06 janúar, 2013

Upp og niður eða bara flatt

Hversvegna er ég með klút fyrir andlitinu?
Nú er þessari lotu að ljúka, enn eina ferðina. Framundan hin daglega rútína næstu mánuðina. Fram til þessa hafa mánuðirnir janúar og febrúar verið í heldur litlu uppáhaldi hjá mér, en þó neita ég því ekki, að eftir því sem árunum fjölgar dregur stöðugt úr mismunandi viðhorfum mínum til hins og þessa. Ætli ég sé ekki að ná endanlega því stigi að vera ekki að velta mér of mikið upp úr hvað kemur næst. Leifarnar af spennu, tilhlökkun, kvíða eða leiðindum æskunnar eru kannski að jafnast út; hæðir og lægðir að verða eins og Suðurlandsundirlendið með fjallahringinn í fjarskanum. Það þarf meira til nú en áður að komast á tindana eða renna sér niður í dalina; það þarf að þvælast langar leiðir til að komast þangað og tilgangurinn með því verður jafnframt óljósari.

Þetta mun duga til að flestir sem lesa eru þegar hættir. Ég hef nefnilega nokkuð oft fengið þær athugsemdir við skrif mín, að þau séu of flókin og að það sé erfitt að skilja hvað ég er að fara. Ég held að það sé aðallega vegna þess að mér hættir til að nota of mörg orð til að segja það sem hægt er að segja í miklu styttra máli. En þá væri horft fram hjá því, að tilgangur minn með þessu er ekki bara að segja frá einhverju efni eða lýsa einhverjum viðhorfum, heldur ekki síður að reyna að klæða þessa þætti í einhvern orðabúning og þannig þjálfa sjálfan mig í að koma frá mér hugsunum. Það verður svo að vera, ef ég skilst fremur illa á stundum.

Nú horfi ég fram á sextugasta ár ævi minnar og fimmta ár frá hruni. Á ég eitthvað að vera að velta mér upp úr því?
Að því er varðar hið fyrrnefnda þá held ég að það verði frekar ástæða til á sama tíma að ári. Um hið síðarnefnda get ég sagt margt, enda ekki skoðanalaus á þeim vettvangi og framundan mikið uppgjör, þar sem þessi undarlega þjóð verður kölluð til, til að ákvarða hvaða öfl það verða sem hún vill að móti stefnuna næstu fjögur ár í það minnsta. Á hverjum degi tjáir ótölulegur fjöldi fólks skoðanir sínar á allskyns miðlum. Þar takast á tvær fylkingar, tvær þjóðir, nánast. Stundum velti ég því fyrir mér hvort það sé mikill munur á þessu ástandi og borgarastyrjöld. Hvergi örlar á sátt, hvergi virðist vera snertiflötur þar sem hægt væri að byrja að byggja upp. Sjálft sameiningartákn þjóðarinnar, sem ég hef þar til fyrir rúmum átta árum litið á sem svo, er orðið stærsta sundrungaraflið. Þetta ástand gefur ekki tilefni til bjartsýni um framhaldið.
Í grunninn má segja, að tveir hópar takist á:
a. þeir sem vilja minnka mun milli þjóðfélagshópa með sem mestum jöfnuði á öllum sviðum. Til að svo megi verða þarf að koma til innheimta skatta og þeir síðan notaðir til að jafna kjörin í gegnum velferðarkerfi og menntun, meðal annars.
b. þeir sem vilja stækka kökuna sem til skipta er, en draga á sama tíma úr jöfnuði þannig, að þeir sem ráði fjármagninu verði færari en áður um að deila því sem þeir telja sig geta verið án, til þeirra sem minna mega sín.

Eins og staðan er nú virðist seinni hópurinn munu fara með sigur af hólmi á komandi vori. Ekki get ég annað en velt fyrir mér hvað það getur haft í för með sér og þá hvarflar hugurinn til þess tíma þegar bankarnir útdeildu af rausnarskap sínum styrkjum til góðra og verðugra málefna og réðu í gegnum það æ meiru um hverjir komust af.
Ef staðan væri sú, að stærstu gerendurnir í hinu "svokallaða" hruni, væru búnir að játa á sig herfileg mistök og ef þeir væru búnir, af auðmýkt, að biðja þjóð sína afsökunar á því að hafa leitt hana fram af hengiflugi, myndi málið horfa öðruvísi við mér. Þetta hafa þeir ekki gert og þeir munu ekki gera það. Þeir þekkja sína þjóð. Frá árinu 2009 hafa þeir látlaust haft uppi sama sönginn um þá sem, eftir sigur í kosningum, tóku að sér það vanþakkláta starf, að koma þessu landi á réttan kjöl. Þeir eru búnir að telja stórum hluta þessarar þjóðar trú um að allur vandinn sem Björgu að kenna. Hvaða hluti þjóðarinnar skyldi það nú vera? Sjálfsagt er hann fjölskrúðugur, en hér eru nokkrar tilgátur:
- þeir sem eiga og hafa beinan hag af því að kökunni sé misskipt.
- þeir sem ala með sér þann draum að þeirra tækifæri muni koma og að þá verði gott að búa við misskiptingu (þeir-hæfustu-lifa-af - hugsunin, eða ameríski draumurinn)
- þeir sem eru nánast búnir að gleyma hvað gerðist árið 2008 og er fyrirmunað að mynda tengingu milli þess og þess sem á undan fór.
- þeir sem fyrir ætternis sakir og hefða voga sér ekki að líta í kringum sig á hinum pólitíska vettvangi.
- þeir sem telja sig vera ópólitíska.
- þeir sem eru auðveldlega útsettir fyrir áróðri í fjölmiðlum, en gerendurnir ráða fjölmiðlum í þessu landi, utan kannski einum, sem er óspart úthrópaður sem sorprit.
- mig langar að nefna einn hóp enn, en hann trúir því staðfastlega, að Björg sé versta ríkisstjórn sögunnar, af þeirri ástæðu einni, að gerendurnir segja það.

Ekki mikil bjartsýni hér á ferð, en það lagast.



2 ummæli:

  1. Hefði ekki getað skrifað þetta betur sjálf. Skítt veri með það þótt fólki finnist þú nota of mörg orð; eftir stendur innihald sem er gott og vel orðað.
    Hirðkveðill Kvistholts, sem fer að byrja á afmælisdrápunni, hvað líður!

    SvaraEyða
  2. Þakkir, fH. Bjartsýni mín vex við að heyra af væntanlegri drápu. Ég bíð í ofvæni. :)

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...