að þurfa að beita mér af yfirveguðum þunga í málinu. Þarna sendi ég því frá mér tvo pósta og ég er eindregið þeirrar skoðunar að þeir hafi ráðið úrslitum um staðarvalið:
Í þeim fyrri segir svo:
Ég vil nú svo sem ekkert sérstaklega vera að velja á milli sjónarmiða að þessu leyti, en hallast þá að því að það væri skynsamlegra, í ljósi stöðu stofnunarinnar á Geðræktarári í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli, að setja spjaldið á áberandi stað, sem ég á erfitt með að fallast á að gangurinn við fyrirlestrasalinn falli undir.
Í þeim síðari, sem endanlega gerði út um málið, að mínu mati, sagði ég þetta:
Föstudagsmorgunninn fíniFyrir þá sem ekki þekkja muninn á múskati og matarsóda þá er múskat krydd sem maður notar lítið af og því má segja að þar sem vísan greinir frá morgni sem var fullur af múskati, þá hafi verið heldur mikið kryddað.
Er fullur af múskati,
gremju og dulitlu gríni
og geðræktarplakati.
Það var ákveðið að setja veggspjaldið á vegginn á móti matsalnum. Þar með fór þetta stóra mál yfir á framkvæmdastig. Það þýðir nú samt ekki að fullrætt væri allt sem ræða þurfti.
Þar hefst í raun annar kafli frásagnar og mér er til efs að hægt sé að leggja þá frásögn á þennan hóp við þessar aðstæður.
Það sem þurfti að gera til að veggspjaldið kæmist upp var aðallega tvennt:
A. Það þurfti að skrifa inn á það upplýsingar sem er sérstakar fyrir okkar svæði.
B. Það þurfti að koma því á sinn stað með fagmannlegum hætti.
Í staðsetningarákvörðunarferlinu var aðeins eitt sem þurfti að ákveða, og því er lýst nokkuð hér að framan. Nú þurfti að ákveða tvennt sem síðan þurfti að framkvæma. Mér þótti vandséð hvernig það gæti gengið, enda kom í ljós að það ferli varð síst einfaldara en hitt.
Hópsformaðurinn tók saman, í talsvert löngu máli, upplýsingar um helstu stofnanir og fyrirtæki í grenndinni sem honum þótti rétt að geta á veggspjaldinu – sendi þessar þetta tillögur sínar á hópinn með óskum um athugasemdir eða fleiri tillögur, með engum árangri, en það eru nú yfirleitt örlög slíkra tölvupóstsbeiðna. Þannig stóð það mál þegar kom að því að ákveða hver skyldi rita upplýsingarnar á veggspjaldið. Þar reyndust margir kallaðir, en aðeins einn var á endanum útvalinn, en þá var staðan orðin sú, að sá sem fenginn hafði verið til að setja veggspjaldið upp (það mál var afgreitt á hinni stóru skrifstofunni) kom til að framkvæma verkið, þá hafði skriftarmálið ekki verið útkljáð, sem kostaði þar með fýluferð uppsetningarmannsins.
Það mun hafa verið skotið á stuttum fundi til að stilla saman strengi. Tími var ákveðinn, skrifarinn fékk embættið og allt var klárt. Sú yfirlýsing uppsetningarmannsins, að hann kæmi ekki fet fyrir en búð væri að ganga frá skriftinni, varð síður en svo til að tefja fyrir framkvæmd hennar.
Veggspjaldið var lagt á borð í mötuneytinu. Því næst þurfti að ræða margt:
Hve nákvæmar ættu upplýsingarnar að veraÞað má nærri geta að þetta ferli allt tók á, en ég var þarna þátttakandi í aukahlutverki, silent partner, en með tillögurétt.
Hvernig átti að raða þeim
Átti skriftin/letrið/upplýsingarnar að halla með tilteknum hætti
Hve stórt ætti letrið að vera, átti það kannski að vera misstórt
Átti að skrá þarna einkafyrirtæki.
Hve langan tima átti ritarinn að fá til að æfa sig.
Þegar settur hefur verið lokafrestur á verk þá lýkur því á lokafresti á Íslandi, ekki fyrr og ekki seinna. Þannig var það einnig með þetta verk.
Uppsetningarmaðurinn kom fet á tilsettum tíma og tókst á við sinn hluta verkefnisins af festu. Verk hans hefði ekki gengið jafn vel og raun bar vitni ef ekki hefði komið til ómetanleg aðstoð frá brytanum, sem var matarlega séð með allt á hreinu fyrir hádegisverðinn og mér, sem hef innsýn í ótrúlegustu kima mannlífsins – hokinn af reynslu og víðsýni.
Veggspjaldið er komið upp og fyrir óinnvígða gerðist að algerlega hnökra- og vesenislaust. Sagan hér að framan greinir frá litlu broti þess sem gerðist undir niðri.
Ég gæti auðveldlega tekið fyrir önnur mál sem hafa verið ofarlega í umræðunni innan stofnunarinnar að undanförnu. Það verður að bíða betri tíma. Eitt þeirra er enn á tölvupóststigi og þar er heldur bætt í en hitt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli