06 desember, 2012

Skálholtsbrekkan og fleira


Þetta kurteislega erindi sendi ég til svæðisstjóra Vegagerðarinnar ásamt oddvita og sveitarstjóra Bláskógabyggðar, á þessum góða degi:


Sæl
Það er skemmtilegra að fjalla um það sem vel er gert og því vil ég leyfa mér að þakka það að einhversstaðar hefur verið ákveðið að salta veginn milli Laugaráss og Brúarár. Þetta er mér meira fagnaðarefni en mörgum þar sem ég ek þarna um til vinnu á hverjum morgni yfir veturinn. Þetta hef ég gert frá haustinu 1986 og hefur leið mín legið á Laugarvatn. Þau eru ófá tilvikin sem ég hef nálgast það að fara með bænirnar mínar þar sem svellgljáandi Skálholtsbrekkan blasir við mér snemma morguns. Iðulega hefur hvarflað að mér við slík tækifæri, að bjóða þeim sem hafa með þennan vegarspotta að gera, í salíbunu um þessa brekku, en hún er ekki síður óhugnanleg þegar haldið er niður hana í ofangreindu ástandi.
Ég hef, sem betur fer, oftast komist upp, en hef stundum horfið frá áður en ég hef lagt í brattann.


Eftir að hafa sigrast á Skálholtsbrekkunni tekur við tiltölulega láréttur vegarkafli sem er sannarlega einnig varasamur rétt eftir að maður fer fram hjá aðalheimreiðinni á Skálholtsstað. Þar er, á stuttum kafla, hár bakki niður á gilbotn. Í hvössu veðri er fátt til ráða á þessum stað ef bifreið tekur að renna til. Komist maður klakklaust framhjá þessu tekur við brekka númer tvö á þessari leið, en um hana má segja svipað og þá fyrri: það er ekki eftirsóknarvert hlutskipti að sitja í bíl sem lætur ekki að neinni verulegri stjórn. Þegar þessi brekka er frá tekur við það sem kalla mætti Spóastaðahálsinn. En upp hann er vegurinn auðvitað búinn að ver til vandræða vegna missigs frá því hann var byggður.. Í fljúgandi hálku getur hvað sem er gerst á þessum kafla.
Niður hálsinn hinumegin í átt að vegamótunum við Brúará er brekkan aflíðandi og maður hefur ekki á tilfinningunni að að þar geti margt gerst, en það hefur komið fyrir að mér hefur mistekist að komast þarna upp á heimleið, vegna súrrandi hálku.


Auðvitað veit ég vel, að það verður aldrei svo að maður geti treyst því að komast leiðar sinnar að vetri til á þessu landi, en það er jafnvíst að allir vilja gera eins vel í þessum efnum og efni standa til - ekki efa ég það.


Hvað er hægt að gera við Skálholtsbrekkuna til að bæta þar öryggi og/eða sálarástand þeirra sem um hana þurfa að fara?


Skömmu eftir að þessi brekka kom til sögunnar veit ég að foreldrar voru mjög uggandi um börn sín í skólabíl þarna um. Ég veit til þess að það var farið fram á að þarna yrðu sett upp vegrið. Það var ekki gert og sú ástæða gefin, að vegrið myndi safna snjó í brekkuna. Þar með gerðist ekkert frekar í því. Síðan þá hefur komið til sögunnar ný tegund vegriða sem ekki safnar snjó á vegi. Þau má t.d. finna á Hellisheiði, við hringtorgið mikla á Borg í Grímsnesi og í brekkunni við Litla-Fljót. Nú vil ég fara fram á það, að vegrið af þessu tagi verði sett með veginum um Skálholtsbrekkuna, þó ekki væri nema bara þar - helst, auðvitað líka við Spóastaðabrekkurnar.


Ég leyfi mér ennfremur að mælast til þess að snjómokstur á þessum vegarkafla hefjist það snemma að morgni, að hann nýtist þeim sem þurfa að sækja vinnu milli þéttbýlisstaða í uppsveitum. Loks fer ég fram á það, að missigið við Spóastaði, sem ég nefni hér að ofan verði lagfært. Ég á bágt með að trúa því, að vegurinn eigi eftir að síga meira en orðið er.


Með von um að áfram verði haldið á þeirri braut með hálkuvarnir sem ég hef upplifað þessa síðustu daga (þó svo mér sé meinilla við að aka fína bílnum mínum í saltpækli) og von um að erindi mitt að öðru leyti verði tekið til alvarlegrar skoðunar.


Páll M Skúlason
Kvistholti, Laugarási

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...