08 desember, 2012

Háski á hálum ís

Það leit nú ekkert illa út með færið þegar við fD lögðum af stað heim úr vinnunni í gær og hugðumst hafa viðkomu í höfuðstað Suðurlands til að fylla á fyrir næstu viku. En það átti eftir að fara öðruvísi.

Laugarvatnsvegurinn var svo sem fremur óskemmtilegur til aksturs enda hafði snjóað  og myndast krapi. Sjókoman var við það að breytast í rigningu þegar hér var komið. Eins og oft er við slíkar aðstæður lagði fD fljótlega í þessari ferð til, að kaupstaðarferð yrði frestað og þess frekar freistað að komast heima í öryggið. Ég tók nú lítt undir þær vangaveltur - var frekar á því að ljúka þessu verki af - við skyldum sjá til hvort ekki léttist á veginum. Þegar við mættum síðan snjóruðningstæki við Apavatn styrktist ég í þeirri ákvörðun að ljúka því sem að var stefnt. Segir ekki af ferðinni fyrr en við náðum Svínavatni án þess að fleira yrði til tíðinda. Farkosturinn var framhjóladrifin japönsk fólksbifreið á heilsársbörðum, sem þýðir auðvitað það að engir voru naglarnir. Við Svínavatn virtist koma í ljós, að Biskupstungnabraut væri bara greið og því lá beint við að stefna niður úr.
Það var ekki löngu eftir að sá hluti ferðarinnar hófst, að farþeginn fór að gefa til kynna, bæði með krampakippum, sem birtust sem högg í farþegadyrnar innanverðar og í hægri upphandlegg minn, og sem lágværar upphrópanir eins og ÚFF! eða AAAH!. Ég áttaði mig auðvitað ekki á ástæðum þessa, svo upptekinn var ég við aksturinn. Þetta var á þeima kafla sem er milli Svínavatns og Borgar, en hann var í góðu lagi miðað við aðstæður að öðru leyti. Það sama má segja um "Torg hinnar stóru Borgar", með stórborgarlegu yfirbragði sínu.

Þegar þarna var komið þurfti að ákveða hvort haldið skyldi áfram, eða tekinn 360° hringur á í torginu. Fyrri kosturinn var valinn, sem ég verð, eftir á að hyggja, að viðurkenna, að var nokkurt glapræði.
Frá Stóru-Borg blasti við allt önnur mynd.

Framundan var hágljáandi vegurinn og minnsta snerting mín við stýrið myndaði ákveðna keðjuverkun: örlitla og vart merkjanlega hliðarhreyfingu farartækisins, og í beinu framhaldi mikið umrót í farþegasætinu. Við vorum ekki komin langt inn á gljáann, þar sem fyrsti gír var nánast ónothæfur vegna þess hve hraðinn var mikill, þegar sú einróma ákvörðun var tekin, að snúa við við fyrsta tækifæri. Það var síðan ekki síst fD sem skannaði vegkantinn og nágrenni í leit að mögulegum stað til að snúa við. Hún sá hlíð, lengst út í móa og mátti telja líklegt að þar væri þá afleggjari af aðalveginum, sem svo reyndist ekki vera þegar við brunuðum framhjá í inngjafarlausum fyrsta gír. Það var svo ekki fyrr en við vegamótin þar sem Kiðjabergsvegur mætir Biskupstungnabraut, að unnt virtist að snúa við. Það var nákvæmlega með það í huga, og til þess að þurfa ekki að bakka neitt og þar með taka áhættuna af að komast ekki af stað aftur, sem ég tók góðan sveig inn á afleggjarann og hugðist þannig snúa við án þess að þurfa að stoppa. Þegar öðrum farþegum (farþega, reyndar) varð ljóst að þetta var ætlun mín, var mér umsvifalaust skipað að stöðva þá þegar, jafn vel þó bíllinn væri nú kominn út á miðjan veg og aðrir bílar sáust nálgast óþægilega hratt. Ég lét þessar skipanir sem vind um eyru mér þjóta og hélt mínu striki, fálmlaust og fumlaust. Allt gekk þetta eins og upp var lagt með. Sama leið ekin til baka af rólegri yfirvegun, þar til við komum að "Torgi hinnar himnesku Borgar". Eftir það voru allir vegir færir og enn fæ ég ekki nógsamlega þakkað þeim sem söltuðu veginn frá Brúará að Laugarási fyrir nokkru.

Ég hef ekki sagt margt um bílstjórann í þessari ferð, enda málið skylt. Ég vil samt geta þess að aldrei bar skugga á eindæma færni hans við að stýra ökutækinu í gegnum þann háska sem okkur var búinn. Ég læt einnig hjá líða að fjalla mikið um það að fyrir hálfum mánuði þurfti þessi sami bílstjóri að nýta sér þá staðreynd að bifreið hans er kaskótryggð.
-------
Það er rétt að taka fram að það er varasamt að reikna  með að allt sem sagt er hér að ofan sé fullkomlega í sátt við sannleikann. Kjarninn er réttur - annað kallast skáldaleyfi, nú eða að færa í stílinn.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...