31 desember, 2019

...og aldrei það kemur til baka

Er lífið eins og brún lagterta?
Einhvernveginn tekst tímanum sem liðinn er, alltað að koma til baka í einhverju formi. Það flýr í rauninni enginn fortíð sína, því hún býr innra með honum. Þarna inni býr þekking og reynsla, bæði um það sem fortíðin gaf og tók. Hún gaf okkur lífið sem leiddi okkur á þann stað sem við erum nú á þessu gamlárskvöldi. Hún tók frá okkur fjölmargt samferðaferðafólk og einnig ýmislegt sem gekk úr sér eftir því sem nýtt og þægilegra kom í staðinn. Hún gaf okkur tækifærin sem við gripum og nýttum okkur og tók frá okkur tækifærin sem við nýttum ekki.  Hún gaf okkur flestum börn og barnabörn, sem við getum glaðst yfir og verið stolt af og tók frá okkur tækifærin til að njóta þess að fylgjast með afkomendum okkar blómstra.
Það er nefnilega þannig, í núinu sem við lifum, að við hugsum ekki nægilega um það, að á morgun verður þetta nú orðið að fortíð okkar; fortíð sem við mögulega lærum síðan ef - eða ekki.

Það ætti að vera tími og tækifæri um áramót til að velta þessu samhengi öllu fyrir sér.

Áður en ég fer lengra með þessar vangaveltur mínar, kýs ég að láta bara af þeim og fara að hugsa um núið smá stund og taka kannski upp þráðinn aftur á morgun.  Ég þykist nokkuð viss um það, að við getum öll glaðst með sjálfum okkur, yfir því sem við höfum vel gert á lífsgöngunni, og jafn viss er ég um, að við sjáum eftir ýmsu því úr fortíðinni sem við gerðum eða gerðum ekki. Þannig er þetta nú bara.

Þar með þakka ég ykkur, sem hafið látið svo lítið að kíkja á þetta blogg mitt, endrum og sinnum, fyrir heimsóknirnar. Ég óska þess, okkur öllum til handa að árið 2020 verði ár endurskoðunar og ár lærdóms af því sem liðið er og uppbyggingar í kjölfarið.

Gleðilegt ár.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...