Loksins þegar ég bý við hliðina á tveim til þrem flugeldasölustöðum, kviknaði engin þörf fyrir "fíriverk". Ég veit núna hversvegna þetta var og ástæðurnar eru nokkrar:
1. Það er vesen að koma sér á stað sem er hentugur til að kveikja í bombunum.
2. Leikurinn er tapaður fyrirfram. Hér má ein Guðrún Ósvífursdóttir eða einn Gísli Súrsson sín ekki mikils. Það var eitthvað annað í Laugarási, þegar það var að einhverju að keppa í þessum efnum.
3. Staðurinn sem ég bý á, er ekki beinlínis skotvænlegur, þó hér fyrir framan hjá mér, sé heill þyrlupallur. Hér býr fólk sem nýtur þess að horfa á skothríðina, frekar en skjóta sjálft. Þroskamerki?
4. Hér veit maður að ein og ein bomba breytir engu til eða frá.
Maður er á stöðugum hlaupum - ná í sprengjukassa, bera eld að kveiknum, hlaupa frá til að sjá sprengjuna sína skjóta sprengikúlum upp í himinhvolfið, í nokkrar sekúndur, athuga hvort einhver tók eftir glæsilegri sýningunni, ná svo í næsta kassa og endurtaka leikinn. Á meðan missir maður auðvitað af öllu hinu, sem er miklu glæsilegra og ókeypis þar að auki.
Þessi nýja reynsla (tiltölulega nýja) að eyða áramótum í svona þéttbýli, er alveg sæmileg. Þau reiðinnar býsn af púðri sem lýsti upp umhverfið meðan nýtt ár gekk í garð, féllu mér bara nokkuð vel, um stund. Svo fannst mér fljótlega, að nóg væri að gert, en það var bara enginn að velta fyrir sér mínum skoðunum að þessu leyti.
Ég verð hinsvegar að segja, að Selfyssingar eru ekki að vitleysast við að sprengja í tíma og ótíma. Við höfum nánast ekkert orðið vör við misnotkun að neinu ráði. Þetta byrjaði af krafti um 23.30 og svo var farið að draga úr því klukkutíma síðar. Einn og einn virðist þó hafa sofið af sér áramótin og vaknað svo klukkan tvö, með fullt hús af fíriverki, sem þurfti að kveikja í. Hann mátti það.
Hér sjáum við fyrir okkur stöðuna þessa um áramót framtíðar:
Setjast í útistofuna, með kveikt á hitaranum, í hlýjum fatnaðir, með heitan drykk í glasi og njóta sjónarspilsins sem nágrannarnir eru svo elskulegir að kalla fram fyrir okkur. Ekki slæm framtíðarsýn, svo sem.
Næst á dagskrá er að að ganga til móts við nýtt ár, sem miklar vonir eru bundnar við - mögulega of miklar. Ég kýs að fara milliveg í væntingunum - vona hið besta, með það bak við eyrað, að eitthvað annað kann að verða uppi á teningnum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli