28 desember, 2019

Aldarminning tvö (1)

Bræðurnir frá Heiðarseli, ásamt móður sinni,
líklegast um miðjan þriðja áratug síðustu aldar.
Ég hef áður haft orð á því hve stutt er í raun síðan aðstæður venjulegs fólks voru svo gjörólíkar því sem nútímamaðurinn þekkir, að það er nánast erfitt að gera sér það í hugarlund. Fólkið sem ól mig og jafnaldra mína af sér fæddist á 10-15 ára tímabili í kringum 1920 og ólst upp milli tveggja heimstyjalda. Það var ekki nóg með að við venjulegar aðstæður væri barningnur við að hafa nóg í sig og á, heldur bættist heimskreppan við, til að flækja lífið enn. Baráttan fyrir lífinu var hörð á allt öðrum mælikvarða en nokkurt okkar sem nú lifir, getur hugsað sér.

Í byrjun árs 1920, nánar tiltekið þann 4. janúar fæddist hjónunum Sigurbjörgu Þórarinsdóttur og Runólfi Guðmundssyni að Heiðarseli á Síðu, fimmti sonurinn, sem reyndist verða síðasta barn þeirra. Synirnir fjórir sem fyrir voru Gísli (8 ára), Þorsteinn (6 ára), Ólafur (5 ára) og Guðmundur Þórarinn (1s árs). Yngsti sonurinn hlaut nafnið Þorvaldur.

Heiðarsel er í um 6 km aksturfjarlægð frá þjóðvegi 1, en ekinn er Lakavegur, framhjá Hunkubökkum. Þetta þykir nú ekki mikil vegalengd nú til dags, en var allnokkur spölur á þeim tíma sem hér um ræðir. Sjá mynd (smella til að stækka).


Frá Heiðarseli á Síðu 2011. Þrjár systur fóru þangað í nokkurskonar pílagrímaferða með viðhengjum sínum. Þarna var einhver húsakostur, en greina mátti rústir af eldri byggð. Systurnar eru f.v. Pálína (1942 - 2013), Sóley (1952) og Dröfn (1956). Vegna búsetu í gömlu höfuðborginni var fjórða systirin Auður (1954) ekki með í för þessari.

Sigurbjörg fæddist í Þykkvabæjarklaustursókn 1884 og lést 1980,  95 ára. Runólfur fæddist á Hnappavöllum í A-Skaftafellssýslu 1870 og lést 1933, 62 ára.
Gísli, elsti sonurinn fórst í Víkurfjöru í apríl 1932, tvítugur að aldri, Ólafur, þriðji sonur hjónanna lést 1939, 28 ára og næstyngsti sonurinn lést í bílslysi 1943, 25 ára að aldri.
Þó ég viti fátt með einhverri vissu um það hvenær Sigurbjörg hvarf frá Heiðarseli, geri ég ráð fyrir að það hafi verið í kjölfar þess að Runólfur lést. Ég veit að hún bjó í Hveragerði einhvern tíma og eyddi síðustu árunum á elliheimilinu Grund.

Sigurbjörg lifði til hárrar elli og tveir synir hennar náðu einnig góðum aldri. Þorsteinn lést 1991, 77 ára að aldri og Þorvaldur lést 2007 og varð 87 ára.

Þorvaldur Runólfsson
Eins og alltaf er gert í sakamálaþáttum, þá þarf að kynna til sögunnar þær persónur sem um er að ræða og setja þær í samhengi við aðrar persónur og aðstæður. Þetta þreytist ég ekki á að leggja áherslu á þegar ég sé að í nágrenni mínu er farið að gæta óþolinmæði um framvindu mynda af þessu tagi.
Þennan texta set ég hér inn til að minnast tengdaföður míns, en eins og áður hefur komið fram þá verður öld liðin frá fæðingu hans þann 4. janúar, næstkomandi.
Í síðari hluta þessara skrifa ætla ég að freista þess að fjalla um manninn meira út frá því hvernig hann kom mér fyrir sjónir og reyndist okkur í þau 30 ár sem leiðir okkar lágu saman. Ég veit að með því mun ég líklega þurfa að feta vandfarinn stíg til að halda líkunum á því að systurnar þrjár sjái ástæðu til að segja mér til syndanna eða setja mér stólinn fyrir dyrnar.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...