Ég gæti líka tekið jákvæða nálgun á reynslu mína í dag með því að beita orðatiltækinu: Svo lengi lærir sem lifir.
Forsagan er sú að ég fór í vinnuna sem fyrr á þessu hausti og búinn með sama hætti og venja stendur til, en búnaðinum mun ég ekki lýsa því það gengi of nærri virðingu minni.
Veður var bara nokkuð gott; hafði snjóað lítillega og gekk á með rólyndislegum éljum. Allt eins og vera bar og ég sinnti minni vinnu.
Um miðjan morgun hringdi samstarfsmaður sem var á leið úr höfuðborginni yfir Mosfellsheiði, miður sín yfir að hafa ekið bifreið sinni út af í dimmu éli "um 10 mínútur frá Þingvöllum". Hann reyndist þó heppinn þar sem hann fékk fljótlega aðstoð við að koma bifreiðinni upp á veginn og kom í til vinnu á tilsettum tíma, nokkuð skekinn af reynslunni.
Í hádeginu gekk ég síðan nokkuð djarflega fram í að skjóta á borgarbarnið fyrir klaufaskapinn. Vísaði ég til dæmis til þess að svona væri það þegar fólk úr 101 færi í bíltúr upp í sveit og þar fram eftir götunum. Samstarfsmaðurinn tók þessu öllu vel þó ég viti nú ekki hvernig honum varð innanbrjósts við skotin.
Hádegið leið og ég þurfti að bregða mér stuttan spöl á Qashqai, en nú voru élin orðin þéttari og meiri. Á leið minni til baka gekk yfir svo mikið él að ég sá lítt út um framrúðuna, og þar sem ég var að beygja inn heimreiðina að vinnustaðnum, fann ég skyndilega að Qashqai fór fram af einhverju og í sama mund áttaði ég mig á því að ég hafði ekki hitt á heimreiðina og var kominn útaf. Ég ek nú á fjórhjóladrifinni bifreið, svo ég taldi þetta ekki verða mikið mál og þar sem ég þekkti staðhætti vel, gaf ég bara í til að freista þess að komast upp á heimreiðina. Þá kom auðvitað í ljós að það hafði skafið í kantinn og þar var kominn alldjúpur skafl, sem, þegar upp var staðið, reyndist fjórhjóladrifnum kagganum mínum ofviða. Ég reyndi auðvitað allt, með engum árangri, yfirgaf loks farartækið og staulaðist í gegnum skaflinn í kantinum og upp á heimreiðina í þann mund er élinu slotaði. Þarna blasti Qashqai við hverjum sem sjá vildi, æpandi vitnisburður um einstakan klaufaskap. Hver myndi svo sem trúa því að élið hefði verið svo dimmt sem það var?
Auðvitað komst ég svo að því að fólk glotti, tísti, kumraði og skellihló að aðstæðum mínum. Ég reyndi að hlæja með, en hið innra blasti við allt önnur mynd.
Sannarlega voru menn boðnir og búnir til að aðstoða og á endanum skaust Qashqai úr skaflinum, með aðstoð Kirkjuholtsbóndans. Endirinn var vissulega góður, en lexía dagsins var þörf: Ég mun framvegis sýna fyllstu hluttekningu þegar samferðamenn mínir lenda í óhöppum í aðstæðum sem ég þekki ekki.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)
Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...
-
Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...
-
Það er ótvíræður kostur við þorrabót eldri borgara í Biskupstungum, að það er ekki boðið upp á dansiball með tilheyrandi hávaða þegar fól...
-
Líklega lið annars bekkjar veturinn 1971-1972. Aftari röð f.v. Helgi Þorvaldsson, Eiríkur Jónsson, Kristján Aðalsteinsson, Páll M, Skúlaso...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli