20 desember, 2012

Óhöpp eiga sér einnig stað í sveitasælunni

Ég sá fram á óendanleg rólegheit í dag - einn heima, með fD í vinnunni og nýkominn danska Kvisthyltinginn í kaupstaðarferð.
Þá heyrði ég að sorpsöfnunarbifreiðin kom í hlað.
Ég nennti ekki einusinni að fá staðfestingu á því að þetta væri sorpsöfnunarbifreiðin - fannst það bara á þeim hljóðum sem bárust til mín að utan. Þegar þessum eðlilegu ruslatæmingarhljóðum linnti heyrði ég hann aka af stað. Velti því ekki frekar fyrir mér, en þar kom, að mér fannst vélarhljóðunum ekkert linna. Það var þess vegna sem ég fór fram í eldhús, leit út um gluggann og sá þá að fyrrgreind sorpsöfnunarbifreið hafði farið út af heimreiðinni, sem fD ók niður, slysalaust í býtið á ónegldri Corollunni.

Ég velti fyrir mér hvort ég ætti eitthvað að gera í þessu, enda ljóst að ég myndi ekkert geta gert.
Eftir nokkrar innhverfar pælingar ákvað ég þó að fara út með skóflu - reyndi við sandhauginn sem varð afgangs við sandkassasmíðar sumarsins, en hann reyndist gaddfreðinn. Mér tókst þó að skafa af honum nokkra efstu millimetrana og þannig að ná mér í lítilræði af sandi sem dugði til að ég flygi ekki á höfuðið við að kynna mér allar aðstæður.

Það reyndist rétt hjá mér, að þarna vera ekkert sem nærvera mín myndi breyta. Því var það, að ég skellti mér bara inn og náði í EOS-inn og myndaði síðan í gríð og erg atganginn þegar Þórarinn á Spóastöðum kom á stóru dráttarvélinni, með teygjureipið og kippti laskaðri sorpsöfnunarbifreiðinni upp.

Að öðru leyti læt ég myndirnar tala.
Hvað verður um Alaskavíðinn sem bjargaði sorpsöfnunarbifreiðinn frá að velta, á næsta sumri, verður líklega að koma í ljós.

2 ummæli:

  1. Sýnist blessaður sorpbíllinn vera á leiðinni á haugana eftir átökin við trén ykkar hP og fD. Gaman að sjá atganginn á EOS.

    SvaraEyða
  2. Alaskavíðinum ei líður vel
    eðlilegt hlýtur að vera, ég tel
    hann grætur nú griðstaðinn sinn.
    Gerðist hans hneisa þó mest sem má
    er miðaði vinur hans hneykslið það á
    Með ofstopa algrimmri vél.

    Sem sagt Hirðkveðill Kvistholts stendur með víðinum! Og telur allar myndbirtingar vel fallnar til málskostnaðarsóknar.
    Undirdáungast,
    H.Ág.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...