23 desember, 2014

...og bannið þeim það ekki.

Nei, ég ætla ekki út á þá braut að fjalla um eitt heitasta umræðuefni  þessarar, að mörgu leyti, einkennilegu þjóðar á þessari aðventu. Þetta málefni munum við ekki fá botn í, frekar en svo mörg önnur sem rekur á fjörurnar, rétt eins og öldur á strönd. Öldurnar sogast út aftur og víkja þannig fyrir næstu öldu og þannig koll af kolli. Ég er farinn að bíða eftir málefninu sem okkur tekst að rífast um milli jóla og nýárs.

Ég er kominn á þann aldur að skoðanir mínar falla æ sjaldnar að háværustu skoðunum hverju sinni. Mig grunar að það sé hlutskipti fólks almennt, að þegar það eldist, sprengfullt af áratuga reynslu af lífinu, burðast það með skoðanir sem eru ekki lengur viðurkenndar. Skynsemi þess ræður því líklegast, að það þagnar smám saman og hverfur, hægt og hljótt af sviðinu og lætur þær kynslóðir sem við taka um að gera sömu mistökin og hver kynslóðin af annarri hefur gert gegnum aldirnar.

Ég er farinn að upplifa sjálfan mig í sporum þessara sem eru eldri og teljast þar með reyndari. Ég þarf, starfs míns vegna að vera nokkuð á tánum í þessum efnum, fylgjast með tækniþróun á sviðum sem ég þarf að kunna skil á í vinnunni og reyna að vera nokkurnveginn klár á því hvað er efst á baugi hjá ungu fólki frá degi til dags. Mér finnst það vera forréttindi að vera í aðstöðu til að umgangast ungt fólk daglega, en ég verð jafnframt að viðurkenna að æ oftar átta ég mig ekki á hvað það er að pæla. Ungmenni nútímans eru ljúfar og góðar manneskjur, upp til hópa. Þau eru kurteis og oft jákvæð. Samt geta þau verið ansi gloppótt blessuð, og ég hlýt að velta því fyrir mér hvað veldur. Niðurstöður mínar myndu nægja til að fylla 4 bindi og myndu ekki breyta neinu. Þar koma við sögu ýmsir þættir sem ég tel að hamli innri gerð þeirra og þroska: foreldrar, ofgnóttin, leikskólar, grunnskólar, tækniþróun, afþreyingariðnaðurinn og bara almennt samfélag á hverfanda hveli.

Við erum einstaklega eigingjarnt fólk, Íslendingar og með því á ég við, að við búum okkur til litla heima sem geta verið einstaklingur, eða fjölskylda.  Við verjum síðan þessa örheima okkar með kjafti og klóm ef okkur  finnst á okkur brotið með einhverjum hætti, eða ef okkur finnst að aðrir sinni velferð okkar ekki nægilega.
Við erum síður gagnrýnin á okkur sjálf.
Sannarlega er ég ekki að fjalla hér um þá sem af ýmsum ástæðum þurfa nauðsynlega á aðstoð samfélagsins að halda, heldur hina sem þurfa hana ekki en krefja samfélagið um hana og fylgjast vel með hvort hún er veitt með viðunandi hætti.  Ég er svo illa innrættur (bara stundum), að ég á von á að sá tími renni upp innan skamms, að það verði stofnaðir barnagarðar sem sjá um allt uppeldi barna fólks sem þarf að fá að hvíla sig á kvöldin og nóttunni. Tilvera barnanna er síðan nýtt fyrst og fremst í þeim tilgangi að skapa foreldrunum virðingarstöðu í samfélaginu, kannski til að fara í verslunarmiðstöðvar um helgar (bara á laugardagsmorgnum, því það þarf að fara í tölvuleik eða á feisbúkk, fara á djammið um kvöldið og vera þunnur daginn eftir (og fara í tölvuleik eða á feisbúkk)) og til að fá krúttsprengjukomment á samfélagsmiðlum.

Ég veit að ég er ósanngjarn að flestra mati og ég veit líka að sem betur fer eru flestir foreldrar þannig innréttaðir að þeir leggja mikið á sig til að börnin fái gott uppeldi og verði nýtir og hamingjusamir þjóðfélagsþegnar. En það er til fólk sem virðist fyrst og fremst líta á börn sem tæki til að skapa sér einhverja æskilega stöðu í samfélaginu, en ekki eitthvað sem er það mikilvægasta sem foreldrar geta tekist á við í lífinu; eitthvað sem kostar svita og tár, en leiðir loks til óendanlegs ríkidæmis. Foreldrar mega og eiga að vera stoltir af börnum sínum hvar og hvenær sem er, en þar þarf að koma til jafnvægi milli sýndarmennsku og þess sem er í raun.

Þar með set ég punkt þessu sinni.
Ég óska þeim sem lásu alla leið, gleðilegra jóla og þakka samfylgdina á þessum vettvangi það sem af er ári.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...