20 nóvember, 2012

Fordómar í fyrirrúmi

Þeir virðast vera harla margir sem telja það vera viturlega leið, að ætlast til þess að þessi þjóð greiði atkvæði um aðild að ESB áður en fyrir liggur niðurstaða í samningaviðræðum og í ljós komi um hvað er þar að ræða.

Þetta finnst mér einstaklega óskynsamlegt.

Kannski er rétt að ég skelli hér inn yfirlýsingu um að ég hef ekki gert upp hug minn um þetta mál, enda tel ég það fyrir neðan virðingu mína (hrokinn, Guð minn almáttugur!) að taka einarða afstöðu með eða móti einhverju á grundvelli fordóma minna einna saman.

Það er búið að karpa um þetta ESB mál í ansi mörg ár. Það er tími til kominn að upplýst þjóðin fái að afgreiða það með einum eða öðrum hætti. Að öðrum kosti heldur karpið áfram um ókomna tíð. Óupplýst þjóðin myndi taka slíka afstöðu á grundvelli fordóma sinna með eða á móti, en ekki þekkingar á því sem þessi aðild hefði í för með sér.

Ég veit að þeir eru margir sem telja sig hafa höndlað hinn eina sannleik um þetta hræðilega bandalag. "Sjáiði, Spán, sjáið bara Portúgal! Viljum við fara sömu leið og Grikkland? Vitiði ekki að meirihluti Breta vill ganga úr Evrópusambandinu? Við munum missa yfirráðin yfir fiskimiðunum!, Ég vil ekki að Þjóðverjar ráði yfir Evrópu (lesist: fyrrverandi Nazistar, væntanlega)" - og svo framvegis.

Hvenær varð Evrópa svona hræðilegt fyrirbæri?


Mér finnst að að mörgu leyti megi bera saman umræðu um þessa aðildarumsókn og þegar einstaklingar eru sviptir ærunni fyrir framan alþjóð, sárasaklausir. Skotið fyrst og spurt svo. Það má ekki verða í þessu máli.

Ég held að við ættum að anda rólega og bíða þar til í fyllingu tímans með að greiða atkvæði okkar um þetta mikilvæga mál. Þá getum við hætt þessum illþolandi, innihaldslausu upphrópunum um eitthvað sem við vitum í rauninni ekki hvað er.

---

Þá er það frá í bili.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...