29 desember, 2014

Samtíðin er jafnan verst.

Ég er sjálfsagt ekki einn um það meðal þeirra sem eldri eru á hverjum tíma að telja margt vera verra en það var. Það er algengt viðhorf að tímarnir breytist til hins verra; hver sú kynslóð sem við tekur sé lakar sett að mörgu leyti en þær en á undan hafa farið.
Faðir minn gekk um tveggja vetra skeið (1936-7 og 1937-8) í Menntaskólann á Akureyri. Á þeim tima og einnig eftir að hann kom að S-Reykjum í árslok 1939, skrifaðist hann á við fósturforeldra sína, Sigrúnu og Benedikt Blöndal á Hallormsstað. Það virðast reyndar aðallega hafa verið þau sem skrifuðu, sem má sjá af því að í hverju bréfi þeirra kvarta þau yfir að hafa ekki fengið bréf (á Akureyri var hann á aldrinum 17-19 ára svo það er ef til vill skiljanlegt).
Í bréfum sínum segja þau fréttir að austan og spyrja frétta frá Akureyri. Þau leggja honum einnig lífsreglurnar og veita góð ráð. Þar er margt áhugavert, ekki síst ef það er tengt stöðu mála á okkar tímum. Í bréfi sem hann skrifaði pabba í nóvember 1937 segir Benedikt Blöndal:


Úr bréfi Benedikts
"Annars er einkennilegt hvernig eldra fólkið lítur ávallt á samtíð sína. Hún þykir jafnan verst og æskan og ungdómurinn stórum verri en var í ungdæmi þeirra. Mikil væri sú afturför frá kynslóð til kynslóðar ef þessir dómar hefðu við full rök að styðjast".

Í bréfi í lok árs 1941, en þá er pabbi búinn að vera tæp tvö ár á S.-Reykjum, skrifar Sigrún Blöndal (skólastýra í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað):


Úr bréfi Sigrúnar
"Stúlkur eru að búa sig á "ball" út í Ketilsstaði, því ekki hefur maður frið með heimili sitt einusinni á jólunum fyrir þessum strákagörmum sveitarinnar, sem ekki geta látið þessa aumingja sakleysingja í friði og finnst víst eðlilegast að Jesús Kristur byrji frelsunarstarf sitt í sálum þessara ungu stúlkna á "balli"! Þess vegna stilla þeir því upp fáum dögum eftir minningarhátíðina um fæðingu hans! Og dettur ekki í hug, að hann eigi að fæðast í hverju einasta mannshjarta! Það er erfitt að glíma við heimskuna og óþokkaskapinn og barnalegt að hafa nokkurntíma látið sér detta í hug, að maður væri þess megnugur".
Bréf þeirra hjóna staðfesta að mannskepnan er söm við sig á öllum tímum.

Þrátt fyrir þetta ætla ég ekkert að víkja frá þeirri skoðun minni, að þær breytingar sem hafa orðið frá því mín kynslóð óx úr grasi, við undirleik Bítlanna, Rolling Stones, Jethro Tull, Bob Dylan, Joan Baez, The Kinks og svo  mætti lengi telja, séu síður en svo til bóta. Með þessu er ég ekki að halda því fram að ungt fólk nú sé eitthvað lakara að upplagi en það hefur verið á hverjum tíma. Það kann jafnvel að vera talsvert betra.

Umhverfi og uppvaxtarskilyrði barna finnst mér hafa farið verulega versnandi síðastliðin 15-20 ár og hér tíni ég fram nokkrar ástæður fyrir þessari skoðun minni:


  1. Veröldin er orðin miklu flóknari en hún var og þar með meiri óvissa um framtíðina.
  2. Uppeldi fer æ meir fram á stofnunum þar sem börn læra að talsverðum hluta hvert af öðru frekar en af foreldrum sínum. Máltaka á sér því miður stað í of miklum mæli í gegnum samskipti jafnaldra.
  3. Rafrænt umhverfi getur haft neikvæð áhrif á ýmsa þætti sem lúta að mannlegum samskiptum. Foreldrar og börn sogast æ meir inn í þann heim sem tölvur og internet búa þeim til afþreyingar.


Til að vera jákvæður vil ég halda opnum þeim möguleika að hvað sem breytist muni manninum takast að breytast með og ná einhverju jafnvægi við umhverfi sitt á hverjum tíma.
Hver segir líka að það megi ekki segja: "Það var sagt mér að það væri ball í kvöld"?



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...