24 desember, 2012

"Þessi er sterk"

 Nú er upp runninn aðfangadagur, rétt eina ferðina. Ég er óendanlega árrisull nú sem aðra morgna, og er reyndar löngu búinn að átta mig á því, að slíku háttalagi fylgja margir kostir (ég nefni ekki gallana á degi sem þessum).
Fyrst það er kominn aðfangadagur þá var auðvitað Þorláksmessa í gær. Hún hefur undanfarin, allmörg ár falið í sér að fD og gamli unglingurinn hafa átt saman ágæta stund þar sem fjallað hefur verið um hvernig skatan væri það árið og síðan hafa þau sameinast í að gera þessu skemmda sjávardýri skil með sínum hætti. Minn hlutur og flestra þeirra sem einnig hafa tekið þátt í þessu borðhaldi, hefur verið sá,að snæða aðrar tegundir fiska með fullum skilningi á sérviskulegu skötuátinu og þar með höfum við leyft gegnsýrandi ilminum að leika um lyktarfærin allt um kring þessa átveislu þeirra félaganna í skötudýrkun.

Í gær var sá gamli fjarri góðu gamni.

Í aðdragandanum var fD í talsverðum vafa um hvort hún færi að standa í að sjóða skötu fyrir sig eina, en ég hvatti hana til þess að láta vaða með óljósu loforði um að ég kynni að freista þess að láta af skötubindindinu þó í litlu yrði. Það var keypt skata (eða "það var versluð skata" eins og þeir sem mæla á nútíma íslensku vilja hafa það). Henni var svo skellt í pottinn þegar leið að kvöldverði. Til vara, og fyrir eina Kvisthyltinginn auk okkar, sem heima var, voru þrjár aðrar fisktegundir á boðstólnum.  Innra með mér var ég búinn að búa mig undir það að takast á við að reyna einu sinni enn að aðlaga mig því að koma ofan í mig þessum ókræsilega mat. (Fyrir utan það, að lyktin er síður en svo aðlaðandi þá sér maður nú varla neitt ókræsilegra á borðum en nýsoðna skötu). Ég lagði mig fram um að sýnast svalur þar sem ég settist að borðinu.

"Úff, þessi er sterk" fD gefur skötu ávallt styrkleikaeinkunn og þar með hafa þau gamli maðurinn getað tengst í umfjöllun um ákveðið málefni. Nú þurfti hún að segja þetta upp úr eins manns hljóði, þar sem ég beið litla stund áður en ég tók þá stóru ávörðun að skella mér á barð. Setti það á diskinn minn og fékk síðan leiðbeiningar frá reynsluboltanum um hvernig best væri að aðskilja það sem maður setur ofan í sig frá hinu sem er síður ætt. Að því búnu skellti ég vel af kartöflum og vel af hamstólg yfir og allt um kring. Því næst tók við það sem átti að verða samstöðuát. Ég, sem sagt, skellti í mig fyrsta bitanum.

Ég held að það sé engum manni hollt, og allra síst á aðfangadegi jóla, að þurfa að lesa um það sem þessu fylgdi. Fyrsti þáttur þess átti sér stað þar sem ég bar gaffalinn upp að opnum munni og gerði þau stóru mistök að anda að mér um leið. Þeir sem borða skötu vita örugglega hvað ég er að tala um. Ég gafst ekki upp þrátt fyrir þá hnökra sem þarna urðu í byrjun. Gegnum þykkt og þunnt var ég ákveðinn í að sýna samstöðu með fD, sem annars hefði í einsend svitnað yfir þessum uppáhalds mat sínum. Eftir fjóra bita, sem ég naut engan veginn, voru líkamleg áhrif orðin of mikil til að áfram yrði haldið. Mér hafði láðst að setja vatn í glas til að skola "matnum" niður með, en mér hafði ekki láðst að bera á borð tiltekna framleiðslu frá Álaborg (til að sýna Kvisthyltingum sem þar búa alla jafna, samstöðu. Ég er á fullur í allskonar samstöðu um þessar mundir) sem kom beint úr frystinum. Það var af þessum sökum, einnig, sem allt stefndi í óefni undir máltíðinni. Álaborgardrykkinn notaði ég til að skola skötunni niður, hann virkaði algerlega bragðlaus og átti ekki séns í skötuna þegar kom að því að kyngja. Mér hafði bara láðst að setja á borð nægilega stórt glas og því þurfti ég  að hella alloft í glasið (var orðið skítkalt á hægri hendinni).

Þarna varð sá hluti máltíðarinnar sem sneri að þessum brjóskfiski, eins og sjá má af framansögðu, fremur endasleppur. Það var ekki þannig hjá fD, sem með glampa í augum, dásemdarorð á vörum og svitaperlur á enni, skóflaði dýrindismatnum í sig eins og enginn væri morgundagurinn.
Aðrar fisktegundir voru alveg ágætar.
-------------------
Ég læt mér í léttu rúmi liggja þótt einhver ykkar sem þetta lesið, líti viðhorf mín til skötuáts hornauga og telji afstöðu mín þar til bera vott um aumingjaskap eða gikkshátt. Ég hef lagt  mig fram um að sýna samstöðu og það er fyrir mestu.
-------------------
Með því að nú er framundan jólahátið þykir mér við hæfi að senda tryggum lesendum þessara stopulu bloggskrifa, bestu óskir mínar um að jólin verði þeim sem allra indælust. 
Við hugsum til barnanna, tengdadætranna og barnabarnanna í Hjaltadalnum og Ástralíu og hlökkum mikið til að sameinast um áramótin.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...