02 desember, 2012

Að öskra sig inn í þjóðarsálina

"Still waters run deep" Þegar þetta máltæki er yfirfært á mannfólkið felur það í sér, að sá sem ekki fer með látum um jarðlífið, búi yfir einhverskonar persónulegri dýpt; velti fyrir sér því sem hann hefur fram að færa, er skynsamur, sér fleiri en eina hlið á málum. Andstæðan væri lækurinn sem skoppar niður brekku í stjórnleysi sínu.

Í Hávamálum segir að þagalt og hugalt skyldi þjóðans barn vera.

Ég var ekki lengi að læra það í mínu starfi, að það leysti engin mál að reyna að yfirgnæfa nemendur með því að tala hærra en þeir. Það virkaði betur að tala lægra og skýrar, nota færri orð.

Skrítinn inngangur atarna.

Línan sem forystumenn Flokksins fara með um þessar mundir virðist hljóða upp á eftirfarandi:
Tala hratt - svo hratt að engum takist að spyrja nánar út í það sem þeir voru að segja.
Tala hátt - svo hátt að það yfirgnæfi öll önnur hljóð.
Tala í frösum - nota sömu hugtökin aftur og aftur svo fólk þurfi ekki að hugsa út merkinguna, enda varla hægt vegna hraðans.
Tala í endurtekningum - endurtaka sömu frasana minnst fjórum sinnum í hverju viðtali, enda er það eina leiðin til að fólkið viti hvað verið er að segja, fyrir utan það að þá virðist maður hafa eitthvað að segja og tekst að fylla upp í tímann sem maður fær.
Hneykslast og móðgast - í eins stórum tíl og mögulegt er. Telja alla vera á móti sér og Flokknum (að ógleymdri sjálfri þjóðinni)

Í gær var viðtal á RUV við sigurvegarann í höfuðborginni. Ég heyrði ekki hvað hann sagði því ég var svo upptekinn af að dást að því hver hratt hann gat talað. Hann minnti mig á fjallalækinn sem hoppar og skoppar niður hlíðarnar. Það var það eina sem eftir stóð, en sigurvegarinn kom ótal orðum í loftið.

Í morgun var viðtal á Bylgjunni við formann Flokksins. Hann talaði ekki jafn hratt og hefði því tapað að því leyti, en hann sigraði hinsvegar með góðum yfirburðum í "tala hátt" hlutanum og "tala í frösum" hlutanum. Ég hafði reyndar áhyggjur af hátölurunum í frúarbílnum og lækkaði því í útvarpinu.

----

Fólk sem talar hátt og hratt, í frösum og endurtekningum nær engan veginn að höfða til mín. Þannig fólk sendir frá sér þá mynd að það sé ekki í jafnvægi og ekki treystandi til að takast á hendur þá ábyrgð sem forysta í ríkisstjórn krefst.





1 ummæli:

  1. "Bjarna rak hvergi í vörðurnar svo að ég, sem hinn smæsti af öllum smáum flokksmönnum, tendraðist bókstaflega upp og fann til stolts að eiga foringja sem þannig getur talað eins og beint út úr mínu hjarta."

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...