30 desember, 2020

Í tilefni áramótasprengs.

Svona heldur nú lífið áfram, með þeirri kaflaskiptingu sem skapar umgjörð flestra mannvera í þann tíma sem þeim er úthlutað. Ég sagði við gamla vinkonu í símann í morgun, að nú væri ég kominn í sama kafla og hún, eini munurinn væri sá, að minn kafli er að byrja og hún er komin nokkrum blaðsíðum lengra. 
Merkilegt fyrirbæri þessi lífsbók okkar. Margir fá bara þunna bók með fáum köflum, en æ fleiri fá þykka og efnismikla bók. Það er víst ekkert réttlæti í því hvernig þessu er úthlutað.

Ég er bara harla þakklátur fyrir að hafa náð þessum kafla ævinnar og hlakka bara dálítið til að sjá hvað næstu blaðsíður færa mér.

Ekki meira um þessa bók.

Við fD höfum nú búið okkur heimili hér á Selfossi í 7 mánuði. Þegar við byrjuðum að búa voru heimkynnin ýmsar blokkaríbúðir, eða kjallarar hér og þar um höfuðborgarsvæðið á áttunda ártugnum. Svo fluttum við í sveitina. Þar bjuggum við í eintómum einbýlishúsum, allt þar til við komum okkur aftur fyrir í blokk. Komin aftur til upphafsins og freistum þess að sinna áhugamálunum af kostgæfni. Mitt verkefni snýr að því að safna saman heimildum um sögu Laugaráss. Það þokast áfram, en ég á enn eftir að ná almennilegum tökum á því að aga sjálfan mig. Eftir starfsævi þar sem bjalla tilkynnti mér með reglulegu millibili hvenær ég átti að fara á fætur eða standa mína pligt frammi fyrir fróðleiksþyrstu ungviði, er einhvern veginn svo afslappandi að ráða tíma sínum bara algerlega sjálfur. Það verður síðam til þess, að einhver púki á öxlinni hvíslar því stöðugt að mér, að ég hafi nægan tíma. Ekkert sérstaklega ráðagóður, þessi púki og ég mun nýta komandi ár til að pakka honum inn og koma fyrir í læstu geymsluhólfi í fataherberginu. 

Vonandi hef ég nægan tíma til að ljúka því sem ég hef sett markið á og gleðst jafnframt yfir því að hafa orðið mér úti  um áhugamál á eftirlaunaaldrinum, sem getur haldið mér tiltölulega ferskum (eða þannig) í einhvern slatta af árum til viðbótar. 


Árið 2020 hefur nú verið meira árið, en ég kvarta ekki. Ekkert okkar Kvisthyltinga hefur orðið fyrir barðinu á veiruskrattanum, utan þess auðvitað, að á okkur hafa verið settar ýmsar óþægilegar eða óskemmtilegar hömlur, svona rétt eins og aðrir hafa þurft að kljást við.  

Þetta ár megum við ekki afgreiða sem einhverja óþægilega minningu og halda síðan bara áfram eins og þetta gekk fyrir sig árið 2007 eða 2019. Við eigum að hafa lært ýmislegt nýtt, eins og til dæmis það, að lífið er ekki bara núna. Það er til eitthvað sem heitir saga. Hana nýtum við til að læra af. Svo er líka til framtíð, sem er algerlega í okkar höndum. Framtíð, sem vísindamenn segja okkur að sé ótrygg. Framtíð, sem er í okkar höndum, en ekki bara ykkar. 

Ekki neita ég því, að það er nokkur beygur í mér gagnvart komandi ári. Ég fæ það á tilfinninguna að stór hluti þessarar þjóðar og vel stætt fólk um allan heim, séu komin í spreng. Mér finnst að margir bíði þess að geta slett ærlega úr klaufunum á kostnað okkar allra, jafnskjótt og bólusetningin gegn veirunni er afstaðin.  
Auðvitað vona ég að við höfum dregið lærdóm af þessu ári. Vona að framundan séu rólegri tímar með minni neyslu og meiri skilningi á því, að við berum öll ábyrgð, ekki bara þið hin. 

Þá leyfi ég mér að þakka ykkur, sem hafið rennt í gegnum þessa pistla mína á árinu 2020, fyrir samfylgdina og óska ykkur þess að fá að takast á við árið 2021 af yfirvegun þess sem veit betur, eftir stórviðrið sem þá verður gengið yfir. 


Engin ummæli:

Nýr mánuður, nýtt vor

Villingarnir undirbúa atriði sitt, fyrir nokkrum dögum Ítalir tóku upp á því þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst hjá þeim á vordögum ...